08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1483 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

103. mál, skógrækt

Landbrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það er ljóst, að í hv. Nd. hefur þetta mál tekið breytingum, sem ekki hafa verið til bóta, og einkanlega, þegar á það er litið, að setja ætti upp sérstakan dómstól í landinu, sem skógareigendur mundu alveg vafalaust, sætta sig verr við en hina almennu dómstóla. Hér hefur nú komið fram brtt. um þetta frá hv. 11. landsk., og er hún borin fram í samráði við mig, og styð ég hana. — En um hitt ákvæðið er það að segja, að svo þykir sem bætt hafi verið úr því með því að skjóta inn í 3. málsgr. a-liðar: „Nú verða óvenjuleg snjóalög“ o. s. frv., og tel ég, að hér komi ekki til mála að sleppa fjáreigendum við þá ábyrgð, sem í umræddri grein segir vegna snjóalaganna. Í gömlum lögum frá 1881 er hliðstætt dæmi varðandi heystakka. Þar á fjáreigandi að tilkynna eiganda heystakksins, að hann sé í hættu fyrir ágangi fjárins. Það er alls ekki eigandi heystakksins, sem ber ábyrgðina. Eins ættu auðvitað ákvæðin að vera um fjáreiganda, sem á fé nálægt skógræktargirðingu. Ef hún bilar eða snjóalög verða þannig, að girðingin kemur ekki að gagni, ber fjáreiganda að tilkynna það girðingareiganda. Raunverulega ætti sama lögjöfnun að gilda um skóg og hey. Þetta vilja menn bara ekki líta á né skilja, að skógur er engu verðminni en hey. Þetta er hið sama og átti sér stað í Norður-Noregi. Þá var hlegið að þeim, sem voru að reyna að rækta skóg. En nú er þetta breytt, þegar hægt er að rækta þar nytjaskóga. — Auðvitað er sauðkindin rétthá, en það nær engri átt, að þeir, sem eru að reyna að rækta nytjaskóga, njóti einskis réttar. — Nú er talið að þessum ágöllum hafi verið rutt úr vegi með því að skjóta eftirfarandi inn í 3. mgr. a-liðar: „Nú verða óvenjuleg snjóalög, svo að hætta er á, að skógræktargirðingu fenni í kaf. Skal þá girðingareigandi eða eftirlitsmaður hans tilkynna fjáreigendum í nágrenni girðingarinnar hættu þá, er af þeim stafar, og ber þá þeim fjáreigendum í nágrenni girðingarinnar, er slíka viðvörun hafa fengið, að hafa gætur á fé sínu og halda því frá viðkomandi girðingu.“ Hér er reglunni alveg snúið við. Hér á skógareigandi að tilkynna fjáreiganda, að skógurinn sé í hættu. Það er vitað mál, að oft verða hríðar á vetrum og snjóa leggur þannig yfir girðingar, að þær verða gagnslausar, og hvernig á þá skógareigandi að vita um það? Á hann að senda eftir hverja hríð mann til að athuga, hvernig snjóinn hefur lagt? En hins vegar er auðvelt fyrir fjáreiganda að vita í hvert skipti, hvort viðkomandi girðing sé að gagni eða ekki. Hann fylgist með fé sínu í haga. — Það er óhjákvæmilegt, að n. taki til athugunar brtt. og reyni að lagfæra þetta. Ég vil ekki, að neitt ákvæði verði sett inn, sem verði ósanngjarnt fyrir fjáreigendur. — Það er athyglisvert, að frv. þetta var borið fram eftir að 70–80 fulltrúar í landinu, sem margir eru bændur, höfðu samþykkt það. Bændur töldu ákvæðin vel viðunandi eins og þau voru. Það er nauðsynlegt, að n. taki þetta til athugunar.