10.03.1950
Efri deild: 70. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm., (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður og ekki mun ég svara hnútum hv. þm. Barð., því að það þýðir ekkert. Þær eru ætíð marklaust hjal. Ég skal nú strax lýsa yfir viðvíkjandi því, sem hv. 11. landsk. var að tala um, að ég mun ekki taka aftur brtt. mína, og er það af ýmsum ástæðum, en höfuðástæðan er þessi: Árið 1944 var skipuð n. til að gera till. um skipun læknishéraða. Hún hefur enn ekki skilað áliti. Fyrir þrem árum var skipuð n., sem samræma átti byggingar opinberra starfsmanna, en hún hefur enn ekki skilað áliti. Og nú eru eitthvað yfir tíu n., sem skipaðar hafa verið í ýmsum málum og aldrei hafa skilað álitum. Það er og yfirleitt svo, að ef eitthvert mál á að fá hægt andlát, þá er í það skipuð nefnd. (ÞÞ: Ég vil aðeins benda hv. þm, á, að ég var ekki að tala um að skipa n. í málið.) Nei, ekki núna, en ég mun koma að því seinna. Hins vegar hefur verið talað mikið um það, að hæpið væri, að þessi till. stæðist, og byggt á því, að vafamál væri, hver hefði umráð yfir kristfjárjörðunum. Hver fer með valdið? Hver fer með valdið yfir Reyni annar en sá, sem tilnefndur er í gjafabréfinu? Og ef við á sama hátt viljum binda okkur við gjafabréf í sambandi við þessa jörð, þá hafa umráð yfir jörðinni vafalaust verið ætluð prestinum eða prófastinum á Valþjófsstað, þótt bréfið finnist ekki. En í þessu tilfelli hefur ríkið tekið valdið yfir jörðinni í sínar hendur og er því áreiðanlega æðsti umboðsmaður jarðarinnar. En vextirnir af jörðinni eiga að renna til hreppsins, en af því að ríkið er búið að taka í sínar hendur æðstu stjórn yfir jörðinni, þá hefur það einnig eignað sér vexti hreppsn. Það er þess vegna alveg laukrétt með þessa jörð, að ríkið á að heimila hreppnum að selja hana. En ef nú hins vegar hæstv. forseti úrskurðaði, að ekki væri hægt að bera þessa till. hér upp, þá þætti mér einnig vænt um það, því að það er úrskurður um, að Alþingi hafi ekki æðsta vald yfir jörðinni, og hafi Alþingi ekki yfirumsjón með jörðinni, þá hefur ekki hæstv. ríkisstj. leyfi til þess að heimta afgjald bæði af þeirri jörð og fleirum slíkum. Þótt ég nú telji það alveg ljóst, að Alþingi sé búið að taka valdið yfir þessari jörð í sínar hendur, þá er það ekki jafnljóst með allar aðrar kristfjárjarðir, t. d. Vallholt og margar aðrar víða um landið. En um þetta er hv. 11. landsk. miklu kunnara en mér, því að hann er í n. þeirri, sem hefur eftirlit með opinberum sjóðum. Og ég hygg, að ekki væri vanþörf á að setja n. í að athuga um, hver eða hverjir það væru, sem hefðu æðstu umráð yfir kristfjárjörðunum, þ. e. a. s., ef í þá n. fengjust góðir, nýtir og starfsamir menn. Þeirri n. bæri þó sérstaklega að athuga um þær jarðir, sem vafi leikur á um, hver það sé, sem umráðin hafi. Má t. d. selja Reyni? Má safnaðarfundur í Skagafirði selja Vallholt, án þess að spyrja nokkurn leyfis? Þetta hefur verið gert með Hrafntóftir í Djúpárhreppi. Hreppurinn seldi jörðina og afgjaldið, sem átti eftir gjafabréfinu að renna til fátæklinga, rann í hreppssjóð. En ég held fast við það með Geitagerði, að ríkið sé búið að taka æðstu umráð yfir jörðinni í sínar hendur, en hreppurinn sé hinn raunverulegi eigandi, og þess vegna eigi ríkið að gefa hreppnum heimild til þess að selja jörðina. En það, sem er vafamál með kristfjárjarðirnar og þarf að rannsaka, er það, hver eigi þær. Eiga þær sig bara sjálfar, eða hver á þær? Ég veit, að sumir líta svo á, t. d. Friðgeir Björnsson, að enginn hafi leyfi til að selja þær. En hver á þær þá?

Ég mun nú ekki taka till. mína til baka nú, en skal lofa hv. 11. landsk. því að vinna með honum, hvenær og hvar sem hann vill, að tilbúningi till. um n., sem athugi og rannsaki þetta vandamál með kristfjárjarðirnar yfirleitt.