27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

49. mál, húsaleiga

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða mjög mikið um þetta mál. Breyt. þær, sem í þessu frv. er lagt til, að gerðar verði á húsaleigul., ásamt þeim breyt. á frv., sem bornar eru fram till. um af meiri hl. allshn., eru ekki margbrotnar, og ég ætla, að hv. þm. hafi áttað sig á efni þeirra.

Það má vissulega segja, að þessi breyt., sem hér er lagt til, að gerð verði á húsaleigul., sé bót á gamalt fat og geti hvergi nærri leiðrétt allt það, sem ástæða væri til að gera frekari breyt. á. Ég geri líka ráð fyrir, að það líði ekki á löngu, að þessi mál verði tekin til frekari meðferðar síðar meir á Alþingi. Hins vegar eru svo miklir agnúar á húsaleigulöggjöfinni og ástandið slíkt í húsnæðismálum í Rvík, að langt er síðan það var ekki viðhlítandi. Óréttlæti það, sem hefur átt sér stað gagnvart einstaklingum, rangsleitnin gagnvart húseigendum hefur verið slík, að það gegnir furðu, hve lengi það hefur vafizt fyrir Alþingi að gera breytingar á þessari löggjöf til bóta, — því að ég get ekki hugsað mér, að það hafi farið fram hjá neinum hv. alþm., hve óbærilegt þetta ástand er og hefur verið. — Þá er hitt ekki síður óheyrilegt, hvað tekið hefur verið af fólki, sem leigir húsnæði, að nokkru leyti í skjóli þessarar löggjafar. Það yfirgengur alveg minn skilning, hvernig óbreyttir verkamenn mega undir því oki rísa. Þá er hitt t. d. ekki síður óheyrilegt, að eigendum húsa skuli vera bannað að hækka hæfilega lága leigu, sem tíðkaðist fyrir stríð. Það er svo fjarri því, að slík binding komi þannig niður, að hinir efnaðri borgarar einir verði fyrir því að fá þessi lágu leigugjöld fyrir húsnæði sitt. Oft er þarna um að ræða fólk á efri árum, sem á lífsviðurværi sitt af þessum eignum og hefur orðið að mæta dýrtíðinni með mjög litlum tekjum, en ekki getað aukið þær neitt af þessum sökum.

Samkvæmt þessu frv. er nokkuð rýmkað hér um og einnig reynt að koma til móts við fólk, sem býr við dýra leigu. Reyndar má vel vera, að eitthvað það gerist í samningum manna á milli, sem ekki kemur opinberlega fram; slíkt er erfitt að fyrirbyggja, á meðan eftirspurnin eftir húsnæði er mjög mikil. En ég hygg þó, að með þessu frv. verði allmikil bót á þessu ráðin.

Eftir þeim brtt., sem við höfum lagt fram við frv., er gert ráð fyrir, að greitt verði nokkru minna fyrir hvern fermetra gólfflatar, eða 7 krónur í eldri húsum, miðað við árið 1945, og nokkru meira í nýrri húsum, eða 8–9 kr. fyrir hvern fermetra. Þetta hámarksákvæði er allmiklu lægra, en sá leigumáli, sem húsaleigunefnd fer eftir. Hún reiknar frumleigu á 9 kr. fermetrann og vísitölu þar ofan á, svo að nemur í allt 13 krónum. En það há vísitala á nýjustu hús finnst mér ekki réttlát, þar sem viðhald þeirra húsa verður hér um bil ekkert í allmörg ár.

Þá er einnig að því stefnt, að þessi löggjöf gildi ekki áfram endalaust. Ef bæjar- og sveitarstjórnir sjá ekki ástæðu til, að löggjöfin gildi eftir mitt ár 1951, þá fellur hún af sjálfu sér niður. Líti þær hins vegar svo á, að rétt sé að hún gildi áfram á viðkomandi stöðum, þá geta þær ráðið framlengingu á henni.

Ég lít svo á, að með þessu frv. sé ráðin bót á nokkrum stærstu agnúum gildandi laga. Því miður gat n. ekki öll staðið að frv. Minni hl. n. hefur gefið út sérstakt nál. Mér þykir vænt um, að hann viðurkennir höfuðatriði frv., enda á ég bágt með að skilja, að hann á hinn bóginn skuli leggja til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá.