03.02.1950
Efri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

103. mál, skógrækt

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér hefði fundizt, þar sem hv. síðasti ræðumaður er form. þeirrar n., sem þetta frv. fer til, að hann hefði getað látið bíða að láta sitt ljós skína þangað til málið kom til n. En fyrst hann lætur ljós sitt skína og leggur spurningar fyrir, þá verð ég að segja, að mér virðist, að því hvað fullgilda girðingu snertir, að þessu leyti girðingarl. landsins, að ef þeim l. er áfátt, þá beri okkur landbnm. að reyna að endurbæta þau ákvæði, sem þar eru. En hann ætti að vita það, þessi hv. þm., að alls staðar eru kindur, meira að segja meðal mannkindanna, sem eru sérkennilegar og einstakar, og þess vegna er það líka með sauðkindina, að það eru skepnur, sem leita frekar á girðingar og bannað svæði heldur en aðrar skepnur, og ef þær sjá opið rúm, þá fara þær inn, þó að það sé ekki alfaravegur. En það er satt, að ef girðingin er gölluð, þá þarf ekki að nota þær aðferðir að skera þessar skepnur. En hann spyr, hvað sé galli. Ef um galla væri að ræða á girðingu, þá geri ég ráð fyrir, að það mundi jafnvel koma undir mat úttektarmanna, hvað væri galli á girðingunni, en eins og hann gat um, þá getur vatnsrennsli opnað leið undir girðinguna. En annars álit ég, að við getum sparið okkur frekari umr. um þetta mál nú, þar sem við eigum báðir sæti í þessari n., sem málið fer sennilega til, og getum við þá athugað um þetta. Ef við teljum, að það þurfi endurbætur á girðingarl., þá getum við gert breyt. þar um. Ég veit ekki betur, en ég væri hvatamaður að því á s. l. ári, að girðingarl. væru endurskoðuð bæði um það, hvað væri ógölluð girðing, o. fl., og ég býst við, að það verði lagðar fyrir næsta búnaðarþing till. um þau atriði, en ef það mætti ekki bíða, þá er rétt að gera þessar endurbætur strax. Nú er það önnur löggjöf, sem liggur fyrir og er komin til okkar, það eru ræktunarl., og þó þar sé ekki um að ræða venjulegar merkjagirðingar, þá gæti komið til greina, að reynt væri að koma því inn, hvað þarf til að gera slíkar girðingar styrkhæfar. Við getum athugað, hvort n. getur ekki sameinazt um þessa hluti, og kemur það þá í ljós við 2. umr.