09.05.1950
Neðri deild: 98. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (2284)

157. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Þessu máli var vísað til sjútvn. í gær. N. er þegar búin að semja nál., þar sem hún mælir með því, að málið nái fram að ganga. Tími hefur eigi enn unnizt til að fá það prentað, en það mun liggja fyrir við 3. umr.

Um landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum gilda sérstök l. frá 1946, þar sem ákveðið er að veita heimild til að taka 10 millj. kr. lán til hafnargerðarinnar. Hún hefur verið notuð að fullu, en verkinu er eigi lokið enn. Í þessu frv. er farið fram á að hækka heimildina í 15 millj. kr., og mælir n. með því. Þess má geta, að um aðrar hafnir gilda almenn l., og er þar engin hámarksupphæð tilgreind. Hins vegar skiptir öðru máli um þessar framkvæmdir, en hinar almennu hafnir. Mæli ég með því, að frv. verði vísað til 3. umr. Mun nál. þá liggja fyrir prentað.