10.02.1950
Efri deild: 52. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Landbrh. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. N-M. (PZ), að það væri á því þörf að koma á fastari skipun eða ákveðnari aðgerðum varðandi þessar opinberu jarðir, og meðal annars er það ekki heppilegt eins og verið hefur og er, að þær heyri undir tvö ráðuneyti, eftir því hvers eðlis þær eru. Það kann að vera, að það séu nýjar upplýsingar — ég heyrði það ekki hjá hv. flm. —, að þær jarðir, sem hér um ræðir, séu engar í erfðaábúð, því að það er rétt hjá hv. 1. þm. N-M., að ákvæðin eiga við jarðir, sem eru í erfðaábúð. Mikill hluti þeirra jarða, sem heyra undir landbrn., eru í erfðaábúð og mjög mikið af kirkjujörðum, og eins og eðlilegt er, er mjög sótzt eftir að fá þær í erfðaábúð, þar sem því fylgja ólíkt betri kjör. En séu engar þessar jarðir í erfðaábúð, þarf um það sérstök lög, eins og nú er háttað, en eðlilegast væri að snúa frv. í það horf, að gefin væri almenn heimild til að selja ábúendum þær jarðir, sem það opinbera á, hvort sem þær eru í erfðaábúð eða ekki, ef þær eru gerðar að ættaróðulum.