03.02.1950
Efri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

103. mál, skógrækt

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki stórt eða mikilvægt að vöxtum, en þarft virðist það vera og nauðsynlegt, eins og nú er háttað, og við flm. höfum eftir ósk Skógræktarfélags Íslands tekið að okkur að flytja það hér. Í sandgræðslul. okkar eru nokkurn veginn skýr ákvæði um það, hvernig fara eigi um það, þegar búpeningur sækir í girt gróðurlönd sandgræðslunnar, en það eru ekki eins nákvæm ákvæði um þau lönd, sem girt eru vegna skógræktarinnar. Hér í þessu frv. er leitazt við að gera þau ákvæði skýrari og rækilegri, en áður hefur verið, og m. a. er það skýrt sagt hér, hvað til þess þarf, að hægt sé að heimta að fénaði þeim, sem ásækir trjáræktarlönd manna, verði slátrað, og þurfi ekki að vera ádeilur um það og jafnvel málaferli, eins og hefur átt sér stað um slík atriði. Flm. hafa ekki viljað hafa ákvæðið svo strangt, að fénaður væri tekinn undireins, þó í eitt skipti væri, sem hann kæmist inn fyrir hið girta svæði, og slátrað, en ef það er oftar, þá er heimild til þess. Þetta kann að þykja heldur lint ákvæði, og yfirleitt er mikil hætta á því, ef aldar eru upp dilkær, sem komast inn í svona girt lönd, að þau svæði verði fyrir miklum ágangi, eins og hefur sýnt sig í Þingvallahrauni og víða, þar sem slík lönd eru girt. Ég ætla svo ekki við þessa 1. umr. að orðlengja um þetta mál, en vil leyfa mér að stinga upp á, að því verði vísað til landbn. að lokinni þessari umr.