03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

103. mál, skógrækt

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. í gær benti ég á nokkur atriði, sem mér þótti orka tvímælis í þeim brtt., sem hv. landbn. lagði þá fram um umorðun á megingrein frv. Ég hef nú reynt að gera mér nokkru nánari grein fyrir þessum atriðum, síðan umr. fór fram, og mun ég út frá því leggja hér fram skrifl. brtt. og óska, að leitað verði afbrigða fyrir þeim.

Eitt af þeim atriðum, sem ég vék að hér í gær, var ákvæði varðandi vörzlugirðingar, um að úttektarmenn skuli segja til um það, hvenær girðing sé lögmæt, án þess að nokkuð sé til tekið um það nánar í frv., eftir hverjum reglum þeir skuli framkvæma þetta mat. Hv. frsm. landbn. benti á það, að í undirbúningi væri ný löggjöf um girðingamál yfirleitt, þó að vísu sá undirbúningur sé ekki lengra kominn en það, að búnaðarþing hefur gert um þetta frv. Að þessu athuguðu og einnig af því, að það er augljóst mál, að ekki á við að setja inn í þetta frv. nákvæm ákvæði um það, hvernig girðingar skuli vera, þá læt ég þetta hjá líða og flyt ekki brtt. um þetta atriði. — Það var einnig annað atriði, þ. e. ákvæðið um það tvöfalda niðurlagsverð, sem ég gerði athugasemdir við. Og mér fellur að vísu ekki alls kostar það orðalag, sem þar er. En við nánari athugun sé ég ekki ástæðu til að bera fram um þetta sérstaka brtt. — Þá er það þetta atriði í a-liðnum, sem með leyfi hæstv. forseta hljóðar svo: „Komist búfé (sauðfé eða geitfé) inn á skógræktarsvæði, sem skógræktarstjóri hefur umsjón með“ o. s. frv. Ég vék að því í gær, að mér fyndist þetta ákvæði um umsjón skógræktarstjóra vera nokkuð óskýrt og enn fremur vafasamt í sjálfu sér. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér síðan. Og ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að frá mínu sjónarmiði sé réttast að fella þetta ákvæði hér um skógræktarstjóra alveg niður. Það mun vera svo samkv. þeirri löggjöf, sem gildir um skógræktarmál, að skógræktarstjóri hefur eins konar umsjón með öllum skógræktargirðingum þeim, sem styrks njóta úr ríkissjóði. Nú er það jafnframt svo, að ákvæði laganna um styrkveitingar í þessu skyni gera það að verkum að sjálfsögðu, að allar eða flestar meiri háttar framkvæmdir á þessu sviði koma undir þetta. Það er nú einu sinni svo hér á landi, að ef menn eiga kost á ríkisframlagi til hluta, þá nota þeir sér það. Þess vegna er það, að ég hygg, að þeir skógræktarreitir, sem ekki heyra undir umsjón skógræktarstjóra af sjálfu sér, séu bæði fremur fáir og smáir, og ég get ekki séð, að brýn ástæða sé til að fara að krefjast þessarar umsjónar þessa embættismanns með þeim. Ég verð að líta svo á, að ef menn hafa þannig girt smáreiti til skógræktar, og að dómi úttektarmanna með fullgildri girðingu, þá eigi slíkt að nægja til þess, að þeir aðilar njóti réttinda af þessari lagasetningu.

Út af þessu mun ég leyfa mér að leggja fram brtt., í fyrsta lagi við a-lið frv., um að orðin „skógræktarstjóri hefur umsjón með og falli niður. Og einnig mun ég leggja til, að í b-lið falli niður orðin „skógræktarsvæði og“.

Þá er nýtt atriði, sem ég ekki minntist á í gær, en vaktist upp fyrir mér, þegar ég fór að skoða frv. í ró og næði. Mér sýnist vanta þarna ákvæði inn í, fyrst á annað borð er verið með þau sérákvæði, sem hér um ræðir. Það er sem sé hvergi gert ráð fyrir því, að fjáreiganda gefist kostur á að ráðstafa fé sínu eða fjarlægja það. Mér skilst, að ákvæði frv. í þessu sambandi mundu verka þannig í framkvæmdinni, að í fyrstu umferð tekur umsjónarmaður skógræktarsvæðis það fé, sem inn á það hefur komizt, merkir það, athugar, hver á það, sleppir því síðan, tilkynnir svo hreppstjóra og hann svo eiganda. Í næstu umferð yrði svo gangur málsins sá, að umsjónarmaður tæki féð og afhenti það hreppstjóra og því yrði þá lógað umsvifalaust. Mér sýnist þarna vanta inn í ákvæði um að gefa fjáreigendum, þegar þess er kostur, færi á að gera ráðstafanir í sambandi við sína meingripi, sem þarna er um að ræða. Í mínu nágrenni þekkir maður það einkum í sambandi við garðlönd, að þá nægir það oft alveg, að þær skepnur, sem ágangi valda hliðstætt því, sem hér um ræðir, eru teknar og fluttar burt, t. d. yfir fjörð, og þegar þær eru komnar í nýtt umhverfi, leita þær ekki að ræktunarlöndum, heldur fara í fjallið og gera ekki meiri usla. — Ég hefði því viljað leyfa mér að leggja til, að á eftir orðunum: „en hreppstjóri tilkynnir það síðan eigendum“ í stafl. a komi: Skal eigendum gefinn kostur á að vitja fjárins, ef fært þykir að áliti hreppstjóra. — Það er hvort sem er gert ráð fyrir því, að þetta gangi í gegnum hendur hreppstjóra, og þá er í lófa lagið að fela þetta hans úrskurði. Vitanlega getur oft staðið svo á, að það sé ekki hægt að koma þessu við, bæði ekki hægt að ná til mannanna, sem skepnurnar eiga, og enn fremur, að þeir geti ekki komið við að hirða sínar skepnur og ráðstafa þeim á þann hátt, sem henta þykir. En oft mun þetta þó mögulegt, bæði í þéttbýli og eins og víða er nú háttað um síma og samgöngur að öðru leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir brtt. mínum.