20.01.1950
Neðri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. L. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir frá 1945 eru, eins og kunnugt er, eins konar heimildarlög, þar sem jarðræktarmönnum í sveitum og við sjó er gefinn kostur á því, ef þeir gangast undir ákveðnar reglur um jarðræktarframkvæmdir, að þeir fái helming þess kostnaðar, sem er við það að afla hinna stórvirku tækja, úr framkvæmdasjóði ríkisins. Hins vegar er framlagið að öðru leyti bundið við 3 millj. kr.

Það verður ekki með sanni sagt, að menn hafi tekið þessum l. með tómlæti, því að ekki var fyrr búið að samþ. l. en hafin voru samtök víðs vegar um landið þvert og endilangt að mynda þessi jarðræktarsambönd og koma á hjá sér löglegum samþykktum og afla sér þessara tækja, sem þurfti til að hefja framkvæmdir í stórum stíl. Og fjórum árum eftir að l. gengu í gildi, má segja, að öll sveitarfélög landsins hafi bundizt í þessi jarðræktarsambönd. Af 226 sveitahreppum eru nú aðeins 12, sem ekki hafa enn þá gerzt aðilar í slíkum samböndum.

L. gera ráð fyrir, að aðalreglan sé sú, að ræktunarsamböndin nái yfir heila sýslu. Hins vegar er gefin heimild til undanþágu, og hefur sú raun á orðið, að samböndin eru mjög misjafnlega stór. T. d. má nefna, að allir Vestfirðir, að undantekinni Strandasýslu, eru eitt og sama ræktunarsamband, með allmörgum undirdeildum þó, eða 13. Sama er að segja um Búnaðarsamband Austurlands, það er eitt og sama ræktunarsamband með 17 undirdeildum. Hins vegar eru tvær sýslur víða saman um eitt ræktunarsamband og ein sýsla á nokkrum stöðum. Hins vegar er það einnig til, að fleiri en eitt samband sé í sömu sýslu. Má þar m. a. nefna Rangárvallasýslu með 4 ræktunarsambönd og Árnessýslu með 5.

Nokkur þeirra sambanda, sem fyrst voru um að koma þessum málum í lag hjá sér, hafa nú fyrir nokkru eignazt meginhlutann af þeim verkfærum, sem talin eru nauðsynleg til þess að, að jarðrækt verði unnið á þann fullkomnasta hátt, eftir því sem tæki eru til, en það eru verkfæranefnd ríkisins og Búnaðarfél. Íslands, sem eiga að leggja dóm á, hvað hvert ræktunarsamband þurfi af vélum, til þess að þessi jarðrækt geti gengið með þeim hraða, sem að öðru leyti efni standa til. Vitanlega er þetta mjög misjafnt, eftir því hvað samböndin eru stór, eins og gefur að skilja, og er vélakosturinn miðaður við það. En hins vegar hefur mjög borið á því á undanförnum árum, að ræktunarsamböndin hafa ekki getað eignazt allar þær vélar og verkfæri, sem þau hafa óskað eftir og voru tilbúin að kaupa, og hefur þar strandað mest á gjaldeyri undanfarið, eins og kunnugt er. Í árslok 1948 höfðu verið fluttar inn og styrktar af framkvæmdasjóði til ræktunarsambandanna 18 vélar 30 hestafla, 17 vélar 35–50 hestafla og 4 vélar 50 hestafla og þar yfir, og 21 hjóladráttarvél. 1949 má segja, að þessi verkfærakaup hafi verið tvöfölduð. Þá hafa verið fluttar inn 11 vélar 30 hestafla, 35 vélar 35–50 hestafla og 6 yfir 50 hestafla, þannig að á þessu ári hefur verið bætt mikið úr þeim skorti, sem hefur verið á þessum ræktunarvélum. Hins vegar er það svo, að enn þá vantar allmikið á það, að nægilegur vélakostur sé fyrir hendi fyrir þau ræktunarsambönd, sem eru mynduð. 2 grg. frv. er birt bráðabirgðaáætlun um þetta, sem verkfæranefnd fól Pálma Einarssyni landnámsstjóra og Sigurði Kristjánssyni framkvæmdastjóra að gera um þann vélakost, sem vantar til þeirra ræktunarsambanda, sem eru nýstofnuð. Síðan þessi áætlun var gerð hefur verkfæranefnd farið yfir hana, og hefur hún breytt nokkuð innan þeirra liða, sem hér eru áætlaðir, en í heild lætur nærri því, sem verkfæranefnd hefur nýskeð komizt að, að vantaði til ræktunarsambandanna. Það eru nú um 5.793 jarðir, sem standa að þessum samböndum, eða eigendur þeirra og ábúendur og koma því nærri því 50 jarðir á hverja vélasamstæðu.

Nú er það svo, eins og ég sagði áðan, að í l. er að vísu gert ráð fyrir því, að þeim ræktunarsamböndum, sem komið er á og fá staðfestar samþykktir sínar, skuli séð fyrir helmingi þeirra véla, sem þau nauðsynlega þurfa til ræktunarinnar, en annars er það bundið við 3 millj. kr. Var sú upphæð tekin samkvæmt áætlun, sem gerð var af kunnugustu mönnum, áður en þessi starfsemi hófst. Nú hefur sýnt sig, að þessi upphæð hrekkur ekki til. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að vélar hafa hækkað mjög í verði, frá því að áætlunin var gerð og fyrstu samþykktirnar settar. Það lætur nærri, eins og nú er komið, að ýmsar vélar séu komnar upp í allt að því tvöfalt verð við það, sem þá var. Auk þess hefur sú breyting á orðið, að gert var ráð fyrir, að meira yrðu notaðar minni og ódýrari vélar við jarðyrkjuna, en reynslan hefur sýnt, að ræktunarsamböndin sækjast mest eftir stærri og dýrari vélunum og telja sér ávinning að því. Verður það til þess, að kostnaður við þetta hefur orðið nokkru meiri en við hefur verið búizt, en langmest munar þó um verðhækkunina, sem orðið hefur á síðustu árum á vélunum.

Þá er eitt enn, sem kemur til með að hækka þessa áætlun nokkuð. Það, sem hefur sparað ræktunarsamböndunum vélar og þar með styrk úr framkvæmdasjóði, er það, að ríkið hefur haft á sínum vegum allmargar skurðgröfur, sem það hefur átt sjálft. Af þeim ástæðum hefur ekki verið nauðsynlegt fyrir öll ræktunarsambönd að eignast skurðgröfur, því að þau hafa fengið þær hjá ríkinu. En eins og öllum, sem þekkja til ræktunar, er kunnugt um, þá verður undir flestum kringumstæðum framræslan að fara fram á undan ræktuninni. Það verður að byrja víðast á því að þurrka landið, og þar hafa skurðgröfur ríkisins bætt úr þessu þannig, að þær hafa verið að nokkru leyti til taks og getað gengið á undan ræktunarvélunum, og ræktunarsamböndin hafa þar af leiðandi ekki öll þurft að kaupa þessar vélar. Hins vegar hafa nú á síðari árum ríkið og Alþingi dregið að sér höndina um að verja fé til þess að kaupa þessar vélar, svo að síðari samböndin hafa orðið að kaupa þær sjálf, til þess að framræslan gæti komið á undan ræktuninni, eins og nauðsynlegt er. Nú sem stendur eru starfandi hér 44 stórvirkar gröfur. Af þeim á vélasjóður 29, en aðrir aðilar 15, og þar af eru 10 ræktunarsambönd, sem eiga gröfu, og nýbýlastjórn ríkisins á 3. En það er talið, að til þess að ræktunin geti haldið áfram með þeim hraða, sem nauðsynlegt er og bændur og búalið sækjast eftir að hrinda í framkvæmd, muni þurfa enn þá um 11 skurðgröfur. Af þeim er að vísu kominn helmingurinn nú eða vel það, en hann hefur ekki notið styrks enn þá, og þarf því vegna þeirra að bæta við þann styrk, sem nauðsynlegur er vegna jarðræktarinnar.

Ég skal geta þess í sambandi við skurðgröfurnar, að þeim hefur fjölgað nokkuð á síðari árum. Á árunum 1942–46 voru grafnir opnir skurðir samtals 344 km og að rými 1.371 þúsund teningsfermetrar. Árið 1948 nemur gröfturinn með skurðgröfum vélasjóðs 1.052 þús. rúmmetrum, og 1949 samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hefur verið grafið 1.635 þús. rúmmetrar. Á þessum síðustu átta árum hafa því verið grafnir hjá bændum 1.077 km, að rúmmáli 4.102 þús. rúmmetrar, og svarar það til þess, að það hefðu verið fullræstir með opnum skurðum 6.835 hektarar lands. En sem sagt, það er nauðsynlegt að fjölga þessum skurðgröfum nokkuð, og það verður að gera ráð fyrir, ef ræktunarsamböndin kaupa þær, að hækka verði styrkveitinguna sem nemur hálfu kaupverði þeirra.

Nú er svo komið, að um síðustu áramót var ekki eftir í framkvæmdasjóði ríkisins nema um ½ millj. króna óráðstöfuð, og er það því sýnilegt samkvæmt þeim áætlunum, sem hér liggja fyrir, að það mun þurfa til þess að vera öruggur um, að ekki strandi á styrknum til kaupanna, 2–2,5 millj. kr. enn þá. Er þar gert ráð fyrir þeirri hækkun á verði, sem er á þessum vélum. Eru líkur til, að hægt verði að segja, að þetta muni duga fyrir þann vélakost, sem nægi til þess, að öll ræktunarsambönd landsins fái þær vélar, sem þeim er talið nauðsynlegt til þess að geta komið ræktunarstarfi sínu í fullan gang.

Af þessum ástæðum er það, sem ég hef leyft mér að flytja þetta frv., og verð ég að segja, að það er að nokkru vegna þess, að hér hefur komið fram till., sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, frá Landsbanka Íslands, að það fé, sem framkvæmdasjóði ríkisins er ætlað samkvæmt l. um eignakönnun, því verði varið til afborgana á skuldum ríkisins. Það væri náttúrlega mjög gott að geta það. En ég vil minna á það með flutningi þessa frv., að það er óafsakanlegt að kippa að sér hendinni með löggjöfina og styrkveitingar samkvæmt löggjöfinni og skilja þá menn eftir, sem af ýmsum ástæðum, m. a. vegna gjaldeyriserfiðleika, hafa ekki enn getað notið þessarar aðstoðar, svo að þeir ekki aðeins verði að sætta sig við að kaupa miklu dýrari vélar en hafa fengizt áður, heldur einnig að vera sviptir þeim styrk, sem jarðræktarsambönd hafa hingað til notið.

Ég minntist á það í sambandi við l. um eignaraukaskatt, að gert er ráð fyrir, að helmingur af tekjunum renni í framkvæmdasjóð ríkisins, en hinn helmingurinn í aflasjóð. Nú veit ég ekki, — það getur verið, að hæstv. fjmrh. geti gefið upplýsingar um það, — hvaða líkur eru til, að þessar tekjur verði miklar. Einu sinni var gert ráð fyrir 10 millj. kr., og minna hygg ég það verði ekki. Ef það væri, þá þyrfti helming af þessu fé, sem samkvæmt l. ætti að renna í framkvæmdasjóð ríkisins, til að bæta við þessar 3 milljónir, sem áður var ákvarðað í þessu skyni. Tel ég rétt, að þetta komi þegar fram, áður en ráðagerðir um ráðstöfun á þessu væntanlega fé komast lengra til framkvæmda en nú er orðið.

Ég vildi svo óska þess að, að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og landbn., því að þessi mál hafa verið í þeirri n.