15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

49. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur ummæli frá hv. 6. landsk., sem eigi má láta ómótmælt. Hann sagði í sambandi við þetta mál, að sagan væri að endurtaka sig, Sjálfstfl. væri að nema brott öll verndarákvæði í löggjöfinni. Ég leyfi mér að lýsa þetta sem rakalaus og tilhæfulaus ósannindi. Hann segir, að þetta snerti flokk sinn. Ég vil í sambandi við samstarf flokks hans og Framsfl. á sínum tíma benda honum á, að Alþfl. hefur aldrei farið verr út úr kosningum, en eftir slíka samvinnu. Ég veit, að hv. þm. ætlar þetta ekki, en þó má eigi láta þessu ómótmælt. Það eru rakalaus ósannindi. Er ósanngjarnt að bera slíkt fram í umr. — Hann sagði, að rétt væri að taka inn heimild um skömmtun húsnæðis til að mæta vilja Framsfl. En hv. 6. landsk. veit, að ég hef gert grein fyrir því, að ég vildi heldur skömmtunina, en tekinn væri upp stóríbúðaskattur hv. 8. þm. Reykv. Hvort tveggja gat ekki samrýmzt í frv., og get ég eigi fylgt málinu, ef stóríbúðaskatturinn á að fylgjast með. Er því rétt að taka þetta fram. Ég vil þó gera grein fyrir því, hvers vegna ég greiði atkv. á móti hámarkstill. Ég var andvígur því að hafa hámark á húsaleigu, ekki af því, að spornað sé við hárri húsaleigu með því, heldur vegna þess, að rangt er, þegar sett er í frv., að húsaleigan skuli ákveðin af dómbærum mönnum, að takmarka þannig upphæðirnar. Hljóta ævinlega að vera tilhneigingar til að færa húsaleigufjárhæðina upp í þetta hámark. Þess vegna vildi ég að hámarkið yrði þurrkað út. Ég tel, að menn þeir, sem ákveða húsaleiguna, hafi næga dómgreind til að bera. Þarf ekki að setja hámarksákvæði um mjög gömul hús, heldur á vald dómkvaddra manna, og á ekki að kveðja aðra menn til þess. Þess vegna vil ég ekki heimila hámark. Treysti ég þessum mönnum.

Ég get ekki látið vera að benda á, að hv. 6. landsk. hefur skýrt frá því, að húseigendur væru fjárglæframenn. En ég lít svo á, að húseigendur hafi tekið að sér merkilegt verkefni, sem hvorki ríkisvaldið né bæjaryfirvöld hafa treyst sér til að leysa. Ef þetta verkefni er í höndum stórgróðamanna eða glæpamanna, þá væri miklu nær að bera fram lagafrv. um að taka allar eignir af þessum mönnum og fá hinu opinbera. Ég er þeirrar skoðunar, að þessir menn leysi af hendi merkilegt starf, og er því ranglátt að halda uppi áróðri gegn þessari stétt. Auk þess veit ég, að margir húseigendur, sem hér er um að ræða, eru verr settir en þeir, sem hv. þm. vill verja. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram.