13.05.1950
Efri deild: 105. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

49. mál, húsaleiga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er alkunna, að húsaleigulögin hafa fyrst og fremst komið að gagni í kaupstöðum og aðallega í Reykjavík, og enda þótt þörf sé ýmiss konar breytinga á þeim lögum, þá eru þau þó til mikillar verndar því fólki, sem býr í leiguhúsnæði.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki um að ráða bót á þeim ágöllum, heldur um að afnema þessa löggjöf í áföngum. Það var gert hér að umtalsefni af hv. 7. landsk., að það sætti furðu, að frv. Framsfl. um stóríbúðaskatt, sem fram kom á s. l. hausti, skuli nú alveg vera horfið í skuggann. Það miðaði þó að því, að það húsnæði, sem fyrir hendi er, yrði hagnýtt betur, en gert er. En við því er nú sem sagt ekki hreyft lengur, og stjórnarmeirihlutinn virðist ekki ætla því lengra líf. Í stað þess er nú tekið upp úr salti frv. þeirra sveitakjördæmaþingmanna, Jörundar Brynjólfssonar og Páls Þorsteinssonar, um húsaleiguástandið í Reykjavík, sem vænta mætti, að sumir aðrir þm. hefðu nú máske betri skilning á; enda er það sannast sagna, að ekki er fjallað um þessi mál af miklum skilningi í frv. hv. þm. En hafi það frv., sem hér var til umræðu í upphafi þings um stóríbúðaskatt, og önnur slík horfið í skuggann, þá má nú segja um þetta frv., að það lítið, sem í því var af efni og innihaldi, er það kom frá hendi hv. flm., það hafi nú verið þurrkað út við meðferð þá, er það hefur hlotið í hv. Nd.

1. gr. frv. hljóðar nú upp á það, að húseigendur megi segja upp húsnæði, ef þeir geta fært sönnur á, að þeir þurfi þess fyrir sjálfa sig, systkini sín eða skyldmenni í beinni línu, kjörbörn eða fósturbörn. Samkv. ákvæðum 1. gr. er þannig hægt að setja enn fleira fólk á kaldan klaka, en áður var. Samkv. orðanna hljóðan í 2. gr. frv., eins og hún var orðuð upphaflega, þá skyldu barnafjölskyldur hafa forgangsrétt að húsnæði, sem leigt er öðrum, en skyldmennum leigusala. Nú stendur svo í frv. eftir afgreiðsluna frá Nd., með leyfi hæstv. forseta: „ .. skal hann (leigusali) leitast við að leigja hana fjölskyldu, er hefur á framfæri sínu börn innan 16 ára aldurs . . . . “ - Já, mikið held ég þeir leitist við að láta barnafjölskyldurnar sitja fyrir, er þeir velja sér leigjendur, blessaðir húseigendurnir í Rvík. Það er ekki aldeilis ónýtt fyrir barnafjölskyldurnar að styðjast við þennan lagastaf! —Ákvæðið um, að þær skuli hafa forgangsrétt, er þurrkað út, en í stað þess eiga húseigendur að „leitast við“ að láta þær sitja fyrir um húsnæði. — Vinstri hlið frv. er visnuð. Í upphaflega frv. stóð, að ef leigusali sjálfur seldi ekki barnafjölskyldu íbúð sína á leigu, skyldi hann gefa húsaleigunefnd kost á að ráðstafa íbúðinni á þann hátt, áður en hann leigði hana öðrum. Nú er þetta ákvæði orðið svo, að leigusali skuli „jafnan leita tillagna húsaleigunefndar um ráðstöfun íbúðarinnar, áður en hann leigir hana öðrum.“ –Þannig er búið að gera 2. gr. frv. að slíku skrípi, að það er ekki sæmandi fyrir Alþingi að láta annað eins frá sér fara. Í staðinn fyrir „forgangsrétt“ barnafjölskyldnanna er nú komin „viðleitni“ húseigenda, enda þótt allir viti, að húseigendur hafa ekki viljað leigja barnafjölskyldum og æska bæjarins er af þeim sökum í heilsusamlegum háska stödd, hrakin í kjallaraíbúðir og bragga. Hefði sannarlega verið þörf á að ráða þar bót á með annars konar aðgerðum, en þessari loðmullu, sem gerir húseigendum frjálst að komast algerlega hjá íhlutun húsaleigunefndar. Má vera, að hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. A-Sk. haldi, að svona ákvæði komi að gagni, en ég býst við, að hv. 8. þm. Reykv. a. m. k. trúi því ekki.

Þá er þriðja gr. frv., og er þar talað um, að skipa skuli húsaleigunefnd í Rvík. Og hvernig á hún svo að vera skipuð? Jú, það á að vera einn fulltrúi fyrir fasteigendur og annar fyrir leigjendur og hæstiréttur á svo að skipa þriðja manninn, sem væntanlega verður fasteigandi, svo að þeir fá þannig tvo fulltrúa í n., sem á að dæma í málum þessum, sem fyrst og fremst eru þó mál leigjenda — því þó það kunni að vera peningaspursmál fyrir húseigendur, þá er það á hinn bóginn lífsafkomuspursmál fyrir mikinn þorra leigjenda. Og eins og hér er í pottinn búið, þá er það undir hælinn lagt, hvort þessi nýja lögfræðingaskrifstofa verður leigjendum til nokkurrar verndar.

Þá er ekki gaman að sjá breytinguna á 5. gr., frá því sem upphaflega var þar tiltekið. Hámarksleiga fyrir hvern ferm. gólfflatar var áður ákveðin 7 kr. og lækkandi, ef lofthæð var undir 2,50 m. Þetta hefur nú tekið þeim breytingum, að 7 kr. hámarkið er bundið við hús, sem reist eru fyrir 1944. Í gömlum timburhjöllum í Rvík skal 100 fermetra íbúð þannig goldin með kr. 700 á mánuði. Svo hækkar hámarkið í húsum, sem byggð eru 1945 og síðar, og þar á 100 fermetra íbúðin að kosta 800–900 kr. á mánuði. Ég hefði nú fremur átt von á því, að Framsfl. hefði látið gamla hámarkið standa, en lækkað það í eldri húsum niður í 5 kr. En nei, ónei! Það var heldur hækkað upp í 8–9 kr. í hinum nýrri húsum. Vitaskuld er ranglátt að hafa hið sama gjald, hvort sem húsin voru ný eða gömul, en 7 kr. hámarkið var nóg og bar að lækka það í eldri húsunum. Vinstri hlið upphaflega frv. er þannig gersamlega visin orðin.

Áreiðanlega gerist ekkert það í sumar í húsnæðismálum Rvíkur, sem geri það knýjandi nauðsyn að samþykkja þetta frv. nú. Og fulltrúar Framsfl. þurfa ekki vegna kosningaloforða sinna að fylgja þessu máli. Þvert á móti. Ef þeir vildu nota tækifærið og innleysa örlítið af sínum kosningavíxlum á þessu þingi, þá ættu þeir að samþ. brtt. okkar hv. 1. landsk., svo að hæstv. félmrh. geti á meðan sólin skin í sumar undirbúið skynsamlegar aðgerðir í þessum málum fyrir næsta vetur, er þing kemur aftur saman. Og hvernig geta framsóknarmenn haft nokkuð á móti því, að það fari fram slík könnun á íbúðarhæfu húsnæði í Rvík í sumar? Þeir hljóta þá að hafa gleymt ýmsum þeim upplýsingum og myndum, sem birtust ásamt kosningaloforðunum í Tímanum í haust, ef þeir telja hér engra rannsókna þörf. Og ég held það yrði betra að fá niðurstöður slíkra rannsókna í skýrsluformi, heldur en átakanlegar lýsingar á ástandinu einar saman, þó prentaðar séu með rauðu yfir þverar síður í Tímanum. Hafa þm. Framsóknar nokkuð á móti því, að upplýsingar séu fengnar um stærð og nýtingu húsnæðis — um stóríbúðirnar, sem standa ónotaðar að mestu, og um þúsundirnar, sem í bröggunum búa, sumum svo lélegum, að húsmæðurnar verða að standa þar í vaðstígvél- um við vinnu sína? Hafa þeir nokkuð á móti því, að upplýsinga sé aflað um þá tugi þúsunda, sem fátækt fólk hefur orðið að borga í húsaleigu umfram það sem kvittanirnar segja til? Hafa hv. þm. Framsfl. nokkuð á móti því, að þeir gæfu skýrslu um þetta, sem fyrir ókjörunum hafa orðið? Hafa hv. þm. Framsfl. nokkuð á móti því, að félagsmálaráðuneytinu berist skýrslur um húsnæðisástandið í Reykjavík? Hafa hv. þm. Framsfl. nokkuð á móti því, að hæstv. félmrh. fái skýrslur um ástand þessara mála í sínar hendur og leggi skynsamlega löggjöf um lausn þessara mála fyrir næsta þing? Ég get ekki skilið það. En með því að samþykkja brtt. okkar hv. 1. landsk. þm. gæfist kostur á slíku. En enginn þessara hv. þm. getur bent á nokkuð, sem réttlæti það, að þetta fái ekki að biða sumarlangt. Nei, endirinn á sögu þessa þings skal vera vaxandi húsnæðisskortur, og þó að menn hafi nú einhver tök á því að byggja, þá er varla hægt að kría út fjárfestingarleyfi til þess hjá fjárhagsráði, jafnframt fer fjárhag manna hrakandi, meðal annars vegna gengislækkunarinnar, en húsnæðisleysið eykst, og það verður meiri neyð og meiri þörf fyrir húsnæði um næstu jól. Það á ekki að koma í veg fyrir það, með því að skattleggja ónotað og Illa notað húsnæði, og það má ekki taka upp skömmtun á húsnæði. Það er meiningin hjá þessum nöbbum að þvo sér um hendurnar með því að samþykkja þetta plagg, til þess að sýna Reykjavík, að eitthvað hafi verið gert í húsnæðismálunum. En ég held, að það sé engin þörf á þessum þvotti, hann verður að minnsta kosti lélegur Pílatusarþvottur. Það eina, sem vit væri í að gera núna fyrir Framsfl. eftir allar vanefndirnar frá því í haust og vetur, er að koma málinu í hendur félagsmálaráðherra, sem er einn af forustumönnum flokksins, í trausti þess, að það verði tekið myndarlegum tökum til þess að ráða fram úr því yfir sumartímann, því að það liggur miklu meira á því, heldur en að afnema húsaleigulögin.

Hv. þm. Barð. barmaði sér mjög yfir því, hve fasteignaeigendur væru hörmulega fjötraðir í eigin húsnæði, þeir væru algerlega ósjálfráðir um ráðstöfun á því. Þetta höfum við allt heyrt áður, og ég get vel skilið það frá hans sjónarmiði, — það er eins og með íhaldsmenn yfirleitt. En frá mínu sjónarmiði lítur þetta dálítið öðruvísi út, jafnvel þó að ég hafi sjálfur orðið að hlíta ákvæðum þessara laga og leigja út íbúð, sem ég hefði kannske gjarnan viljað ráðstafa eftir eigin geðþótta. Frá mínu sjónarmiði líta húsaleigulögin út sem nauðsynleg ráðstöfun til þess að fyrirbyggja okur á húsaleigu, og hafa þar af leiðandi orðið til blessunar, og það færi jafnvel betur, ef slíkar hömlur hefðu verið settar á fleiri sviðum þjóðfélagsins, og vil ég því snúa við orðum hv. þm. Barð. og segja, að við ættum að gráta, að það skyldi ekki hafa verið gert.