28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

49. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég endaði þar sem ég ræddi við hv. 1. þm. Árn. (JörB) um traust hans á því, að á næstu tveimur árum yrði sett heildarlöggjöf um þessi mál, og hvort það yrði skynsamlegasta aðferðin til þess að knýja þessi mál fram að fara nú að samþykkja þetta mál með Sjálfstfl. Ég held, að það sé mjög fjarri lagi. Ef Sjálfstfl. hefur mikinn áhuga fyrir því að fá húsaleigul. afnumin, væri eðlilegast, ef Framsfl. vildi um það hugsa, að sæmilega yrði fyrir því séð frá Alþ., að láta hann bíða eftir því að fá húsaleigul. afnumin, þar til hann hefur gengið inn á fullkomnari húsnæðislöggjöf. Nú liggja fyrir raunverulega tvö frv. hjá allshn. um heildarlöggjöf í húsnæðismálunum og síðasta þingi líka, þannig að það er ekki það, að vantað hafi uppástungur um afgreiðslu á húsnæðislöggjöf í heild. Það er engin afsökun. Spurningin er um það, hvort hægt er að fá samþ. á Alþ. slíka heildarlöggjöf. Ef Framsfl. vildi að því vinna, væri ekki annað að gera en segja við Sjálfstfl.: Ég samþykki ekki þetta húsaleigufrv., sem nú liggur fyrir, nema framkvæmdar verði um leið aðgerðir í húsnæðismálunum. — Þetta hefur nú ekki verið gert, og þess vegna er ástandið þannig, að með þeirri afgreiðslu, sem Framsfl. leggur til, að höfð verði í húsnæðismálunum með þessu frv., er verið að afnema húsaleigul. án þess að tryggja á nokkrum öðrum sviðum nokkurn skapaðan hlut, sem tryggi aðstöðu þeirra manna í þjóðfélaginu, sem ekki eiga hús sjálfir. Og þetta er í hrópandi mótsetningu við allt, sem Framsfl. hefur haldið fram í kosningunum, áður en kosið var til þessa Alþingis. Framsfl. er með því að afnema húsaleigul. núna að gera samsvarandi ráðstafanir og hann gerði með gengislækkuninni, að framkvæma árásir á móti, án þess að gera nokkrar ráðstafanir. Fyrir kosningarnar talaði þessi flokkur um ýmsar hliðarráðstafanir, sem þyrfti að gera, ef gengið yrði inn á gengislækkunina. Það var gengið inn á gengislækkunina, en hliðarráðstafanirnar komu ekki. Aðstaða alþýðumanna er að verða óþolandi í þessum efnum. Það hefur verið minnzt á hér, bæði í þessum umræðum nú og áður í sambandi við húsnæðismálin, nokkur af þeim atriðum, sem þyrftu að fylgja, þegar ákvarðanir væru teknar um að afnema húsaleigulögin. Ég vil þá í fyrsta lagi athuga í sambandi við spurninguna um bannið við að byggja. Þegar húsaleigul. voru sett í upphafi, hver var þá hin siðferðislega forsenda fyrir því, að það var gert? Í fyrsta lagi að tryggja mönnum, að ekki væri hægt að setja þá út á götuna. En af hverju þótti meiri ástæða til að gera það en venjulega? Vegna þess, að örðugt væri að fá efni til að byggja úr, þannig að það þótti ekki rétt að láta húseigendur halda því frelsi, sem þeir höfðu haft til þess að segja mönnum upp, vegna þess að menn hefðu enga aðstöðu til þess yfirleitt að koma sér upp húsum. Fyrst ekki var hægt að láta þá byggja yfir sig, þótti ekki rétt að leyfa að segja þeim upp. Það fyrsta, sem hefði því átt að fylgja því, að húsnæðislöggjöfin væri afnumin, væri það, að menn hefðu að minnsta kosti formlegt frelsi til að byggja, að ekki væri hægt að banna mönnum að byggja yfir sig. Það má ekki minna vera, en þeim sé tryggt, að þeir hafi formlegt leyfi af hálfu þjóðfélagsins til að byggja yfir sig. Það er það minnsta, sem þjóðfélagið hefði getað gert. Nægilegir mundu þeir efnahagslegu erfiðleikar verða fyrir menn almennt. Hvernig hagar nú til um þessa forsendu? Það hagar til þannig, að það hefur ekki fengizt linað nokkurn skapaðan hlut á því banni, sem hér hefur verið komið á. Hér hafa verið bornar fram till. á Alþ., brtt. við frv., sem hér hafa verið á ferðinni um þessi efni, að mönnum, sem ættu ekki íbúðir sjálfir, væri þó leyfilegt að byggja yfir sig án þess að leita fjárfestingarleyfis. En því fer svo fjarri, að slíkar till. hafi fengið nokkurn minnsta hljómgrunn, heldur hafa þeir, sem haft hafa vilja til að byggja yfir sig, verið sviptir frelsi til að gera það, þó að þeir hygðust að klóra sig einhvern veginn fram úr því efnahagslega.

Í öðru lagi er spurningin um nægilega getu og frelsi til þess að reisa ný íbúðarhús. Það er vitanlegt, að svo framarlega sem afnema á húsaleigulöggjöfina, verður það að fylgja, sé það ekki tilgangurinn að skapa neyð í þjóðfélaginu, að setja löggjöf, er geri mönnum mögulegt efnahagslega að byggja yfir sig. Það þýðir, að koma verður í gegn þeirri löggjöf, er að einhverju leyti miðar að því að gera slíkt mögulegt. Það eru jú þrenns konar möguleikar til slíks. Það er í fyrsta lagi til löggjöf um aðstoð bæjarfélaga við að útrýma heilsuspillandi íbúðum, og ef Framsfl. hefði viljað sýna það í einhverju, að hann vildi gera þeim, sem nú er verið að kasta út á kaldan klaka, mögulegt að fá einhvers staðar inni, hefði hann samtímis þessu frv. átt að afgreiða lög um að koma aftur í gildi þeim l., sem samþ. voru 1946 um aðstoð við útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Framsfl. hefði þá að minnsta kosti átt að sjá um að láta slík lög verða samferða. Það bólar ekki á neinu slíku. Þannig er verið að gera bænum ókleift að útrýma því heilsuspillandi húsnæði, sem í þessum bæ er. — Þetta væri líka hægt að gera með því að samþykkja í sambandi við fjárl. framlög í þessu skyni. Framsfl. hefur líka fellt allt slíkt. — Þá væri einnig í þriðja lagi hægt að gera þetta með því að gefa þeim einstaklingum, sem eru það illa efnum búnir, að þeir geta ekki sjálfir lagt fram fé til að byggja yfir sig, kost á að fá lán með sæmilegum kjörum. Ekkert af þessum hliðarráðstöfunum er lagt til af hálfu Framsfl. að gera. Það er eingöngu samþykktin á afnámi húsaleigul., sem þarna er farið fram á. Afleiðingin af því, að þessi löggjöf yrði samþ. án þess að hitt fylgdi með og framkvæmd slíkrar löggjafar yrði fullkomlega tryggð, yrði sú, að það hlyti að skapast neyðarástand í þessum málum, og það er auðséð, að það neyðarástand, sem nú er verið að undirbúa í húsnæðismálunum, kemur til með afnámi húsaleigul. að skella á þeim leigjendum, sem sagt verður upp og hent þannig út.

Í þessu sambandi er einnig það að athuga, að það eru margir menn úr millistétt, sem á undanförnum árum hafa treyst því að geta lagt nokkurn hluta af launum sínum til hliðar í því skyni að geta eignazt íbúð, og í því trausti hafa þeir þrælað í aukavinnu og eftirvinnu til þess að reyna að borga niður slíkar íbúðir sínar. Það er nú svo komið, að ákaflega mikið er fallið niður af allri þeirri eftirvinnu, sem menn hafa haft. Og með gengislækkunarl. núv. ríkisstj. er afkoma þessara manna svo stórlega rýrð, að meginið af launum þeirra fer nú í það að borga brýnustu lífsnauðsynjar, matinn, sem þeir borga daglega, og fötin, sem þeir ganga í. Þegar búið er að hækka verð á fjöldanum öllum af nauðsynjum, kannske 50%, fer ekki að verða mikið eftir hjá þessu fólki til þess að standast vexti og afborganir. Með öðrum orðum, með þeirri ránsferð, sem stjórnin hefur farið á hendur þessum mönnum með gengislækkuninni, er verið að gera þessum mönnum, sem voru að reyna að gerast bjargálna, ókleift að halda þessum íbúðum, og þeir missa þær. Það er verið að skapa neyðarástand í þessum efnum: Þegar þessir menn hafa þrælað árum saman myrkranna á milli, er þeim steypt ofan í örbirgð aftur, og hvert frv., sem við höfum lagt fram til þess að fá lánstímann lengdan og vextina lækkaða, hefur verið fellt. Hverjir verða það svo, sem reka þá út úr húsum sínum? Það eru ríkustu mennirnir hér í Rvík, sem eiga mikið af húsum og leigja þau. Og það er auðséð, að það er nú að verða, eins og á tímabilinu á milli styrjaldanna, ein af gróðavænlegustu atvinnugreinunum í Rvík að braska þannig með hús. Á sama tíma og smælingjarnir eiga í vaxandi erfiðleikum með að fá lán, kaupa ríku mennirnir í Reykjavík þessar íbúðir, sem launamennirnir eru að stritast við að halda. Það er þess vegna verið að skapa einokun. Eins og við þekkjum frá tímabilinu milli styrjaldanna, safnast meira og meira af húseignum í hendur auðmannastéttar Íslands. Það eru afleiðingarnar af þeim aðgerðum, sem verið er að gera með því að afnema húsaleigul. og láta vera að gera þær hliðarráðstafanir, sem óhjákvæmilegt er að gera, ef það á að gera þessum mönnum kleift að byggja yfir sig og halda þeim húsum, sem þeir eru að byggja yfir sig. Herferðin af hálfu íslenzku auðmannastéttarinnar á eignir alþýðu manna samsvarar þeirri herferð, sem farin var með gengislækkunarl. á lífskjör og laun manna.

Ég hef flutt hér frv., sem hæstv. forseti óskaði að láta bíða, þar til þetta húsaleigufrv. kæmi frá nefnd, en þetta frv. mitt snertir einmitt það að framlengja lánin á þeim íbúðum, sem menn hafa verið að reyna að eignast á undanförnum árum. Nú er ástandið þannig, að ef þessi lög verða afnumin og látið undir höfuð leggjast að gera samtímis þær ráðstafanir, sem eru óhjákvæmileg skilyrði fyrir því, að fólk geti lifað, skapast slík neyð í þjóðfélaginu og fyrst og fremst í Reykjavík, að við höfum ekki litið framan í aðra eins. Það er verið að gera fólki ókleift að lifa. Það kemur nú fyrir í búðum, sem ekki hefur komið fyrir síðustu 10 árin, en það er skortur á óhjákvæmilegum neyzluvörum eins og kaffi og smjörlíki. Og þó er svo komið, að sumir biðja ekki um nema ½ stykki af smjörlíki og ½ pakka af kaffi, af því að þeir hafa ekki meiri peninga. Við munum þá tíma, þegar krakkarnir voru sendir eftir sykri fyrir 10 aura, vegna þess að fátæktin leyfði ekki stærri innkaup. En við höfum ekki þurft að lifa við slíka eymd síðustu 10 árin þrátt fyrir húsaleiguokur og ýmsa aðra erfiðleika. Ég veit, að þm. gera sér ljóst, að nú eru ekki lengur átök um það hjá verkalýðnum, hvort hann eigi að lifa vel eða 10% betur, heldur eru átökin aðeins um það að lifa sæmilegu lífi, og meira að segja þýðir kjararýrnun frá því, sem nú er, neyðarástand hjá mörgum fjölskyldum. Það er liðinn sá tími, þegar verkamenn dreymdi um að eignast eitthvað. En þrátt fyrir þetta ástand er meiningin að afnema húsaleigulögin, svo að svarti markaðurinn á húsnæði verði enn hærri. Mér finnst það satt að segja koma úr hörðustu átt, þegar Framsfl. samþykkir með íhaldinu svona frv. Hann er með því orðinn nokkuð fjarlægur stóru loforðunum, sem Tíminn gaf fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Hins vegar hefur Framsfl. fyrr brugðizt, svo að maður ætti kannske ekki að láta sér bregða við afstöðu hans í þessu máli. Við sósíalistar höfum reynt að ráða fram úr þessum húsnæðisvandamálum, og meðal annars tókst okkur að fá samþ. lög um útrýmingu heilsuspillandi íbúða 1946, en Framsfl. veitti sinn stuðning til þess að eyðileggja þá löggjöf. Flokkurinn virðist hafa gleymt orsökum þessa ástands, þó að hann hins vegar reyni að nota sér það til framdráttar, þegar þannig stendur á, með sýndarróttækni, samanber Tímann í vetur, en þá var ekki verið að spara stóru orðin um hið alvarlega ástand, þó að efndirnar um úrbætur virðist ætla að vera minni. Rétt fyrir jólin, eða 22. des., birti Tíminn svo hljóðandi fyrirsögn: „Jólasaga úr höfuðstaðnum: Fjöldi Reykvíkinga býr við sárustu örbirgð í örgustu grenjum. Margt af þessu fólki hefur bókstaflega gefizt upp í vonlausri baráttu við húsnæðisleysi, kulda og átakanlegustu neyð.“

Síðan er haldið áfram að lýsa, hversu voðalegt ástandið sé. Þetta átti að minna Reykvíkinga á, hvernig ástandið væri svona rétt fyrir jólin, og var ekki nema gott um það að segja, ef hugur hefði fylgt máli. Nokkrum dögum áður hafði Tíminn birt myndir af húsnæðisástandinu, og voru margar þeirra ófagrar, en það var ekki nóg með það, þá stóð líka á fremstu síðu, að til væru útilegumenn í höfuðstaðnum, er hvergi hefðu höfði sínu að að halla og svo langt gengi, að þeir pöntuðu sumir vist í hegningarhúsinu yfir hátíðarnar. Á Þorláksmessu birti Tíminn líka gífurlegar fyrirsagnir:

Þar stóð meðal annars: „Frásögn Tímans af örbirgðinni í fátækrahverfunum hefur vakið gífurlega athygli. — Margvíslegar gjafir bárust í gær, en útrýming fátækrahverfanna er hið eina, sem getur forðað þjóðfélagslegri ógæfu.“

Og nú átti að bæta úr húsnæðisvandræðunum, en til þess átti að vera aðeins eitt ráð, en það var að veita Framsfl. fylgi við bæjarstjórnarkosningarnar, og þá átti líka að bæta úr allri örbirgð, og þá áttu ekki lengur að finnast útilegumenn í höfuðstaðnum. Þetta var jólasaga Tímans. En hvað gerist svo eftir kosningar? Jú, þá stendur Framsfl. fremstur í því að hækka nauðsynjar um leið og mikið dregur úr atvinnu hjá öllu fólki, og ofan á ætlar flokkurinn að afnema húsaleigulögin og henda þannig hundruðum manna út á götuna. Máske til þess að fleiri panti vist í „kjallaranum“, ekki einungis einstaklingar, heldur líka fjölskyldur. Hvers konar hræsni er þetta eiginlega? Fyrst er komið til reykvískra kjósenda undir yfirskini umbóta, en svo eru öll loforð þverbrotin með alls konar árásum á lífskjör almennings.

Ég vil svo að lokum minna alvarlega á, að í þessu máli er ekki um að ræða nein aukaatriði eða hégóma, heldur er um að ræða, hvort skapa á í bænum algert neyðarástand, þar sem fjöldamargar fjölskyldur verða algerlega húsvilltar. Og ég vil leyfa mér að aðvara Framsfl., af því að hann hefur stundum verið að kalla sig ábyrgan flokk — að minnsta kosti fyrir kosningar — í þessu máli, því að það er á hans valdi, hvort hundruðum reykvískra fjölskyldna verður kastað á götuna eða ekki.