27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1412 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

49. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er misskilningur, ef hv. þm. Árn. heldur, að það ranglæti, sem sumir húseigendur hafa orðið fyrir, verði læknað með því að skapa meira ranglæti fyrir þjóðfélagið heldur en það, sem við eigum nú við að búa í þessum efnum. Það er alveg rétt, og það hefur alltaf verið viðurkennt, þegar þetta mál hefur verið til umræðu, að þessi ákvæði laganna hafi farið illa með suma húseigendur, en það hefur sem sagt verið svo allan tímann, sem þessi lög hafa verið í gildi, að leiðin, sem farin hefur verið, er svo slæm, að það er alveg óþolandi fyrir þjóðina að horfa upp á. Meira að segja Framsfl. hefur stundum látið í það skína, einkum fyrir síðustu kosningar, að húsnæðismálin hér í Reykjavík væru hreint ekki viðunandi. Framsfl. gerði það þá að einu mesta kosningamáli í Reykjavík, að ástandið væri svo ægilegt og það mundi enda í hreinustu neyð, ef ekki yrði skjótt bót á ráðin. Það voru birtar myndir í Tímanum til þess að sýna, hve mikil neyðin væri, og allt þetta notaði Framsfl. til að slá sér upp, og það gekk meira að segja svo langt, að heimilislífi manna var ekki þyrmt til þess að slá sér upp á þessu eymdarástandi.

En hvað segir svo frsm. allshn., eftir að hafa deilt á íhaldið í Reykjavík fyrir ástandið í húsnæðismálunum? Jú, hann leggur það til, að við skulum láta afnema húsaleigulögin þegar bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík vill. Hv. þm. Árn. mælir með því, að bæjar- og sveitarstjórnir fái vald til þess að ákveða, hvort lögin haldi gildi sínu fyrir viðkomandi staði, og hann veit það einnig, að íhaldið í Reykjavík vill, um leið og það fær tækifæri til þess, afnema húsaleigulögin hér. Og hvað er það svo, sem hv. frsm. allshn. segir um þetta? Hann segir, að þá sé vel fyrir málunum séð, þegar bæjarstjórnaríhaldið í Reykjavík ákveður, að lögin skuli ekki gilda lengur fyrir Reykjavík. Framsfl. veit vel, hvernig ástandið er í húsnæðismálunum. Og hann lofaði bót á þessum málum, en hvað er það svo, sem hann gerir? Hann er með þessu að gefa íhaldinu í bæjarstjórn Reykjavíkur valdið til þess að afnema húsaleigulögin, sem hann taldi fyrir kosningar fara svo hraksmánarlega með íbúa bæjarins. Hvers konar samningar eru það eiginlega, sem eiga sér stað bak við tjöldin milli þessara flokka? Hv. frsm. minntist á það, að það væru nú tvö ár þangað til lögin gengju úr gildi, svo að það væri á þeim tíma hægt að setja heildarlöggjöf um þessi efni. Finnst honum þá svo vel horfa um samninga milli stjórnarflokkanna, að hann geti búizt við, að heildarlöggjöf verði sett um þetta efni á þessum tíma? Það væru þá einhverjar nýjar upplýsingar, sem okkur hafa ekki verið kunnar fram að þessu, ef útlit væri á því, að á næstunni væri hægt að fá fram löggjöf, sem leysti úr neyðinni, sem þarna ríkir. Þegar Sósfl. var í stjórn, var sett löggjöf, sem átti að tryggja útrýmingu heilsuspillandi íbúða, og átti til þess að koma sérstakt framlag frá því opinbera. Eftir að Framsfl. kom í ríkisstj. og við fórum úr henni, var sú löggjöf í raun og veru afnumin, með því að bætt var inn í hana því, að ekkert fé skyldi leggja fram í þessu skyni, nema samþ. væri sérstaklega á fjárl. — Ég vildi spyrja hv. 1. þm. Árn. að því, hvort hann muni ekki eftir því, að það var einmitt Framsfl., þegar hann sat í stjórn, sem afnam þessa löggjöf í raun og veru og hefur síðan fellt hverja till., sem fram hefur komið til að fá það fram, að þessi löggjöf fengi raunverulegt gildi.

Mun ég svo verða að ósk hæstv. forseta um að fresta minni ræðu, þar til síðar. [Frh.]