03.03.1950
Efri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

103. mál, skógrækt

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð, en mér skilst, að fyrsta og þriðja brtt. leiði hver af annarri. Mig langar annars til að spyrja hv. flm.: Hvað er trjáræktarreitur, og hvað er skógræktarsvæði? Skógræktarsvæði er frá nokkrum hundruðum m2 og upp í tvær þrjár dagsláttur. Ef þessar till. eru samþ., verður að setja inn ákvæði um stærð skógræktarsvæðis. Ég skal taka sem dæmi svæðið kringum Ferjukot. Er það skógræktarsvæði eða trjáræktarreitur? (Dómsmrh.: Því verður landbn. að svara.) Ekki landbn., því í hennar till. er miðað við skógræktarsvæði, sem skógræktarstjóri hefur umsjón með, en sé það honum óviðkomandi, er ákvörðunarvaldið í þessum efnum hjá viðkomandi hreppsnefnd eða bæjarstjórn. En ef þessi brtt. er samþ., þá verður að taka inn í frv. ákvæði um stærð, sem miðað sé við, og þá er hægt að fella burt úr b-lið orðið skógræktarsvæði, eins og lagt er til í 3. brtt. Annars geri ég ráð fyrir því, að n. óski þess, að málinu verði frestað.