13.05.1950
Efri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

49. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég get lýst yfir því sem minni skoðun, að ég tel, að eins og nú standa sakir, verði ekki húsnæðisspursmálið leyst, nema með skömmtun, en fyrir því hefur aldrei verið vilji á hv. Alþingi. Hvað snertir frv. í vinstri hendi hv. 7. landsk., þá segi ég aðeins um það, að frv. um slíkt efni hafa alltaf legið fyrir Alþingi annað veifið og það, meira að segja, áður en ég kom á þing. Aldrei hafa þessi frv. náð fram að ganga, og eyði ég ekki frekari orðum að frv. í vinstri hendinni, þar sem engar líkur eru til þess, að það fái framgang nú. Frv. það, sem hér er til umr., er bót á því ástandi, sem um er að ræða, en í sambandi við brtt. hv. minni hl. allshn. vil ég leyfa mér að benda hæstv. ríkisstj. á, að í þessari till. er sá rauði þráður réttur, því að það vantar almenna athugun á húsnæði. Nú á skv. l. að fara fram almennt manntal í haust, og beini ég því til hæstv. ríkisstj., að um leið og það er tekið, þá verði teknar glöggar og góðar skýrslur um húsnæði og allt, sem að því lýtur. Það kostar eitthvað lengri töf á hverjum stað fyrir þann, sem tekur manntalið, en það munar ekki miklu, og það er alveg nauðsynlegt að safna þessum skýrslum, og það kostar mjög lítið, ef það er gert á þennan hátt, sem ég hef bent á. Áður hefur verið safnað smávegis upplýsingum um húsnæði í sambandi við manntal, en allt var það ófullnægjandi, en auðvelt er á þennan hátt að fá fullkomnar skýrslur, sem fljótlegt er að vinna úr með þeim tækjum, sem nú eru til á hagstofunni. Þegar þessar skýrslur liggja fyrir og úr þeim hefur verið unnið, þá er hægt að fara að tala í alvöru um breyt. á þessu frv., sem hér liggur fyrir og mun eiga að samþ. sem lög. En lög gilda ekki um aldur og ævi, þótt enn séu kannske til einstaka atriði úr Járnsíðu og Jónsbók og hvað þær nú heita allar lögbækurnar. Ég vil því eindregið mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún láti þessa skýrslusöfnun fara fram. Það gefst til þess upplagt tækifæri við manntalið, og þegar við höfum skýrslurnar og niðurstöður þær, sem fást af þeim, þá getum við athugað, hvaða leiðir séu heppilegastar til úrbóta í þessu vandræðamáli.