04.05.1950
Efri deild: 100. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

106. mál, útsvör

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var nú út af ummælum hv. þm. Barð. Mér finnst nú málið horfa nokkuð öðruvísi en hann vildi vera láta. Ég geri ráð fyrir, að samþykkt þessarar till. mundi fremur seinka endurskoðun l. vegna þess, að ef menn búast við, að lögin verði endurskoðuð í heild á næstunni, þá samþykkja menn ekki þetta frv., og samþykkt þess er þá vitni þess, að menn búast ekki við, að útsvarslöggjöfin verði endurskoðuð í bráð. Ef hv. þm. Barð. er óánægður með frv., ætti hann því að vera hæstv. forseta samferða um afstöðu hans.

Ég hef nú talið, að frv. skipti ekki ýkja miklu máli. En það hefur þó tekið svo miklum bótum við meðferð málsins, að ég teldi skaðlítið, þótt það yrði samþykkt. Hins vegar mundi það ýta nokkuð undir endurskoðun útsvarsl. í heild, ef það yrði fellt, og ég mun því greiða atkvæði á móti því. Mín afstaða stjórnast þannig af sömu forsendum og hv. þm. Barð., en við drögum aðeins af þeim gagnstæðar ályktanir.