15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

110. mál, sala nokkurra jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins skýra hv. d. í fáum orðum frá því, hvaða breytingum frv. hefur tekið í Nd. N. þessarar d. hefur ekki getað náð saman fundi um málið í dag og hefur ekki tekið afstöðu til þess. En helztu breyt., sem á því hafa orðið, eru þessar: Upphaflega var svo til ætlazt, að jörðin Bakki í Svarfaðardal væri seld eftir þeim lögum, sem gilda um jarðir, er væru í erfðaábúð og færu í ættaróðal. Í Nd. hefur þessu verið breytt þannig, að jörðina á að selja með því skilyrði, að hún verði gerð að ættaróðali og eftir sérstöku mati. Hvort þetta er hægt, veit ég ekki, en ég er efins í, að Alþingi geti gert þetta. Þetta er aðlalbreyt., en hin er sú, að það á að heimila ríkisstj. að skipta á jörðinni Klettakoti, sem er ríkiseign, og jörðinni Straumi í Langadal. Eftir því sem ég bezt veit, þá er Straumur metinn á 2.800 kr. — hús á 1.900 kr. og jörðin á 900 kr. — og er þar enginn ábúandi nú. Klettakot er léleg jörð og er í ríkiseign; túnið er lítið og grýtt. Þar býr bróðir bóndans í Stóra-Langadal, og mun það vera meining þeirra, sem flytja þessa till., að bóndinn í Klettakoti flytjist að Straumi, en þar er heldur betur hýst. Svo mun vera hugsunin, að Klettakot leggist undir Stóra-Langadal, en þar er gott beitiland, sem dálítill slægur er í. Klettakot er metið á 1.800 kr.: hús á 1.100 kr., en jörðin á 700 kr. — N. hefur eins og áður er sagt ekki tekið neina afstöðu í þessu efni, en fyrir mitt leyti þá tel ég frv. verulega skemmt, fyrst og fremst vegna ákvæðanna um Bakka í Svarfaðardal. Bóndinn þar á heimtingu á því samkvæmt lögum, að jörðin verði seld eftir ákvæðum um erfðaábúð og óðalsrétt, og það er varla hægt að setja skilyrði eins og það, að jörðin verði seld samkvæmt mati. Hvað snertir Klettakot og Straum, þá sé ég, að það er um 1.000 kr. mismunur á fasteignamati jarðanna, en mér er það þó ókunnugt, hvort þarna má skipta á sléttu. Ég hef því ekki aðstöðu til að mæla með frv. fyrir mitt leyti eins og það er nú, og hvað n. snertir, þá hefur hún ekki tekið afstöðu til málsins.