07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og í nál. segir, hefur n. rætt málið ýtarlega sín á milli og einnig við Friðgeir Björnsson fulltrúa, sem er umsjónarmaður með opinberum jörðum. Ég skal minna á, að á síðustu tveim áratugum hafa hér á þingi staðið nokkuð harðar deilur um það, hvort rétt sé að selja opinberar eignir. Þær hafa gengið á ýmsa vegu, en fyrir nokkru varð samkomulag um það, að óhagstætt væri fyrir búskapinn á þessum jörðum að vera stöðugt að selja þær og með síhækkandi verði og hækkandi afgjöldum, sem næmi vöxtum vegna hækkandi söluverðs þeirra. Þetta samkomulag varð á þá leið, að þær opinberar jarðir, sem færu í erfðaábúð, yrðu sem líkastar því, að í sjálfsábúð væru. Með því, að gefinn yrði kostur á því, að jarðirnar yrðu að ættaróðulum, yrði og komið í veg fyrir, að þær gengju kaupum og sölum, eins og átt hefur sér stað með jarðir, að menn hafa fleygt þeim á milli sín á markaðinum. — Að þessu frv. stóðu menn, sem voru á ólíkum meiði, en þar kom, að n. varð sammála um, að heppilegast sé að jarðirnar séu í varanlegri ábúð, en það kalla ég erfðafestu og ættaróðul. Svona verður að líta á nál. En þótt heppilegast sé talið, að þær séu í varanlegri ábúð, þá eru til undantekningar frá þessu. Ríkið hefur enn ýmsa fasta starfsmenn úti um land. Þarf og hefur þurft á að halda jörðum handa sumum þeirra til búskapar. Í öðru lagi er það að byggðin er að breytast, færast til frá dreifbýlinu og til þéttbýlisins, þorpa úti við sjó og uppi í landi, t. d. Selfoss. Þar er misjöfn aðstaða til afkomu, en lífsnauðsyn er víða að stunda bæði sjó og land og lifa á eigin framleiðslu. Þar, sem opinberar jarðir liggja að slíkum stöðum, þá finnst nm., að eigi megi selja slíkar jarðir og láta með því kaupanda verða millilið og græða á sölu þeirra eða hluta af landi þeirra aftur. Teljum við því eigi rétt að selja þær. Með þessum tveim undantekningum teljum við rétt að koma þeim jörðum, sem eigi eru þegar í erfðaábúð, í óðalsréttarábúð. — Þá viljum við benda á jarðir, sem eru í eyði. Þær eru ríkinu til þyngsla, og er hæpið, að það eigi að eiga þær áfram. Er alkunnugt dæmið um það, að bóndi einn bað um að fá keypta jörð nokkra fyrir löngu. Viðkomandi sýslunefnd mælti þó á móti sölu jarðarinnar, því að henni fylgdi svo mikið fjalllendi. Árið eftir fékk bóndinn jörðina svo keypta án fjalllendisins. Síðan bjó hann á henni í 40 ár. En kostnaðurinn við að smala landið varð skv. reikningi, sem hann sendi ríkinu árlega, meiri og það miklu meiri öll árin, en hann hafði í öndverðu greitt fyrir jörðina, svo að hann fékk jörðina fyrir að smala fjallið. Þannig getur farið um eyðijarðir. Á jarðareiganda hvíla ýmsar skyldur, og get ég því, mælt með því að selja jarðir, sem eru í eyði.

Jarðir þær, sem um er að ræða, höfum við talið upp í nál., og gert hverri einstakri skil. Ég skal fylgja nál., ef eitthvað kann að skýrast við það.

1. Þjóðjörðin Bakki í Svarfaðardal. Þessi jörð hefur verið setin um skeið af tveim feðgum, sem hafa gert hana að því, sem hún er nú. Þetta er góð jörð, með sæmilegum timburhúsum. Eru þarna 20 stórgripir, og nokkurt fjárbú hafði bóndinn áður en fjárskiptin komu til. Hér verður eigi bætt við bústofninn fyrr en ræktað land vex. Ég býst við, að hann geti komizt í 30 nautgripi; þegar ræktaða landið vex, en landið til beitar verður minna, og vaxi búið úr því, verður að beita á ræktað land. Við þurfum að hafa stórbú. Það er stefnan nú. Er það sízt of stórt, þótt þessi jörð vaxi, og við teljum þetta eigi þá jörð, að ríkið eigi að fara að skipta sér af henni, t. d. í því skyni að skipta henni niður í smábýli. Hún er hæfilega stór fyrir einn bónda næstu áratugi. Ég skal ekkert segja um það, hvernig verður þegar allt land jarðarinnar er upp ræktað, en þá hefur bóndinn leyfi til að skipta henni upp á milli sona sinna og ræður því þá, hvernig það verður gert. Það er ekkert, sem bendir á, að þetta verði embættismannsbústaður, og ekkert heldur, sem bendir á, að þarna myndist þorp. Við leggjum því til, að jörðin verði seld, en hún þó gerð að ættaróðali, svo að hún fari eigi í brask og ábúendum framtíðarinnar þar með íþyngt með milliliðagróða. —. Í l. nr. 116 1943 er tekið fram, með hvaða skilyrðum opinberar jarðir eigi að seljast. 1. brtt. okkar mælir því með, að jörð þessi verði seld. Öll þau skilyrði eru hér til staðar nema það eitt, að jörðin hefur ekki verið í erfðaábúð, heldur byggð til lífstíðar, en það frávik er hér aukaatriði.

2. Ríkisjörðin Stærri-Árskógur. Ég tel, að menn geti áttað sig á till. okkar um hana. — Þá viljum við geta þess, að Hauganes er þorp frammi við sjóinn, þar sem menn lifa á þeim afla, sem þeir fá á hinum litlu trillum sínum, er þeir róa á út á mið Eyjafjarðar og fiska. Þetta Hauganes er byggt úr Selárlandi. Ég ætla, að 12 kýr séu á Hauganesi nú. Íbúar þess hafa fengið uppmældan til ræktunar þann hluta Selárlands, sem liggur norðan við þverveg þann á Árskógsströnd, sem liggur niður að Hauganesi. Þennan hluta hafa þeir fengið útmældan upp í þá mýri miðja, er þarna er, að mörkum Stærra-Árskógslands. Norðan við hann tekur við jörðin Brimnes, en að sunnan Selárbakki. Ef Hauganesbúar vilja meira land, eiga þeir um tvennt að velja. Í fyrsta lagi að leggja Selána niður og skipta henni upp. Hún er þó sæmilegt býli, þótt búið sé að taka frá henni mýrina norðan vegar. Í öðru lagi að fara upp fyrir byggðina og skipta mýrinni upp. Víst er, að ef Hauganes stækkar, þurfa íbúar þess meira landrými, ef þeir ætla sér að stunda landbúnað. Flyttu íbúarnir hins vegar burt til Dalvíkur, Ólafsfjarðar eða Siglufjarðar, kæmi það að sjálfsögðu. eigi til greina. En nú er nýbyggt hús á einu hinna nýræktuðu landa, og fleiri vilja byggja þar. Þá er ekki sýnilegt, að taka muni fyrir útgerð smábátanna. T. d. aflaði einn á Bakkafirði 70 skippund síðastliðið sumar, og var á einn maður. Meðan þeir geta gefið þetta, þá er ég ekki viss um, að leggja eigi þessa útgerð niður, og þorpin, þ. á m. Hauganes, geta átt sér framtíð í aukinni ræktun, ef í þeim fjölgaði, samhliða sjósókn sinni. En um Stærra-Árskóg er það að segja, að í landi hans hefur verið byggður barnaskóli og samkomuhús er í vændum, en óútkljáð er um lóð handa því og eins kennarabústað. Enn hafa engir samningar verið gerðir um þetta. Þá hafa verið byggð tvö hús, er þurrabúðarmenn hafa reist í hálfgerðu óleyfi hins opinbera, en með leyfi ábúandans.

Það eru því margar stoðir, sem renna undir, að við leggjum til, að Stærri-Árskógur verði ekki seldur.

3. Þjóðjörðin Syðri-Bakki. Hún liggur sunnan og ofan við Hjalteyri, í krikanum fyrir ofan Arnarnesland, sem er „prívat“-eign. Í krikanum eru 4 býli, sem hafa fengið land keypt úr Arnarneslandi, en að hluta úr Hjalteyri. Þá er Syðri-Bakkaland, sem er næsta jörðin, sem talað er um í frv. Þessi jörð á ákaflega gott ræktunarland. Hér er allt, sem til þarf, og búið þegar að byggja þrjú býli, sem eru: Bakkagerði, sem er gamalt og fengið hefur 5 ha; Gilsbakki, er fengið hefur 4 ha til ræktunar, og nafnlaust býli í eigu Ólafs Ólafssonar, sem fengið hefur 1 ha og búizt er við, að þurfi meira land.

Árlega er um það spurt, hvort ekki sé unnt að fá ræktunarland úr Syðri-Bakkalandi. Kemur það mest frá Hjalteyri. Enn hefur þó eigi verið látið meira, en undir þrjú býli. Það er eigi búið að mæla upp landið og skipuleggja, hvernig skipta eigi því í skákir. Því er svipuðu máli að gegna með Syðri-Bakka og Stærra-Árskóg, að líkindi eru til, að hér vaxi upp þorp. Er fengin vissa fyrir því, að menn, sem búa við Hjalteyri, telja sig vilja fá land. Ef Syðri-Bakki væri því seldur nú, þá mundu skapast milliliðir, sem geta grætt á braski með jörðina. Vegna þessa leggjum við hér til, að ábúandanum verði ekki seld jörðin. Þessi maður er nýbúinn að byggja og hefur fengið gegnum ríkið töluverðan styrk og hagfelld lán úr byggingarsjóði.

Við leggjum því á móti, að þessar tvær jarðir verði seldar, með þeim rökum, er nefnd voru.

4. Eyðijörðin Fagranes í Öxnadal. Bæjarhúsin, sem þar voru, brunnu fyrir skemmstu. Bar það við fyrir slys. Þar voru vegavinnumenn, og einhvern veginn kviknaði svo í bæjarhúsunum, svo að þau brunnu. Á því ábúandinn, hver sem hann verður, kröfu á Brunabótafélag Íslands, er nemur 8.323 kr., sem var matsverð húsanna. Óvíst er, hvernig fer um jörð þessa. Mér sjálfum þykir ólíklegt, að hún byggist að nýju, þótt hún hafi öðru hvoru verið í byggð. Hitt þykir mér líklegra, að Glæsibæjarhreppur og Öxnadalshreppur þurfi á afréttarlöndum að halda niður undir Engimýri. Ég er sannfærður,um, að eftir fá ár fjölgar sauðfé aftur, því að það eru og verða afurðir þess, er landbúnaðurinn flytur út. Ég er viss um, að þrátt fyrir það að þróunin hafi nú um skeið verið sú að fjölga kúm, þá muni fjölgun koma í sauðféð, örari en menn munu ætla nú. Koma þá þessir tveir hreppar til með að þurfa allan botninn á Öxnadal til afréttarlanda. Fyrir framan Fagranes er ein jörð í byggð, þeim megin ár, en hinum megin er í byggð Bakkasel, þar sem er gistihús. Hin fyrrgreinda jörð, Gloppa, hefur eigi alltaf verið í byggð, og þróunin getur orðið sú, að hún leggist í eyði og þá verði allur framdalurinn, niður að landi Geirhildargarða, gerður að afréttarlandi. Og mér hefur verið sagt, að Gloppa fari í eyði í vor. Því er eigi tekið fram í till. okkar, hverjum eigi að selja jörðina Fagranes, en það er sérálit mitt, að áður en salan fer fram ætti að leggja fyrir meðmæli frá sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu, því mig grunar, að land hennar þurfi fyrir upprekstrarland. Þetta er m. ö. o. ekki álit allrar n. í heild.

Það mætti segja mér, að nú væri svo mikill mjólkurframleiðsluhugur í Eyfirðingum, að þeir væru ekki búnir að átta sig á, að þá gæti komið til með að vanta afrétt fyrir sauðfé sitt, og þess vegna gæti kannske sýslun. mælt með því nú að selja Fagranes, þó að hún vildi eftir 10 ár láta viðkomandi hreppsnefndir kaupa það aftur fyrir afrétt. Þess vegna höfum við ekki tiltekið neitt um það, hverjum ríkisstj. seldi jörðina, heldur bara leyft að selja hana. Hins vegar er þess að gæta, að hver sem eignast jörðina á kröfu á Brunabótafél. Íslands upp á 8.323 kr., ef hann byggir á jörðinni. Hversu mikils virði sú krafa er, fer eftir því, í hvaða augnamiði jörðin er keypt. Við höfum gert till. um, að til þess arna sé tekið tillit við sölu jarðarinnar, og er þá meiningin sú, að það skuli liggja fyrir, áður en selt er, hvort sá, sem kaupir jörðina, ætlar sér að byggja á henni eða ekki. Ef hann ætlar sér ekki að byggja, þá afsalar hann sér formlega kröfunni og hún fellur niður. En ég vil ekki, að þessi jörð sé seld til þess að sá, sem kaupir, geti kannske eftir eitt ár selt hana aftur fyrir hærra verð, af því að krafan fylgir henni, til einhvers, sem kynni að vilja eignast nýbýll. En nýbýli hafa verið reist á þessu ári, sem eru eins mikið út úr og Fagranesið. Það er ómögulegt að segja um, hvar mönnum dettur í hug að reisa nýbýli, og hugmyndir manna eru ólíkar um það, hvar gott sé að búa. Ég vil fyrir mitt leyti þess vegna láta taka tillit til þessa og fá úr því skorið áður en sala fer fram, svo að sá, er kaupir jörðina nú, hagnist ekki á henni vegna kröfuréttarins.

Þá hefur komið fram till. um það frá hv. þm. Barð., að við yrði bætt heimild um að selja eyðijörðina Granda í Ketildalahreppi. Grandi liggur fremst í Bakkadal, móti jörðinni Feigsdal. Bóndinn, sem þar bjó, fluttist þaðan á síðastliðnu vori og flutti á næstu jörð fyrir neðan Granda, sem heitir á Hóli. Það fór fram úttekt á þessari jörð, þegar bóndinn fór þaðan, og mat á húsum og mannvirkjum, sem þar eru og hann á og á kröfu á að fá endurgreitt, svo fremi að úttektarmenn telji þau jörðinni ekki ofviða. Úttektarmenn telja, að svo sé ekki og úttektargerðin skýrir frá því, að ríkissjóður eigi að borga honum kr. 6.875.00. Friðgeir Björnsson, sem úttektargerðin er hjá, hefur viðurkennt þetta, og þess vegna teljum við, að ef hún verður seld, verði ríkissjóður að fá þessa upphæð, fyrir utan jarðarverðið, þar sem ríkissjóður þarf sjálfur að greiða þetta til fáfarandi bónda. Við höfum ekki heldur tekið upp í brtt., hverjum jörðin skuli seljast, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að við erum ekki vissir um það, hvort bóndinn í Feigsdal, sem ætlar sér að leggja Granda undir sína jörð, a. m. k. nú sem stendur, kærir sig um að kaupa mannvirki jarðarinnar fyrir það verð, sem þau eru metin á. Hins vegar geta fleiri menn komið til greina sem kaupendur jarðarinnar til þess að búa þar, sem þá líka vilja kaupa þessi mannvirki fyrir þetta verð. Þennan möguleika höfum við ekki viljað útiloka. Sumir menn vilja heldur búa á jörðum, sem þeir teljast eigendur að sjálfir, þó að þeir skuldi allt jarðarverðið, heldur en á jörðum, sem þeir eiga ekki, þó að þeir hafi á þeim erfðaábúðarrétt. Það er erfitt að skilja slíkan hugsanagang, en þetta er þó raunveruleiki, og við vildum þá ekki loka fyrir þann möguleika, að sá maður, sem vildi fá jörðina til ábúðar og flytja þangað, gæti keypt hana og þá líka mannvirkin fyrir það verð, sem ríkissjóður þarf að borga fyrir þau. — Hef ég þá gert grein fyrir þeim till., sem legið hafa hér fyrir áður.

Ég vil þá að síðustu geta þess, að tveir menn hafa beðið mig að koma hér að jörðum. Þær eru báðar kristfjárjarðir. Ýmsir líta þannig á, að þær séu í allt öðru númeri en aðrar opinberar eignir. Þær eru allar gefnar í einhverjum ákveðnum tilgangi, sumar hreppsfélögum, en aðrar til ákveðinna sjóða, eins og t. d. Utanverðunes í Skagafirði, sem er gefin til þess, að eftirgjaldið af henni renni til fátækra prestsekkna í Skagafirði. Það er því ákaflega misjafnt, í hvaða augnamiði þessar jarðir eru gefnar. Gjafabréf hafa verið til fyrir þeim, og er í sumum þeirra tekið fram, að ekki megi selja þessar jarðir, og mér er sagt, að svo sé með aðra þessa jörð, sem ég hef verið beðinn að koma inn í þetta frv. Ég mun því ekki nefna hana á nafn, þó að í hlut eigi flokksbróðir minn og kunningi. Ég ætla ekki að fara að leiða það inn á Alþ., að rofin séu gjafabréf dáinna manna. Hin jörðin er líka kristfjárjörð, en gjafabréfið er löngu glatað. Hvernig það hefur verið, vita menn ekki nema að nokkru leyti. Menn vita, að þrjár jarðir voru gefnar, tvær í Fljótsdal og ein í Jökuldal. Þær voru gefnar þannig, að presturinn á Valþjófsstað átti að sjá um byggingu þeirra og hafa afgjöldin af einni jörðinni fyrir það. Afgjaldið af hinum tveimur jörðunum átti að vera það, að þær áttu að hafa á framfærslu þyngsta ómaga hreppsins. Fyrir og eftir aldamótin og þar til kringum 1940 bjuggu á einni af þessari jörð hjón, sem hétu Sölvi og Sigríður, og svo ekkjan eftir lát mannsins. Þá var þetta framkvæmt þannig, að presturinn á Valþjófsstað fékk eftirgjaldið eftir Merki, en hjónin á Arnheiðarstöðum höfðu þyngsta ómagann, en þau tóku afgjaldið af Geitagerði. Það er Geitagerði, sem ég hef verið beðinn að koma inn í þetta frv. Þegar Sigríður fór frá Arnheiðarstöðum og hætti að halda þyngsta ómaga hreppsins, var þessu breytt og gjafabréfið þar með rofið að því leyti, að hætt var að láta prestinn sjá um jarðirnar, en afgjaldið af Merki var látið renna til stjórnarráðsins, sem nú tók að sér hlutverk prestsins. Afgjaldið af hinum jörðunum rennur til hreppsins og enginn ómagi er á framfærslu hans. Það stendur líkt á með Geitagerði og Bakka í Svarfaðardal. Þar hafa búið tveir feðgar, fyrst Guttormur, sem á sínum tíma var á Alþ., og síðan sonur hans Vigfús. Jörðin er prýðilega setin, jafnvel enn betur en Bakki, og hún hefur mjög verið bætt af þeim feðgum, allar byggingar eru gerðar af þeim og fengin nýtízku tæki. Frá almennu sjónarmiði er ekkert, sem mælir á móti því að selja jörðina. Jörðin er landlítil, og nýbýli eða skipting jarðarinnar kemur ekki til greina. Það er því ekkert frá því sjónarmiði, sem mælir á móti því, að hún sé seld, nema það, að hún er kristfjárjörð. Ég vil nú benda á, að því er ekki ólíkt farið með kristfjárjarðir og kirkjujarðir, en það er alltaf verið að selja kirkjujarðir. Þær voru gefnar af einstaklingum til kirkjunnar með ákveðnum skilyrðum og endurgjaldið notað til að halda kirkjunni við á einhvern hátt og efla guðsþjónustuhald hennar. Ríkið hefur tekið allar kirkjujarðir og rennur afgjald þeirra í ríkissjóð, en svo hefur söfnuðurinn verið látinn sjá um það hlutverk, sem afgjald jarðanna átti að standa undir. Ég sé því ekki mikinn mun á því, hvort um er að ræða kirkjujarðir eða kristfjárjarðir. Þar að auki hafa kristfjárjarðir verið seldar, eins og t. d. Hrafntóftir í Rangárvallasýslu, sem seld var með leyfi sýslun. einnar og ekkert um það spurt til Alþ. Nú er talið, að Alþ. þurfi að samþ. sölu á kristfjárjörðum, en það er mjög vafasamt, að Alþ. hafi nokkuð yfir þessum jörðum að segja. Þær eru gefnar, eftir því sem menn bezt vita, með þeim skilyrðum, sem ég áður hef greint frá. Það var ekki, svo að menn viti, talað um, að kóngurinn eða yfirvöldin ættu að sjá um þetta. Ég hefði ákaflega gaman af því að heyra álit manna um þetta og óska eftir að fá að heyra það við þessa umr., hvort menn telja eðlismun á kristfjárjörðum og kirkjujörðum og hvort rétt sé að selja aðrar, en hinar ekki. Ég mun beygja mig fyrir afgreiðslu málsins hér á Alþ., en ef ég heyri það, að menn geri ekki á þessu mikinn mun, mun ég við 3. umr. koma með till. um að bæta Geitagerði við, með sérstökum hætti þó. Það verður að gera hana að ættaróðali. Það er skilyrðislaus krafa frá minni hendi a. m. k. Og það verður að mynda sjóð af andvirði jarðarinnar, og vöxtum af honum á að verja á sama hátt og afgjaldinu var varið. Með því tel ég, að gjafabréfið sé sáralítið eða ekki brotið. Ef ég sem sagt heyri það, að þm. gera ekki mikinn mun á, hvort um er að ræða kristfjárjarðir eða kirkjujarðir, þá er ég alveg ákveðinn í því að flytja brtt. um að bæta Geitagerði inn í frv.

Ég vil svo að síðustu benda á það, að þótt verið sé að samþ. svona l. um að selja jarðir og þó að það hafi verið gert annað slagið síðan þetta samkomulag varð, þá hefur venjulega verið sett í l., að jarðirnar skyldu gerðar að ættaróðulum. En það hefur þó sýnt sig hvað eftir annað, að menn, sem hafa komið hér og viljað fá jarðir keyptar, þeir hafa aldrei minnzt á málið framar, þegar búið hefur verið að setja þessi skilyrði, að jörðin skyldi gerð að ættaróðali. Árið 1944, þegar síðast voru samþ. svona l., voru nokkuð margar jarðir, sem komu til greina, en fjórar þeirra var aldrei spurt um eftir það. Borgarstjórinn, Gunnar Thoroddsen, flutti frv. og taldi, að t. d. væri alveg nauðsynlegt að selja og gera að ættaróðulum jarðirnar Emmuberg og Laxárdal í Skógarstrandarhreppi. En síðan var heimilað að selja jarðirnar og gera þær að ættaróðulum, og hefur enginn minnzt á að kaupa þær síðan. (ÞÞ: Þær eru komnar í eyði.) Þær hafa þá orðið að ættaróðulum á þann veg. Sama er að segja um jarðir norður í Norður-Múlasýslu, það hefur ekki verið nefnt á nafn að kaupa þær, eftir að þær voru gerðar að ættaróðulum. Ég held þess vegna, þó að við séum samþykkir því að leggja það til, að þessar jarðir séu seldar, og þó að við höfum ekki sett nein skilyrði viðvíkjandi eyðijörðunum tveimur, þá sé varhugavert að vera um of viljugur á að heimila slíkar sölur, og ég held, að rétt sé að halda þeirri stefnu að halda sér við það, að bezta ábúðarformið sé erfðafesta og ættaróðul, en selja jarðir ekki öðruvísi, nema þegar alveg sérstaklega stendur á og um er að ræða eyðijarðir eins og þær, sem hér um ræðir.

Brtt. okkar á þskj. 393 eru í samræmi við það, sem ég hef nú verið að tala um, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það frekar.