15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

49. mál, húsaleiga

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Rétt fyrir helgina, við 1. umr. um þetta mál, lýsti ég eftir því, hver afstaða framsóknarmanna hér í hv. d. væri til þeirrar brtt., sem liggur fyrir frá minni hl. allshn. Ég lýsti eftir því, hver væri afstaða 3 þm. Framsfl., sem eiga sæti hér í d. og hefðu snemma á þinginu flutt frv. um stóríbúðaskatt, sem því miður hefur ekki komið til afgreiðslu frá n. enn þá. Nú hefur aðalflm. frv. um stóríbúðaskatt, hv. 8. þm. Reykv., lýst yfir, að hún muni greiða atkv. með brtt. minni hl., en hv. 1. þm. N-M. talaði hér að vísu á laugardaginn, en talaði svo, að mér er ekki ljóst um afstöðu hans til brtt.; hv. 3. flm. frv. um stóríbúðaskatt hefur hins vegar ekki lýst yfir afstöðu sinni. Mér þykir vænt um að heyra, að hv. 8. þm. Reykv. treystir sér til þess að fylgja minni hl. í þessu máli og samþ. þá brtt., sem hér liggur fyrir. Ég sagði á laugardaginn og segi enn, að ég sé ekki, að það sé neitt neyðarbrauð fyrir framsóknarmenn, bæði þá, sem stóðu að frv. um stóribúðaskatt, og aðra, að fallast á það, sem er meginatriðið í brtt., sem hér liggur fyrir, að félmrn. láti fara fram rannsókn á ástandinu í húsnæðismálunum í kaupstöðum og öðrum stöðum, þar sem húsaleigul. hafa verið í gildi, og fá þannig upplýsingar um húsnæðisþörfina, sem ekki er fullnægt eins og nú standa sakir, og leggja síðan fyrir næsta þing vandlega undirbúið frv. um úrbætur í þeim málum öllum. Ég vil benda á það, að með embætti félmrh., sem vitanlega hefði undirbúning slíkrar löggjafar með höndum, fer nú einn af aðalforustumönnum Framsfl., svo að þá mundi einmitt sjást, hver væri stefna þess flokks í húsnæðismálum. Hvort það yrði sú stefna, sem hefur verið haldið hátt á lofti fyrir kosningar, eða hin, sem fylgt er í þessu frv., sem ég leyfi mér að segja að sé sú gamla stefna, að gera alls ekki neitt í húsnæðismálunum af opinberri hálfu, en láta skeika að sköpuðu, hver yrðu viðskipti húseigenda og leigjenda, og jafnvel að þeim leigjendum, sem eiga ekki völ á húsnæði, yrði þeytt burtu úr húsnæði, sem þeir hafa notað. Hv. frsm. meiri hl. lýsti því sem sinni skoðun, að það væru tvær stefnur í þessum málum, önnur, að ríkisvaldið hefði afskipti af þessum málum, en hin, sem hann vildi kalla heimastjórnarstefnu, að ríkisvaldið hefði sem minnst afskipti af þessu, en ef það væri nokkuð, þá væru það helzt bæjar- og sveitarstjórnir, sem hefðu það. Ég vil benda honum á, að stefna Alþ. hefur a. m. k. í 3 áratugi verið sú, að hið opinbera ætti að hafa afskipti af þessum málum, ef húsnæðisvandræði væru í landinu, í kaupstöðum. Það var fyrst 1917, sem sett voru húsaleigul., sem að vísu giltu þá ekki nema fyrir Reykjavík, en þau giltu til 1927. Þetta var fyrir þann tíma, sem áhrifa verkalýðsflokka, eða þeirrar stefnu, að ríkisvaldið hefði sem mest afskipti af málum, fór að gæta. Ástæðan er sú, að löggjafinn getur ekki skorazt undan því að bæta úr neyð, sem uppi er í landinu í húsnæðismálum. Þau húsaleigul., sem sett voru 1917, giltu aðeins um Reykjavík, og það var hert á þeim eftir fyrstu raun, og á sömu leið hefur farið, þegar Alþ. hefur haft afskipti af þessum málum. Í gengisskráningarl. 1939 var sett inn ákvæði, sem takmarkaði samningsfrelsi manna, húseigenda og leigjenda, og raunin er sú, að í öll þau skipti, sem Alþ. hefur haft þau mál til meðferðar síðan, hefur alltaf verið hert á ákvæðum húsaleigul., og samningsfrelsi manna hefur verið skert meir og meir og alltaf af sömu ástæðum, vegna þess að húsnæðisvandræði og neyð, sem ríkti, hafa kallað að, og aðgerðir hafa orðið meiri og meiri. Og nú er lýst yfir, að húsnæðisvandræðin hafi aldrei verið meiri en þau eru í dag, a. m. k. í Reykjavík, og það er af þeim ástæðum, að síðustu árin hefur ríkisvaldið orðið að takmarka meir og meir frelsi manna til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum á þann hátt að byggja yfir sig. Og nú í ár vitum við, að þessi réttur manna til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum verður skertur meira, en nokkurn tíma áður, því að hann verður nánast enginn. Frelsi manna til þess að bæta úr húsnæðisleysi sínu er afnumið, með því að fjárhagsráð veitir engin leyfi til þess að bæta úr því, hversu sárt sem það er, og þess vegna er nú meiri ástæða til þess, en áður, fyrir löggjafann að hafa afskipti af þessum málum. Ég sagði það á laugardaginn, að ég sæi ekki betur, en að það væru tvær stefnur hjá Framsfl. í þessum málum, önnur, sem lýsir sér í frv. um stóríbúðaskatt og í þeim áróðri, sem rekinn er af flokksins hálfu og gengur út á það að sýna, að hann vilji ekki hika við að gera sem allra róttækastar aðgerðir til þess að bæta úr húsnæðisskortinum í Reykjavík, en hin stefnan lýsir sér í frv., sem hér er til umr. og sýnilega á að ná fram að ganga, að gera sem allra minnst og nema það, sem eftir er af húsaleigul., úr gildi. Ég vil minna hv. frsm. meiri hl. á, að ég veit ekki betur, en að stefna Framsfl. í löggjöf hafi verið sú, að hafa mjög mikil afskipti af húsnæðismálunum. Það kom fram, þegar fyrstu húsaleigul. voru sett og þegar ríkisvaldið og löggjafinn setti fyrstu l. um verkamannabústaði, og hefur komið fram alltaf síðan, að Framsfl. hefur ekki aðhyllzt þá stefnu, að ríkisvaldið hafi engin afskipti af því máli, og það hefur komið fram í setningu þeirra húsaleigul., sem nú gilda frá 1939 með þeim viðbótum, sem gerðar hafa verið síðan, sem munu vera allt að 10 breyt., allar til þess að herða á þeim ákvæðum, sem að vísu skerða samningsfrelsi manna. Í blöðum Framsfl. hefur því verið haldið fram, að það stæði ekki á Framsfl. að gera sem róttækastar aðgerðir í þessum málum, vegna þess hve þörfin fyrir þær væri brýn hér í Reykjavík, eins og hefur verið átakanlega lýst í blöðum hans nú um síðustu áramót, og neyðarástandið, sem blaðið sýndi fram á, hefur ekki minnkað síðan. Það er því alveg ljóst, að sú brtt., sem hér liggur fyrir, leggur það í raun og veru á vald félmrh., hvaða úrræði yrðu höfð í löggjöf til þess að bæta úr neyðarástandinu, sem hér er, og ég skil ekki, hver ástæða er til þess, að meiri hl. getur ekki fallizt á það, vegna þess að meira að segja andmælandi frv. um stóríbúðaskatt lýsti því yfir, að hann teldi, að það þyrfti að gera ýtarlegri rannsókn á þeim málum, heldur en hefur verið gert, og telur meira að segja, að það eigi að gera verulegar breyt. á þeim till., sem felast í frv. um stóríbúðaskatt, þó þær séu mjög róttækar.

Hv. þm. Barð. ræddi hér nokkuð um afskipti heilbr.- og félmn. af þessum málum, og þá helzt frv. um stóríbúðaskatt, og varð ég ekki var við, að hann mótmælti neinu af því, sem ég hélt fram um afstöðu einstakra nm. Það var strax auðséð, að hv. sjálfstæðismenn mundu ekki treystast til þess að vera á móti öllum aðgerðum til að nýta ónotað húsnæði, annaðhvort með skömmtun eða skatti. Ég er sammála hv. þm. Barð. um það, að tilgangurinn með slíkum lögum sem stóríbúðaskatti á ekki að vera sá að seilast eftir fé í ríkissjóð, heldur á hann að vera sá að bæta úr húsnæðisleysi, og það er til hér í Reykjavík, að stórar íbúðir, jafnvel stórhýsi, eru notuð af örfáum einstaklingum, meðan hundruð og þúsundir bæjarbúa mega hafast við í grotnandi bröggum og öðru stórlega heilsuspillandi húsnæði. Ég er fylgjandi því, að ónotað húsnæði verði tekið til afnota fyrir húsnæðislaust fólk með skatti eða með því að láta viðurlög fylgja misnotkun á húsnæði, en frv. hv. framsóknarmanna um stóríbúðaskatt er svo róttækt í einstökum atriðum, að ég get ekki fylgt þeim. Það kemur sem sé fyrir, að hv. Framsfl. verður afar róttækur, jafnvel byltingarsinnaður. En ég tel það ekkert atriði í þessu sambandi að refsa þeim, sem búa í óþarflega stórum íbúðum. Höfuðatriðið er að fá þetta húsnæði til afnota fyrir það fólk, sem ekki á þak yfir höfuðið. Í þessu tilfelli þarf skatturinn ekki að vera hár, því að flestir munu heldur kjósa að leigja húsnæðið fyrir sæmilegt verð, en verða að borga af því skatt, þótt hóflegur sé. — Fyrir þessu þingi liggja þrjú frv. um þessi mál. Eitt þeirra er samið af Leigjendafélagi Reykjavíkur og er um stóríbúðaskatt, en þar eru skattaákvæðin vægari, en í frv. hv. framsóknarmanna. Þá hefur Leigjendafélagið sent heilbr.- og félmn. umsagnir um þessi frv., og hefur stjórn félagsins haft það raunhæfa sjónarmið að benda Alþingi á, að vel færi á að samræma ákvæði fram kominna frv. Ég get vel fallizt á þessa afstöðu, en nú er svo langt liðið á þing, að mjög er hæpið, að til þess vinnist tími. Hins vegar virðist mér ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja brtt. hv. minni hluta. Það þarf að gera mátulega róttækar ráðstafanir í þessum málum, og húsaleigunefndir í mörgum bæjum, þar á meðal Reykjavík, hafa lýst sig fylgjandi frv. hv. framsóknarmanna um stóríbúðaskatt, ef því verði breytt. Hv. 6. landsk. þm. hefur nú lýst því, hvernig frv. þessu, sem hér er til umr., hefur verið spillt frá því, sem var, þegar það var borið fram; t. d. má benda á ákvæðin um mat á húsaleigu, sem nú eru stórum verri frá sjónarmiði leigjenda, því að nú er matið 9 kr. á ferm., en hingað til hefur það aldrei verið hærra, en 8,50 kr. á ferm., svo að það er fráleitt að halda því fram, að þetta frv. verði til þess að lækka húsaleigu. Slíkt verður hvorki í gömlum húsum né nýjum. Í gömlu húsunum hækkar leigan stórlega, enda viðurkenna það allir, og hitt, að framboð á húsnæði aukist, ef húsaleigulögin verða úr gildi felld, eru einberar fullyrðingar, sem ekki hafa sannfært mig. Hv. frsm. meiri hl. og hv. 8. þm. Reykv. sögðust vilja, að vald bæjar- og sveitarstjórna væri sem mest í þessum málum, en með þessu frv. er einmitt valdið tekið af þeim, því að samkv. lögunum skipa bæjar- og sveitarstjórnir meiri hluta húsaleigunefndar, en skv. frv. eiga þær enga aðild að skipun nefndanna. Það er því eitthvað annað, en vald þeirra sé aukið með frv. Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að við, sem andmælum frv., vildum troða hv. Framsfl. niður í svaðið vegna aðgerða hans í húsnæðismálunum. Ég vil mótmæla þessu. Í fyrsta lagi eru aðgerðir hans í húsnæðismálunum engar til þess að troða í svaðið, enda er það ekki tilgangur minn að fara svo með flokkinn sem hv. þm. sagði, heldur er með till. minni hl. verið að gefa Framsfl. tækifæri til þess að hafa sem mest áhrif á þá framtíðarlöggjöf, sem sett yrði um þessi mál. Ég hef í vetur fylgt Framsfl. í öllum þeim málum, sem snerta landbúnaðinn og bændur landsins. Ekki af því, að ég hafi ævinlega verið honum algerlega sammála, því að úrræði Framsfl. hafa stundum náð of skammt og framkvæmdir verið þannig, að ekki sé sjálfsagt að fylgja þeim, en ég hef haft þá afstöðu, að fólkið í mínum gamla flokki, Alþfl., og bæjarbúar yfirleitt þurfi að skilja aðstöðu fólksins í sveitunum, en ef Framsfl. tekur upp þá stefnu að vera mótfallinn úrræðum til þess að bæta úr neyð verkafólks í bæjunum og vill afnema lög, sem hingað til hafa verndað það, þá getur komið til þess, að í mínum augum verði Framsfl. ekki svo nauðsynlegur fyrir sveitirnar sem hann sjálfur álítur, því að ef hann ætlar sér að verða íhaldssamur bændaflokkur, þá eru nógir íhaldssamir bændur í Sjálfstfl. og sá flokkur fær um að túlka það sjónarmið. Ef Framsfl. vill enga samvinnu hafa við fulltrúa verkalýðsins í þessum málum, þá sé ég ekki, hvaða munur er á honum og íhaldinu sjálfu, og mun þá verða að endurskoða mína vinsamlegu afstöðu, sem ég hef haft til hans. — Að lokum vildi ég aðeins segja það, að ég hef ekki enn séð, hvers vegna hv. þm. ættu að vera andvígir brtt. hv. minni hl., og vænti þess því í lengstu lög, að hún verði samþ.