08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2403)

103. mál, skógrækt

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eftir þær umræður, sem þetta frv. hefur farið í gegnum og eins og það liggur nú fyrir, sýnist mér, að breytingar, sem á því hafa verið gerðar í Nd., hafi ekki verið til bóta. Það eru einkum 2 atriði, sem ég hef komið auga á og mér sýnist heldur vera til að spilla frv. A-liður, 2. mgr., um úttektarmenn. 3. og 4. mgr. í sama lið eru einnig stórlega breyttar frá því, sem áður var. Nú er það að vísu svo, að frv. hefur nokkuð verið lagað frá því, sem það var verst, í Nd. Þetta var lagað með því að bæta við 3. mgr., en þetta ákvæði er lakara en það var, er það fór héðan úr hv. deild. — Ég vil spyrja hv. n., hvort Skógræktarfélag Íslands, sem mun vera sá aðili, er mest barðist fyrir því, að frv. þetta yrði að lögum, telur viðunandi að samþ. það í þeirri mynd, sem það er nú. Nú er verið að verða við ósk fyrrnefnds félags, og skiptir þá miklu máli, hvort það getur unað við þetta frv. Ég veit, að ef breytingarnar, sem gerðar hafa verið við 3. umr. málsins, ná fram að ganga, þá vilja ýmsir, sem næst standa frv., að það hljóti ekki samþykki. Ég vil því, að hv. n. íhugi málið og kynni sér, hvaða álit þeir aðilar, sem mest hafa barizt fyrir frv., hafi á því nú.

Þá vil ég líka benda á 4. mgr. í a-lið, að hún er þess eðlis, að þar er verið að setja á stofn nýjan dómstól, sem mér sýnist ekki að neinu leyti færari til að gegna sínu hlutverki, en hinir almennu dómstólar. Mér virðist, að ef það er ætlunin að láta úttektarmennina fá svo mikið vald sem raun ber vitni, þá verði a. m. k. að vera heimild til að skjóta málinu til yfirmatsmanna, og er fáheyrt, ef þessu mati má ekki áfrýja, eftir að búið er að víkka verksvið þessara manna, svo sem Nd. hefur gert. — Það er nauðsyn, að n. láti okkur heyra álit sitt á breyt. Nd. og álit Skógræktarfélags Íslands. Annars hef ég hugsað mér að bera fram brtt., en vil fyrst heyra álit nefndarinnar.