24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., er gert ráð fyrir að hækka tillag úr framkvæmdasjóði til jarðræktar og húsagerðar í sveitum úr 3 millj. kr. í 5½ millj. kr. og í till. n. í 6 millj. kr. Í grg. er tekið fram, að nú sé ekki nema millj. kr. í framkvæmdasjóði, sem verja má í þessu skyni, og eins er þess getið, að samkv. l. um dýrtíðarráðstafanir frá 1947 eigi helmingur þeirra tekna, sem kunna að verða samkv. II. kafla þeirra laga (um eignaraukaskatt), að ganga til framkvæmdasjóðsins, en hinn helmingurinn á að ganga til afla- og hlutatryggingarsjóðs bátaútvegsins. Í grg. er sagt, að þetta muni nema um 10 millj. kr., svo að framkvæmdasjóðurinn mun eftir því fá um 5 millj., en sem kunnugt er, voru með gengislækkunarlögunum felld niður ákvæðin um eignaraukaskatt, svo að framkvæmdasjóðurinn fær ekki það fé, sem honum er þar ætlað. Mér skilst því, að ríkissjóður verði þarna að leggja fram allmargar millj., ef þetta verður samþ. Ég vil því beina því til hæstv. fjmrh., hvort fjárhag ríkisins sé þannig háttað, að hægt sé að leggja fram 3 eða 6 millj. í þessu skyni. Ráðh. verður að vaka yfir fé ríkissjóðs og gæta þess vel á slíkum tímum og nú eru, og á meðan ég sé ekki fjárhag ríkisins betur borgið en nú er, treysti ég mér ekki til að vera með þessu, þó að gott hefði verið að geta það, ef fé hefði verið til.