07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af skilyrðum þeim, sem sett eru í brtt. á þskj. 393, varðandi bótagreiðslu til eiganda Fagraness, vil ég taka það fram, að í 12. gr. l. nr. 73 1942 stendur: „Bætur fyrir tjón á húsum má aðeins greiða til þess að gera við hús, sem skemmzt hefur við bruna, eða endurbyggja á sama stað hús, er brunnið hefur, eða þar sem félagið, í samráði við byggingarnefndir í kaupstöðum og kauptúnum og hreppsnefndir í sveitum, ákveður, og er félaginu skylt að tryggja það, áður en brunabæturnar eru greiddar, að þeim sé réttilega varið. Félaginu er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu samkvæmt ákvæðum fyrri málsgreinar þessarar gr., þó svo, að 10–20% af brunabótaupphæðinni sé þá dregið frá, nema almannahagur heimti, að vikið sé frá þessu ákvæði um frádrátt eða ástæður, sem tjónþola er ekki sjálfrátt um.“

Nú vil ég spyrja hv. frsm., hvort n. sé viss um, að þetta fé hafi ekki þegar verið greitt út, og hafi það ekki verið gert, hvernig stendur þá á því, að ríkissjóður skuli ekki geta fengið þetta greitt, áður en hann selur. Annars verð ég að segja, að mér finnast þessi l. harla undarleg. Ég verð að segja, að það er undarlegt, að þessar tryggingar skuli ekki vera greiddar út, þegar brennur, þar sem eigandi er skyldur til að tryggja hús sín og þarf að greiða af þeim fullt gjald, og að mínu áliti væri full þörf að athuga þessa lagasetningu og framkvæmd, og þætti mér vænt um að heyra fyrir næstu umr., hvort ríkisstofnun eins og Brunabótafélagið beitir svona ákvæðum.

Svo var það óðalsrétturinn. Hv. frsm. sagði, að menn vildu ekki beygja sig undir óðalsréttinn og vildu heldur eiga jarðirnar sjálfir, og finnst mér það ekki undarlegt, þar sem svo mikill tvískinnungur er í þessari löggjöf, að ríkið á jörðina, en ábúandi hús, sem stafar af því, að hann verður allt að sækja undir ríkið í þessum efnum, en það er seint í svifum, og vill hann þá oft heldur leggja í það sjálfur að byggja en bíða eftir, að ríkið geri það. Sem dæmi um það, að það er ekki einhlítt, þó að ríkið eigi jarðir og lóðir, er það, að í Hafnarfirði leigir bærinn út ódýrar lóðir, en oft eru eignir seldar hærra verði þar vegna þess, að þær standa á ódýrum lóðum, svo að ekki er hægt að fyrirbyggja okur á þessu sviði, þó að lóðir séu leigðar. Og þegar það sýnir sig, að menn vilja heldur, að jarðir fari í eyði, en kaupa þær með óðalsrétti, er það sýnilegt, að eitthvað er bogið við þetta.