15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

157. mál, landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft frv. til athugunar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt, en hefur óskað eftir upplýsingum um það, hvernig þeim 10 millj. kr. hefur verið varið, sem þegar hefur verið eytt í landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum. Upplýsingar um þetta lágu ekki fyrir n., en ég hef síðar fengið nokkrar upplýsingar um það, og mun ég stikla á stóru. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er kostnaðurinn við Njarðvíkurhöfn orðinn rúmlega 5 millj. kr., og þar fyrir utan hefur þar verið keypt land fyrir 350 þús. kr. Kostnaður við það, sem gert hefur verið í Keflavík, þar á meðal kaup á mannvirkjum, nemur um 4.8 millj. kr., eða kostnaður alls um 10,2 millj. kr. Þessi kostnaður er ekki mikið sundurliðaður, en ég hef rætt um það við hafnarstjórnina, að hún léti sundurliðaðan reikning fylgja með reikningunum næst, svo að næsta Alþ. gæti kynnt sér þetta rækilega. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta nú. N. þótti rétt að taka fram í nál. vegna síðustu mgr. í grg., þar sem segir: „Næstu verkefnin, sem fyrir liggja, eru bygging hafnargarðanna í Njarðvík og aukning á viðleguplássi fyrir fiskibáta þar, og mun því verki verða fram haldið eftir því sem fé verður fyrir hendi“ — að n. vill ekki gerast neinn dómari um það, hvar og hvernig fénu verður varið. Það er mál, sem sjávarútvegsmrh., stjórn landshafnarinnar og vitamálastjóri verða að ráða með sér, hvernig því fé verður varið, sem fyrir hendi er á hverjum tíma, og hvort sem það er veitt á fjárl. eða tekið verður lán, ef það verður innan þess ramma, sem ákveðið er í l. N. vill því ekki setja nein ákvæði um þetta. Ég vil geta þess, að fjvn., sem sá þessi mannvirki í vetur, var sömu skoðunar og lét það í ljós við hafnarnefndina. Ég mun svo ekki ræða þetta frekar, en vil taka það fram, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.