20.01.1950
Neðri deild: 33. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Landbrh. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þegar l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum voru samþ. á Alþingi 1945 og ákveðið var að veita þrjár millj. króna til styrktar í þessu skyni, þá var gert ráð fyrir, að upphæðin yrði greidd í eitt skipti fyrir öll og skipt milli ræktunarsambandanna af verkfæranefnd og Búnaðarfélagi Íslands. Nú hefur komið í ljós, að þetta fé hefur ekki dugað, en sannleikurinn er sá, að ekki hefur verið farið eftir föstum reglum um úthlutunina, til þess að frekar mætti sjá fyrir endann á því, hve mikil þörfin í þessu sambandi yrði. Er nú svo komið, að mikil þörf er á auknu fjármagni til ræktunarsambandanna, en allt um það finnst mér það heldur óviðfelldið að kasta fram þessu frv. á bak við ráðuneytið. Það er að vísu aukaatriði og kemur ekki því við, hve fjárþörfin er mikil, en skemmtilegra hefði verið fyrir hv. flm. að tryggja framgang þessa frv. áður en hann fór úr ráðuneytinu, eins og hann hafði mörg tækifæri til. Hins vegar er skylt og eðlilegt, að Alþingi og ríkisstj. reyni að fá til þessara mála svo mikið fé sem unnt er. Annars óska ég þess, að hv. landbn. hafi um það samráð við mig og hæstv. fjmrh., hvað fært sé talið að leggja fram í sambandi við þetta frv.