20.01.1950
Neðri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Í tilefni af því, að þetta frv. kom fram, þar sem farið er fram á, að goldið sé talsvert meira fé úr framkvæmdasjóði í þessu ákveðna skyni, en lög mæla fyrir nú, bað fjmrn. búnaðarmálarn. um upplýsingar um þessi efni. Ég hef bréf frá rn. um þetta. Virðist fram koma af bréfi þessu og öðrum bréfum, sem fram hafa farið milli rn. og verkfæranefndar ríkisins, að þetta mál sé ekki jafnvel undirbúið og skyldi. Það kemur fram í þessu bréfi, að rn. hefur ekki fengið þær upplýsingar, sem það hefur óskað eftir. Ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta, það sem rn. segir, ef það mætti verða þeirri n., sem málið mun fara til, nokkur leiðbeining. Að öðru leyti legg ég ekki dóm á nauðsyn þess að hækka framlag úr verkfærasjóði í þessu skyni, eins og hér er lagt til, heldur undirbúning málsins og það, sem lýtur að fjáröfluninni. — Í bréfi landbrn. segir svo :

„Í tilefni af frumvarpi rn. til laga um breytingu á lögum nr. 7 12. janúar 1945, um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, sem fram er komið á Alþingi, vill landbúnaðarráðuneytið upplýsa eftirfarandi:

Þann 19. júlí ritaði ráðuneytið verkfæranefnd sem hér segir:

„Eftir móttöku bréf verkfæranefndar, dags. 6. júlí þ. á., vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Ráðuneytið vill fela nefndinni að láta gera nú þegar, annars vegar fullt yfirlit yfir vélakost ræktunarsambandanna og styrkgreiðslur til þeirra, þann sem styrkur hefur verið greiddur til að kaupa, og um heildarþörf sambandanna, að því er varðar ræktunarvélar, bæði þeirra sambanda, er fengið hafa vélar, og hinna, sem ekki hafa fengið þær. Séu talin jöfnum höndum ræktunarsambönd, sem þegar hafa verið stofnuð, og sambönd, sem gera má ráð fyrir að verði stofnuð á næstunni.

Að fengnum þessum upplýsingum ætti að vera hægt að gera áætlun um, hversu langt fé það, sem fyrir hendi er í framkvæmdasjóði ríkisins, muni hrökkva til styrkgreiðslna og hve miklu muni þurfa við að bæta, til þess að endarnir nái saman.

Ráðuneytið getur hins vegar upplýst nú þegar, að ráðuneytið mun, er þar að kemur, beita sér fyrir því, að fé verði veitt til þess að staðið verði við eðlilegar skuldbindingar um styrk til ræktunarsambandanna til vélakauga samkvæmt lögum nr. 7 12. janúar 1945. Mun ráðuneytið bera fram tillögur um breyting á lögunum, ef með þarf, til þess að svo megi verða.

Loks skal tekið fram, að ráðuneytinu er ljóst, að verkfæranefnd hefur nú þegar mælt með svo miklum styrk til nokkurra ræktunarsambanda, að stinga verður við fótum um frekari styrkgreiðslur til þeirra fyrst um sinn.“

Þrátt fyrir munnlegar eftirgrennslanir bárust ráðuneytinu engin svör, og leið svo út árið 1949.

Þann 10. janúar þessa árs ritaði ráðuneytið nefndinni á ný um málið samkvæmt meðfylgjandi afriti.

Ekkert svar hefur enn borizt við þessu bréfi ráðuneytisins.

Af ofanrituðu er ljóst, að ráðuneytinu kom mjög á óvart, er hið umrædda frumvarp kom fram á Alþingi. Ráðuneytið hafði ætlað þessu máli allt aðra meðferð og fyllri undirbúning, sem sé að leggja hóflegar tillögur til úrbóta fyrir Alþingi, það er nú situr að störfum, í frumvarpsformi eða á annan hátt, er samkomulag hefði orðið um við fjármálaráðuneytið.

Sá miður heppilegi dráttur, sem orðinn er á því, á að öllu leyti rót sína að rekja til seinlætis verkfæranefndar um athugun og svör við málaleitun ráðuneytisins.

Er ljóst, hve ótilhlýðilegt er, að hið umrædda frumvarp skuli borið fram af manni, er á sæti í verkfæranefnd, áður en nefndin svarar ráðuneytinu, og að upplýsingar, sem ráðuneytið bað um fyrir 6 mánuðum, skuli vera til staðar sem uppistaða í greinargerð með frumvarpinu, þótt ráðuneytið geti ekki fengið þær í sínar hendur þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.

Þess skal getið, að reikningar þeir, er ráðuneytið ræðir um í niðurlagi bréfsins 10. janúar 1950 og sem upphaflega var beðið um með bréfi, dags. 28. febrúar 1948, bárust ráðuneytinu samdægurs, eða 10. þ. m.“

En þessir reikningar, sem rn. er að rukka um, eru reikningar vélasjóðs og verkfæranefndar fyrir undanfarin ár.

Þetta vil ég, að komi fram, um leið og málið fer til n. Samkvæmt l. er hér ekki um neitt beint gjald úr ríkissjóði að ræða, þar sem gert er ráð fyrir, að gjaldið sé tekið úr framkvæmdasjóði. En framkvæmdasjóður er því nær alveg févana, og þegar búið er að inna af hendi þær greiðslur, sem gert er ráð fyrir, þá er svo að segja ekkert fé eftir í framkvæmdasjóði. Um hina hlið málsins, sem hv. flm. ræddi um í flutningsræðu sinni, að fá tekjur af eignakönnunarskattinum, þar er því til að svara, að þessi skattur er ekki enn á lagður. Það er ekki hægt að segja með vissu, hver hann verður eða hvernig hann innheimtist. Það eru liðin 3 ár síðan samþ. var að leggja þennan skatt á, en l. hafa tekið svo langan tíma, að framkvæmdinni er ekki enn lokið, og á þessum tíma hafa orðið miklar breyt. á fjárhag manna í landinu, svo að ekki er hægt að segja, hvernig sá skattur innheimtist, þegar hann loks kemur til innheimtu. Á þessu vil ég vekja athygli, en ég legg engan dóm á þá þörf, sem þarna er til staðar um vélakaup.