09.05.1950
Efri deild: 103. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

103. mál, skógrækt

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég get óskað hv. þm. Barð. til hamingju að vera búinn að fá svo röskan og duglegan handskrifara. Ég ætla ekki að fara að gagnrýna yfirboðara minn, en mér finnst, að hefði átt að nefna, hver tilnefndi yfirmatsmennina, en hér er ekkert um það. Mér finnst því að þessi till. sé alls ekki til bóta, og virðist, að eðlilegra hefði verið að skjóta gerð matsmannanna, ef þeir hefðu metið á rangan hátt, til dómstólanna, en ekki til yfirmatsmanna, sem ekkert er gefið um, hvaðan eigi að koma, ef til vill ofan úr skýjunum eða hver veit hvaðan. En réttast væri, að þeir væru kvaddir á sama hátt og undirmatsmennirnir. Ekkert er heldur um það sagt, hve margir þessir yfirmatsmenn eigi að vera, aðeins heimilað að krefjast yfirmats, en ekkert um það, hve margir þeir eigi að vera eða hver eigi að tilnefna þá. Mér finnst því, að hæstv. dómsmrh. hafi farið margt betur úr hendi en þetta, og get ég ekki fylgt till. hans.