24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af athugasemdum þeim, sem hér hafa komið fram. Ég vil taka fram út af aths. hv. þm. Borgf. um, að hæpið væri að taka jarðræktarstyrkinn upp í vangreidd gjöld til fyrningarsjóðs, eins og segir í síðustu mgr. 2. brtt. landbn. En n. telur þetta eðlilega ráðstöfun. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að hér er um styrk að ræða, sem er persónuleg eign þess, er hann hlýtur, en eins er með fyrningargjaldið, að það er persónuleg skuld sama manns, svo að það er aðeins jöfnuður, að haldið er eftir af jarðræktarstyrknum, sem þessu nemur. Ég vona því, að hv. þm. Borgf. skilji, að hér er aðeins um jöfnuð að ræða, þar eð styrkurinn fer að langmestu leyti til manna, sem eru í jarðræktarsamböndum.

Varðandi það, sem hv. 8. landsk. tók fram, þá finnst mér það eðlileg aths. frá hans hlið, að honum finnst ógætilegt að samþ. þetta án þess að vita, hvort það verði samþ. í fjárl. Um það vil ég vísa til þess, sem ég sagði áðan, að n. mun beita sér fyrir því, að 1 millj. kr. verði tekin á þessa árs fjárl. í þessu skyni, og sama upphæð næstu tvö ár, en frv. hefur því aðeins gildi, að gerðar verði slíkar ráðstafanir í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Ég mun svo ekki ræða þetta frekar, en það, hvort menn greiða atkv. með eða móti þessum till. og frv., fer eftir því, hversu mikils þeir meta þá miklu nauðsyn, sem er á að halda áfram á þessari braut samkv. l. um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum. Það er hægt að halda áfram á ræktunarbrautinni í þeim héruðum, sem búin eru að fá sínar vélar, en verði þetta ekki samþ., eru hin héruðin, sem lítið eða ekkert eru búin að fá, sett á hakann. Ég vona því, að menn taki með velvilja á þessu og eins í sambandi við afgreiðslu fjárl., verði þetta samþ.