03.02.1950
Efri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

103. mál, skógrækt

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Enda þótt þetta mál fari til n., sem ég á sæti í, þá langar mig til að fá hjá hv. flm. nokkrar upplýsingar um málið. Það er tekið fram, að komist búfé inn á skógræktarsvæði, sem afgirt er með fullgildri girðingu, þá skuli eigandi merkja féð, tilkynna það hreppstjóra o. s. frv. Nú langar mig til að spyrja, hvað er fullgild girðing. Telur hann fullgilda girðingu, ef hún er styrkhæf til jarðarbóta eftir jarðræktarl.? Sé svo, þá fara skepnur í gegnum þær girðingar, og mér er ekki vitanlegt, að nokkurt skóglendi hafi verið girt með girðingu, þar sem skepnur fara ekki í gegn. Ríkið á Þingvöll, og 1. flm. frv. er einn af þeim, sem þar á að sjá um, en út úr þeirri girðingu er smalað fleiri hundruð fjár á hverju ári, og í þeirri skógræktargirðingu, sem ég þekki bezt, á Hallormsstað, eru ævinlega nokkrar kindur á hverju hausti, og þó hugsa ég, að það verði að telja, að það sé nokkurn veginn fullgild girðing eftir girðingarlögum. Þegar vatn rennur niður hlíðarnar, myndast grófir, þar sem féð smýgur undir, þó reynt sé að hlaða undir girðinguna einu sinni á ári. Þess vegna finnst mér þetta ákaflega tvísýnt ákvæði og finnst þar að auki tvísýnt, hvort eigi að gera skógræktinni hærra undir höfði en jarðrækt og túnrækt, sem þjóðin, a. m. k. sveitafólkið, lifir af. En það, sem vakti sérstaklega fyrir mér að fá að vita, var þetta, hvað er meint með fullgildri girðingu, og hverjir eiga að skera úr því, þegar finnast einhverjar kindur á haustin í skógargirðingum, hvort þær hafa smogið undir girðinguna um einhverjar grófir, sem vatn hefur grafið og ekki hefur verið gert við nógu snemma, eða ekki, svoleiðis að kindurnar séu ekki réttdræpar fyrir að vera komnar þar inn. Ég held, að þetta sé ákaflega vafasamt mál og þurfi meiri og ýtarlegri grg. fyrir því, hvað hér er meint með fullgildri girðingu og hver á að skera úr því, hvort galli er á girðingunni, eða hún er lögleg, og kindur, sem gegnum hana fara, réttdræpar.