15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

49. mál, húsaleiga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ., sem nú settist niður, var að ræða um það, hversu mikil bót væri að því frv., sem hér væri til umr., miðað við núverandi húsaleigulög. Ég verð að viðurkenna, að þetta getur verið rétt, en það fer eftir því, hvort menn bera fyrir brjósti hag húseigenda eða leigjenda, þegar menn draga þá ályktun. Ef menn tala út frá sjónarmiði húseigenda, þá er frv. til bóta. Það heimilar húseigendum að segja upp fólki frekar, en núv. húsaleigulög heimila. Þar eru hömlur þær, sem nú eru á húseigendum, rýmkaðar. Nú má samkvæmt frv. rýma húsnæði vegna systkina, ættingja í beina línu, kjörbarna og fósturbarna, en samkv. núv. löggjöf má ekki rýma húsnæði fyrir allt þetta fólk. Þeir, sem telja þessa breyt. til bóta, tala ekki fyrir munn leigjendanna í Reykjavík, heldur fyrir munn húseigenda. Þannig er með flest ákvæði frv. Það er til bóta fyrir húseigendur. Það á að fella niður ákvæði, sem eru í gildandi löggjöf til verndar rétti leigjenda. Auk þess er það óneitanlegt, að frá því að frv. var flutt af hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. A-Sk., hefur því verið breytt í Nd., þannig að réttur, sem leigjendum var þó tryggður í frv. upphaflega, hefur nú verið felldur niður, .t. d. ákvæði 2. gr., þar sem l. veita forgangsrétt að leiguhúsnæði fjölskyldum, sem í eru börn innan 16 ára aldurs. Það hefur oft verið svo, þegar fólk hefur verið að leita sér að húsnæði, þá hefur það beinlínis strandað á því, að börn hafa verið í fjölskyldunni. Forgangsréttur fjölskyldufólksins hefur nú verið niður felldur. Hvernig er það í frv. nú? Það er á þann veg, að þegar leigusali leigir íbúð öðrum, en skyldmennum, skal hann leitast við að leigja fjölskyldum, sem hafa börn innan 16 ára aldurs. Það er búið að nema fjölskylduréttinn burt. Nú á að vera viðleitni húseigenda til að leigja barnafjölskyldum. Það verður nú viðleitni í lagi! Nei, vitanlega forðast þeir það, eftir að svona loðmulla væri orðin að lögum.

En er þá ekki hægt að leita verndar húsaleigunefndar? Nei, ég held nú síður! Í ákvæðunum um það segir nú, að það megi leita tillagna húsaleigunefndar, þegar húseigandi er búinn að neita barnafjölskyldum. Annað er ekki sagt um það í þessu frv., sem hv. frsm. mælir svo mikið með sem umbót. Húseigendur munu fagna þessu ákvæði, af því að það rýmkar um hendur húseigenda um að hafna öllum barnafjölskyldum.

Hvers konar umbót er svo á 5. gr.? Hámarkið á leigu fyrir hvern fermetra er nú sett upp í 9 kr. Það er umbót fyrir húseigendur, en að sama leyti skerðing á rétti leigjenda.

Nei, það er því aðeins hægt að mæla með frv., að menn beri fyrir brjósti hagsmuni húseigenda og vilji halla rétti leigjenda. Þessi hækkun verður heimiluð, ef frv. verður að l. Þá má hver fermetri kosta 9 krónur. Hér er því verið að rýmka rétt húseigenda um verðlagið. Og það verður notað. Húsaleigunefndir utan Reykjavíkur hafa ekki farið nærri því svona hátt, en nú, þegar búið er að lögfesta ákveðið verð fyrir hvern fermetra, þá er ég viss um, að húseigendur annars staðar á landinu munu vilja fara með verðlagið, — og hafa stoð til þess í l., — upp í 9 kr. á fermetrann. Þetta mundi því valda margfaldri hækkun á húsaleigu í ýmsum kaupstöðum. Það er ekki lítil endurbót að slíku, þ. e. a. s. ef litið er á málið frá sjónarmiði húseigenda. Sé þess mest þörfin núna að setja af stað nýja dýrtíðaröldu og hækka einn allra stærsta útgjaldalið almennings, því að húsnæði er einn allra stærsti útgjaldaliður hjá þeim, sem húsnæði þurfa að kaupa, þá er frv. mesta metfé og mesta gersemi. En ef þess er meiri þörf að reyna að koma í veg fyrir svartan markað og okur á húsnæði, og að því hafa húsaleigulögin stefnt, þó að það hafi ekki tekizt að öllu leyti, þá hefði kannske verið betra að fara einhvern veginn öðruvísi að en að hækka hámarkið á leigu fyrir húsnæði.

Hv. frsm. talaði um, að ég mundi vera líkur hesti, sem hefði verið ágætur reiðhestur, en væri fælinn og hlypi ætíð til vinstri. Það kann vel að vera. En ég verð að segja, að mér virðist þá ekki síður bera á því, að hv. frsm. meiri hl. sé með sama galla, en fælist bara til hægri, og það er frá mínu sjónarmiði sízt betra. En ég verð að segja honum, að þetta getur ekki stafað af sjóngalla hjá mér, því að nýlega fór ég til augnlæknis og reyndist hafa 6/6 sjón á báðum augum, svo að af sjóngalla stafar þessi fælni mín ekki.

Ég held, að ég hafi komið svo rækilega inn á þetta frv., að öllum ætti að vera ljóst, sem ekki bregða við blinda auganu, að með þessu frv. er ekki verið að berjast fyrir hagsmunum leigjenda. Það var ekki fram borið til að berjast fyrir hagsmunum leigjenda, og þær breyt., sem það hefur tekið á Alþingi, hafa ekki verið gerðar til að vinna að hagsmunum leigjenda, heldur er allt miðað við hagsmuni húseigenda. Öll túlkun okkar, sem ræðum frv., er náttúrlega með gerólíku móti, því að sumir líta á málið frá sjónarmiði leigjenda, en aðrir frá sjónarmiði húseigenda, og niðurstaðan verður þá eðlilega á allt annan veg.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að hv. þm. Barð. Hann hagræddi orðum mínum, eftir því sem hann hefði kosið, að þau hefðu verið. Hann sagði, að ég hefði fagnað því ástandi, sem hefði skapazt við gildandi húsaleigulög, ég væri svo ánægður yfir því, að báðir aðilar hefðu komið sér saman um að brjóta lög. Það er síður en svo. En ég er ánægður með l. eins og þau eru, að svo miklu leyti sem hægt er að framkvæma þau. Ég er síður en svo ánægður með það, að þrátt fyrir hin verndandi ákvæði l. skuli hafa tekizt að fara á bak við þau og brjóta þau. En ég sé samt ekki, að þetta frv. komi að neinu leyti í veg fyrir, að hin verndandi ákvæði l. séu brotin. Það, sem ég sagði, var það, að hinum verndandi ákvæðum l., sem koma að meira og minna leyti í veg fyrir okur, þeim fagnaði ég, og ég taldi fulla þörf á að setja l. til að koma í veg fyrir okur á fleiri sviðum í þjóðfélaginu, en það, sem hv. þm. Barð. væri alltaf að tárfella yfir, væri það, að l. væru í gildi, en það, sem okkur bæri báðum að tárfella yfir, væri það, að ekki hefði tekizt að setja ákvæði, sem fyrirbyggðu til fulls okur á húsnæði.

Hv. þm. sagði, að ekkert væri auðveldara, en að koma í veg fyrir svartan markað og okur, það væri ekki annað, en skrá gengið rétt. Er þá ekki búið að laga þetta? Er nokkur hætta á svartamarkaðsbraski meir? Er ekki búið að breyta genginu eins og stjórnarflokkarnir töldu þurfa til að það væri rétt skráð? Ég er hræddur um, að þau áhrif séu ekki enn farin að koma í ljós af gengislækkuninni. Eða þarf kannske nýja gengislækkun? Stendur til að breyta genginu á ný til þess að koma í veg fyrir húsaleiguokur í Reykjavík og lækna þær þjóðfélagslegu meinsemdir, svartamarkaðsbrask og okur? Hv. þm. Barð. segir að það sé lækningin. Hans meginskoðun hlýtur að vera sú, að það eigi að breyta genginu, lækka það, þangað til ekki sést svartamarkaðsbrask. Hann ætti að auglýsa þetta í sínu Morgunblaði.

Ég er hræddur um, að hæstv. stj. sé búin að sjá það, að sú gengislækkun, sem þegar hefur verið framkvæmd, verður hvorki lækning á einu né neinu. Þess vegna býst ég við, að leigjendur megi lengi bíða eftir, að komið verði í veg fyrir svartamarkaðsbrask í húsnæðismálum eða á öðrum sviðum, ef gengislækkun hæstv. stj. á að lækna slíkar meinsemdir.

Það var nokkuð langt sótt hjá hv. þm., þegar hann spurði, hvers vegna ég og Sósfl. hefðum ekki barizt fyrir, að þær 14 milljónir, sem ákveðnar voru til launauppbótar, færu til að leysa húsnæðisvandamál Reykjavíkur. Að því er mig snertir, þá tók ég ekki þátt í afgreiðslu þess máls, ég var ekki á þingi, þegar sú ákvörðun var tekin. En ég býst við, að hv. þm., sem viðurkenndu þörf fastlaunamanna fyrir launauppbótina, hafi byggt það á því, að þeir hafl viðurkennt þá staðreynd, að dýrtíð hefur aukizt, en föst laun ekki, og talið, að það væri ekki viðunanlegt. En það hefur ekki nein áhrif á ástandið í húsnæðismálunum, og ef farið er að rýmka um verndarákvæði húsaleigulaganna leigjendum til handa, þá verður það viðbótarrök fyrir því, að þörf hafi verið að veita fastlaunamönnum nokkra launauppbót, m. a. til að standa straum af húsaleiguokri í Reykjavík.

Hv. 8. þm. Reykv. rakti afskipti hinna stjórnmálaflokkanna af húsnæðismálunum. Hún talaði um verkamannabústaðina og sagði, að þeir væru fyrst og fremst mál Framsfl. Mér er ekki kunnugt um, að Framsfl. hafi haft neina forustu í því máli. Ég held, að það sé óumdeilt, að Alþfl. hafi þar átt frumkvæðið. Hann barðist árum saman fyrir því máli við daufar undirtektir Alþingis. Allir forustumenn Sjálfstfl. töldu þetta erlent fyrirkomulag og bezt væri að gera engar umbætur og hafa engin afskipti af þeim málum. Sjálfstfl. barðist eins og ljón gegn þessari lagasetningu. Þegar l. um verkamannabústaði voru lögfest með samþykkt frv. Héðins heitins Valdimarssonar, var það óneitanlega með stuðningi Framsfl., en það var fyrst og fremst baráttumál Alþfl.

Þá kom hv. þm. að því, hvað gert hefði verið fyrir afskipti nýsköpunarstj. Niðurstaða hv. þm. var sú, að þá hefði lítið verið gert, enda lýsti hann ástandinu þá þannig, að þá hefði fjármagnið flotið um allt land og peningar verið til alls. Nú er skiljanlegt, að þegar slík flóðalda peninga fer yfir landið, þá sé einna minnst ástæða fyrir hið opinbera að leggja fram stórfé til aðstoðar í húsnæðismálunum, þá geta einstaklingarnir fremur bjargað sér sjálfir, og að því leyti hefði verið eðlilegt, að dregið hefði úr framlögum hins opinbera til húsbygginga, þegar flóðalda peninganna fór yfir landið, Stjórnendur 1andsins á því tímabili voru Sjálfstfl., Alþfl. og Sósfl. En þrátt fyrir þetta peningaflóð hjá almenningi var þó haldið áfram þeirri starfsemi að byggja verkamannabústaði og þó nokkuð umfram það, sem veitt var á fjárl., þannig að yfirdráttarlán mynduðust hjá sjóðnum, svo að milljónum skipti, fyrir það, að meira var byggt en ákveðið var samkvæmt fjárl.

Þá sýndi hv. þm. fram á og það með nokkrum rökum, að þegar sú stjórn sat að völdum, sem við tók af nýskoðunarstj., en hún var skipuð fulltrúum frá Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., hefði aðgerðaleysið orðið algert í þessum málum. Þá hefði m. a. verið felld niður löggjöf um aðstoð við byggingar til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum. Ég held ég muni það. Það bar þannig að, að þáverandi fjmrh., Jóhann Jósefsson, lagði það fyrir sína meðráðherra, að það væri ekki fé fyrir hendi í ríkissjóði til þess að standast útgjöld til að framkvæma þennan kafla l. um verkamannabústaði o. fl., og krafðist þess, að framkvæmd þessa kafla l. yrði frestað. Mér er ekki kunnugt um, að fulltrúar Framsfl. í þeirri stj. hafi mótmælt þessu eða eigi þar á nokkurn hátt aðra sögu, en hinir flokkarnir. Um þetta sagði hv. þm. það, að hún minntist þess ekki, að ég hefði haldið neina ádeiluræðu í þingsölunum út af þeim aðgerðum. Það er rétt, en ég barðist á móti því í mínum flokki, að gengið yrði inn á slíkt samkomulag í stj., að fella niður framkvæmd 3. kafla þessara l. Það má vera, að hv. 8. þm. Reykv. heyi nú sams konar baráttu móti því í sínum flokki, að ekkert sé aðhafzt í húsnæðismálunum annað, en að spilla löggjöfinni í framhaldi af því, sem þá var gert, en fái ekki rönd við reist. Mér kæmi það ekki á óvart, því að nú er sú saga að endurtaka sig, að þegar svokallaðir vinstri flokkar eiga samstarf við Sjálfstfl., þá koma fram kröfur að gera ekkert í þeim málum, sem mest varðar um fyrir fátækasta hluta þjóðarinnar, og ef þeir fá undirtektir um það, þá er farið að færa sig upp á skaftið og beðið um, að sú verndandi löggjöf, sem til er, verði felld niður eða breytt til hagsbóta fyrir þá, sem hafa aðstöðu til að reka einhverja fjárplógsstarfsemi í landinu. Það var þetta, sem gerðist, þegar Alþfl. stjórnaði með Sjálfstfl. og Framsfl., þegar 3. kafli l. var felldur niður. Sama endurtekur sig nú, þegar Framsfl. er í samstarfi við Sjálfstfl. um ríkisstjórn. Þá á að spilla þeirri verndandi löggjöf í húsnæðismálum, og Framsfl. virðist sætta sig við það mætavel. Sama gerðist á þessu þingi, þegar þessi hv. þm. flutti frv. um skattlagningu á lúxusíbúðunum. Flokkurinn var kúskaður til að leggja það mál til hliðar. Þá fluttu tveir sveitamenn frv. til l. um húsaleigu, sem er ekki róttækara en það, þegar af stað er farið, að dregið er stórkostlega úr öllum verndandi ákvæðum gildandi l., sem verulegu máli skipta, og svo er ákveðið síðast, að löggjöfin skuli afnumin í áföngum. En sagan er ekki öll sögð með því. Meðferð þingsins á þessu frv. sveitaþm. er þannig, að dregið er enn úr þeim fáu verndandi ákvæðum, sem þó voru eftir, svo að nú eru þau að engu að verða. Heimildin til verðlagningar er hækkuð. Það er dregið úr hinum verndandi ákvæðum um fjölskyldufólk og þar fram eftir götunum. Ég veit, að þetta verður Framsfl. að sætta sig við vegna stjórnarsamstarfsins. Og þetta er sönnun þess, að róttækar kröfur til umbóta í húsnæðismálunum, eins og Framsfl. bar fram fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og skrifaði myndarlega um í flokksblað sitt, Tímann, verði nú að hverfa úr sögunni, en þess í stað að standa að frv. eins og því, sem hér liggur fyrir, til að halda frið á heimilinu, þar sem annar aðilinn heimtar, að lokum sé skotið frá, til þess að þeir, sem stunda gróðastarfsemi með lausafé eða fasteignir í landinu, fái óbundnari hendur, og þau mál, sem sýna einhverja viðleitni til vinstri sjónarmiðs, eigi ekki framgangsvon. Þegar vinstri flokkarnir eiga samstarf við Sjálfstfl., á sú vinstri hönd, sem heldur á einhverju góðu máli, að visna — og visnar líka. Ég þekki þessa sögu. Hún hefur endurtekið sig það oft, að ég er farinn að kannast við hana. Ég þekki hana í sambandi við minn flokk, og ég sé, að nú endurtekur hún sig í sambandi við Framsfl. Hv. 8. þm. Reykv. sagði réttilega, að skrif Tímans frá því fyrir kosningar um húsnæðismálin sómi sér vel. Þetta er rétt, en efndirnar eru ekki til eins mikils sóma. Mér líkaði vel þegar hv. 8. þm. Reykv. var komin út í stríðshumör í umr. í dag og lét að sér kveða, og ég hefði verið fullur fagnaðar, ef hún hefði verið að innleysa kosningarloforðin um að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur, en hún var í þess stað að segja leigjendum í Reykjavík stríð á hendur. Og að standa með samþykkt þessa frv. er að standa með auknum fjárplóg á hendur þeim og segja málstað þeirra stríð á hendur. Ég átti von á því, að hv. 8. þm. Reykv. tjáði sig fylgjandi till. okkar í minni hl., okkar hv. 1. landsk. þm., um að fela hæstv. félmrh. að undirbúa heildarlöggjöf um þessi efni sem full þörf er að gera sem fyrst, og ég vona, að hún verði ekki ein úr sínum flokki til að fylgja brtt. við 7. gr., því að fengist hún samþ., þá væri þó í undirbúningi og ég vil segja í góðum höndum endurbót, sem byggð væri á sönnum rannsóknum, og vænti ég góðs af þeim niðurstöðum, en ég er ekki vonlaus um, að vilji sé fyrir því meðal Framsfl. hér í deildinni að gera fleiri lagfæringar á frv., svo að ekki felist minni vernd í því fyrir leigjendur en var þegar frv. var lagt fyrir Nd., og ég er ekki vonlaus um, að með aðstoð framsóknarmanna megi fá fram breytingu á 2. gr., að forgangsréttur barnafjölskyldna, fram yfir aðra en skyldmenni, til húsnæðis verði tryggður og till., sem felur í sér að halda sig við 7 kr. hámarksleigu á hverjum m2 gólfflatar, eins og var í frv. í upphafi, en hámarkið er nú komið í 9 kr. Þá vona ég, að styrkur Framsfl. fengist með því, að leiga í gömlum húsum, þ. e. húsum, sem byggð eru fyrir áramót 1940, verði ekki nema í hæsta lagi 5 kr. fyrir hvern fermetra gólfflatar, og er það raunar dýrara, en að greiða 7 kr. í nýjum húsum, þar sem hitakostnaður er stórum meiri í þeim og auk þess vantar ýmis þægindi í þau, sem leiðir af sér stóra kostnaðarliði fyrir íbúana, auk óþæginda, sem af því stafa. Ég vona því, að framsóknarmenn og aðrir réttsýnir menn í hv. d., sem ekki eru um of bundnir af hagsmunum húseigenda, geti fylgt till. þeim, sem ég hef gert hér grein fyrir við 2. og 5. gr. frv. Það er ekki þar með sagt, að ég telji ekki þörf á fleiri breytingum við frv., t. d. við 1. gr., að ekki verði rýmkað fyrir húseigendum, en ég tel meiru máli skipta um skýlausan forgangsrétt barnafjölskyldna og um leiguhámarkið í 5. gr. og að mismunur verði gerður á leigu í gömlum og nýjum húsum. Þá hefur það verið venja hjá húsaleigunefndum að meta leiguna eftir gólffleti íbúðarherbergja, en reikna ekki geymslur, ganga, forstofur og annað slíkt með í leigunni, en nú er gert hér ráð fyrir að reikna allt með á 9 kr. hvern fermetra, og yrði því af þeim ástæðum um stórfellda hækkun húsaleigu að ræða, auk þess sem farið yrði inn á nýjar leiðir í þessum efnum. Ég mun því í brtt. mínum miða við fermetra gólfflatar í íbúðarherbergjum, svo sem hingað til hefur verið gert. Ég þykist því geta markað afstöðu Framsfl. og geta séð, hvað hann vill, með afstöðu hans til þessara till. og þeirra, sem þegar hafa verið lagðar fyrir. Það hefði verið rétt að taka inn í frv. heimild til skömmtunar á húsnæði, til að tryggja betri notkun þess, og hefur hv. þm. Barð. talið sig fylgjandi þeirri leið, og væri einnig rétt að fullnægja Framsfl. með því að setja inn í frv. heimild til að leggja á stóríbúðaskatt, þannig að hæstv. félmrh. hefði haft sem rýmstar hendur um hverjar þær ráðstafanir, sem tiltækilegastar væru til að ráða sem mesta bót á húsnæðisvandamálunum, og notfæra sér þær ýmsu aðferðir, sem menn hafa látið sér detta í hug til úrbóta þessu vandamáli og þá sérstaklega hér í Reykjavík. Það er nú þeim mun meiri ástæða til að gefa þessum málum gaum en áður, í fyrsta lagi að færri geta nú byggt yfir sig en áður; í öðru lagi, að fjárhagurinn hefur nú versnað það hjá fólki, að færri geta af þeim ástæðum byggt yfir sig en áður, og í þriðja lagi eru nú slíkir fjötrar á í þessum efnum, að óvíst er, hvort nokkrar byggingarframkvæmdir verða leyfðar á þessu ári.

Ég hef nú liggjandi í fjárhagsráði umsókn um heimild til að byggja verkamannabústað á Hnífsdal, en þar hafa ekki áður verið byggðir verkamannabústaðir. Það er beðið um að fá að byggja 2 íbúðir, og eru báðir þeir aðilar, sem í hlut eiga, í óhæfu húsnæði, en heyrzt hefur, að fjárhagsráð ætli að synja um öll leyfi, og sennil. verður engu fé varið í þessu skyni, og sjá menn þá, hvernig fólk er statt í þessum efnum. Ég hefði því talið heppilegra að hafa í frv. heimild til hvers konar gagnlegrar ráðstöfunar fyrir leigjendur, sem verða nú verr settir með hverri vikunni, sem líður, og ekki mun minnka, sérstaklega ef þetta frv. verður samþ. óbreytt. Ég leyfi mér svo að leggja fram hinar skriflegu brtt. mínar og afhenda þær hæstv. forseta.