02.03.1950
Efri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég skal ekki lengja umr., þar sem líka þruman er liðin hjá og þrumuvaldur horfinn úr d. Námskeiðið tókst held ég með prýði, svo að það er litlu við að bæta. En það er sérstaklega eitt atriði, sem ég vil minnast á. Hæstv. dómsmrh. spurði um það, hvaða l. maður gæti stuðzt við til þess að verja trjálönd sín. Með því að frv. heimilar honum að semja við skógræktarstjóra um umsjón með löndum sínum, þá er sá samningur honum um leið löggilt vörn gagnvart ágangi búfjárins, en kæri hann sig ekki um að fara til hreppsins, þá er hann búinn að tryggja sér þá aðstoð, sem þarf lagalega til þess á ýmsan hátt gegn þeim ágangsvargi, sem ásækir. Menn þurfa ekki að halda, að mér væri mjög mikið ásóknarmál að fá breyt., því að frv. uppfyllti það, en ég taldi undir öllum atvikum brtt., sem hér er gerð, bæði til skýringar á máli og eins taldi ég það líklegt til að halda d. saman um málið, og ég vil taka það fram, að það er hægt fyrir hæstv. ráðh. að koma með brtt. við 3. umr., og ég segi fyrir mig, að ef ég sé, að þær brtt. eru til bóta á þessari brtt., ef hún kann að verða samþ. nú, þá mun ég vera fús til þess að greiða því atkv. En aftur á móti sé ég ekki ástæðu til þess að fara að senda þetta frv. eða brtt. okkar aftur til stjórnar Skógræktarfélags Íslands, þar sem búið er að fá umsögn þeirra fremstu manna í skógræktarfélaginu. Það er þá til þess að tefja málið, en ekki af áhuga fyrir því að koma því áleiðis. Það væri þá hægt, ef n. kæmi sér saman um það, að ákalla einhverja menn úr þessari stjórn milli 2. og 3. umr. En ég tel rétt að ganga til atkv. um frv. og brtt. nú og láta skeika að sköpuðu, hvernig fer, það getur þá staðið til bóta við 3. umr.

Ég ætla ekki að fara að lenda í orðaskaki við hæstv. dómsmrh., en ég ætla að lýsa því yfir, að landbn. mun ráða því, hverja hún kýs til framsögu í hverju máli, en fer ekki eftir skipun hvorki fyrrverandi né núverandi ráðh.