10.02.1950
Efri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Af því að ég heyri, að hæstv. ráðh. hefur illa fylgzt með, held ég, að það sé rétt, að ég reyni að láta hann átta sig á því, að það er ómögulegt að selja land, sem ríkið á — gersamlega ómögulegt — nema eftir lögum nr. 116 30. des. 1943. Eftir 47. gr. þeirra laga er heimilt að selja jarðir, sem eru í erfðafestu, ef ábúendurnir gera þær að ættaróðulum og að öðru leyti uppfylla viss skilyrði, sem þar er fyrir mælt, eins og t. d. að hafa búið á jörðinni í fimm ár o. fl., sem þar um ræðir. Þess vegna er útilokað, að hann geti selt nokkrar af þessum jörðum fyrr en þessir, sem tekið hafa jarðirnar á leigu, hafa fengið þær í erfðaábúð. Og þó er, þótt undarlegt sé, töluverð tregða á að fá erfðaábúð á jörðum, sem það opinbera leigir út. T. d. veit ég um einn bónda í Biskupstungum, sem reynt hefur að fá erfðaábúð á einni jörð, að það hefur verið tregða á, að hann geti fengið erfðaábúð á henni, og hann hefur ekki fengið hana enn, þó að ég telji, að hann eigi heimtingu á því, eftir gildandi lögum. — Ég skal ekki að öðru leyti blanda mér í þær umr., sem hér hafa átt sér stað, en vil vona, að ráðh. taki þetta til athugunar, að láta allar þessar jarðir heyra undir sama ráðuneyti og koma fastari og ákveðnari skipun á þessi mál, en nú er.