08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hafði hér framsögu í þessu máli, þegar það var tekið á dagskrá, og jafnvel þótt sú framsaga tækist ekki sem bezt að sumra dómi, þykir mér rétt að taka enn til máls. — Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh., 4. mgr. a-liðar í 1. gr. er ótæk og getur ekki gengið. Hér eiga matsmenn að dæma um, hverjir eru valdir að skaðanum, og síðan eiga þeir að dæma. Ef ágreiningur rís, er þetta auðvitað hreint dómstólamál. — Mér hefur dottið í hug að bera fram brtt. og hafa þennan málslið eins og hann var áður. Það er óvenjulegt, eins og hæstv. dómsmrh. gat um, að ekki skuli vera hægt að skjóta málinu undir yfirmat. Þó er þetta oft svo, t. d. um skemmdir á vörum. Þá eru menn kvaddir til að meta þær, án þess að nokkurt yfirmat komi til greina, og er þetta líkt og í sandgræðslulögunum. Um það atriði, sem hv. Nd. bætti inn viðvíkjandi snjóalögunum, held ég, að megi við hlíta, og hef ég ekki orðið var við annað en þeir, sem komu þessu máli á framfæri, uni sæmilega við það eins og það er nú, og ég held það hafi líka tekið bótum, en hér er nú viðstaddur varaformaður Skógræktarfélags Íslands, og getur hann sagt sitt álit á þessu. — Hér er ég með brtt., sem ég óska, að verði borin upp, og ég afhendi hana hæstv. forseta. Það má vera, að fleiri brtt. komi fram, enda stendur það þá til bóta.