09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (2264)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég er hissa á afstöðu hv. þm. Mýr. í sambandi við þessa brtt. mína. Eins og ég tók fram, er eigi annað framundan fyrir ábúanda Klettakots, vegna þess hve jörðin er rýr, en verða að fara af henni og flytjast í kauptún. Sé markmið þetta hjá ráðandi mönnum í landbúnaðarmálum, að menn hætti að búa, þá er rétt stefnt. En ég hefði haldið, að reynt yrði að styðja að því, að þeir, sem hanga við búskap, yrðu kyrrir, og yrði hægt að létta undir með þeim með skiptum, þá væri þetta sjálfsagt. Klettakot er næsta jörð fyrir framan Stóra-Langadal. Ábúandinn í Stóra-Langadal á Straum. Er áríðandi, að Klettakot leggist undir Stóra-Langadal, og menn vilja, að skipti fari fram á þessum jörðum. Vil ég því mæla með því, að málið nái fram að ganga, og vil biðja hv. landbn. að taka það til athugunar. Hreppsnefnd Skógarstrandarhrepps er þessa máls mjög hvetjandi. Ég hef átt tal við oddvita hreppsins, Vilhjálm bónda á Narfeyri, og hann segir, að hreppsnefndin sé því öll fylgjandi. Það er rétt, að þetta hefur smávægilegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, því að landverð jarðarinnar Straums er bæði hærra, og þar er lítið timburhús. Þó var jörðin fyrir tveim árum seld fyrir 20 þús. kr., svo að eigi getur verið um alvarlega fjárhæð að ræða. Vil ég m. ö. o. vonast til þess, að hv. þd. samþykki þessa till. mína.