24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. A-Húnv., að lögin frá 1945 um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum eru þýðingarmikil fyrir ræktunarmál landsins. Þá var stigið stórfellt spor í málefnum landbúnaðarins, en raunar mun árangur þess þó ekki sjást fyrr en síðar. Þarna voru mörkuð tímamót í sögu ræktunarmálanna á Íslandi. Með innflutningi skurðgrafanna til landsins var hægt að byrja á því að þurrka upp mýrarnar í landinu. Unnið hefur verið af kappi að því verki, og hefur það gengið sæmilega, en auðvitað hafa þar orðið mistök. Þessi lög lögðu ríkisvaldinu þungar skyldur á herðar. Þar var ákveðið, hversu mikinn vélakost þyrfti í hvert ræktunarsamband til að koma ræktunarmálunum þar í gott horf. Þess vegna tók ríkissjóður það á sig að greiða helming kaupverðs þessara véla í eitt skipti fyrir öll. Nú vitum við, að síðan þessi ræktunarsambönd voru stofnuð, hafa allir hreppar komizt í þau, nema 1 eða 2, og að það er búið að kaupa mikið af vélum, en í sum ræktunarsamböndin vantar mikið, og til eru þau ræktunarsambönd, sem engar vélar hafa fengið. Og nú virðist eiga að skilja þau sambönd algerlega eftir, sem ekkert hafa fengið. Ríkissjóður ætlar að víkja sér undan þeirri skyldu, sem ríkið tókst á hendur um að greiða helming andvirðis vélanna. Mér virðist þetta ómögulegt og álít, að ríkið eigi að standa við þessar skuldbindingar hér eftir sem hingað til. Því held ég, að þetta frv. eigi fullan rétt á sér. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að sveitir, sem hafa pantað vélar fyrir löngu á þeim grundvelli, að ríkið greiddi helming þeirra, verði nú sviknar um þetta. Það er nóg, að þau ræktunarsambönd, sem seinni hafa orðið, verði að greiða þá hækkun, sem stafar af gengislækkuninni. — Það var greinilega og traustlega gengið frá þessari löggjöf. M. a. átti að leggja til hliðar fyrningargjöld til þess að endurnýja vélarnar. Það var ákveðið 16% af kaupverði vélanna. Þetta fyrningargjald átti að vera á vöxtum í Búnaðarbankanum. Þessi sambönd áttu þá að geta keypt nýjar vélar í stað hinna gömlu, er gengu úr sér. Og ég er ekki í vafa um, að það var mikil nauðsyn á að ná fé á þennan hátt í svona framkvæmdasjóð.

Þetta mál hefur verið athugað rækilega í ríkisstj., og ég tel sjálfsagt, að það eigi að leggja fram á fjárlögum upphæð til þess að standa straum af vélakaupum ræktunarsambandanna. Auðvitað ætti þessi kostnaður að dreifast á nokkur ár. Ríkisstj. verður að skilja, að hér er um sjálfsagða kvöð að ræða, að láta öll ræktunarsambönd njóta jafnréttis, auðvitað jafnt þau, sem þegar hafa fengið vélarnar, og hin, sem eiga eftir að fá þær. Ég vil leyfa mér að taka það fram, að ég hygg það ekki vera í andstöðu við ríkisstj., að þetta frv. megi ná fram að ganga.

Þá vil ég einnig taka fram út af ummælum hv. þm. Borgf. um 2. brtt. á þskj. 536, þar sem Búnaðarfélaginu er heimilað að halda eftir af jarðræktarstyrknum upp í fyrningargjöld, sem vangreidd kunna að vera, að mér finnst þetta ákvæði ekki óeðlilegt, og hef ég talsverða reynslu í þessum málum. Að vísu hafa mörg ræktunarsambönd greitt inn í sinn fyrningarsjóð samvizkusamlega, en hjá öðrum samböndum, og ég ætla sumum þeim stærstu og fjársterkustu, hefur gengið illa að innheimta fyrningargjaldið. Ég tel mikið öryggi fyrir Búnaðarfélag Íslands að fá heimild til þessa, og ég get varla búizt við því, að hv. Alþingi haldi áfram að veita fé til vélakaupa, nema trygging sé fyrir því, að innheimt sé í fyrningarsjóðinn til þess að hægt sé að endurnýja vélarnar. Því að ríkið leggur ekki nema einu sinni út þessa fjárupphæð til þess að koma upp vélakostinum.

Ég vil taka það fram, að ég held, að það sé ábyggilega í lögum, að stjórn hvers ræktunarsambands geti heimtað styrkinn afhentan sér, en ekki má afhenda hann formönnum stjórnanna. Með þessu er styrkurinn gerður félagslegur og nýtanlegur fyrir heildina. Það er rétt hjá hv. þm. Borgf., að jarðræktarstyrkurinn er persónuleg eign þess manns, sem skráður er fyrir honum. Þessi stjórn verður svo að skila honum í réttar hendur. Ég segi, að það sé ekki óeðlilegt, þótt þetta ákvæði sé sett inn vegna þeirrar reynslu, sem af þessu er fengin, því að hún gerir það fullkomlega réttlætanlegt.

Þá mun ég ekki hafa fleiri orð um þetta, en mig langaði aðeins til að skjóta þessu fram. Þetta eru ein þýðingarmeiri lög, sem hér eru í gildi. Og ég er ekki í neinum vafa um, að eftir einn eða tvo áratugi mun sjást greinilega, hversu miklu þessi lög hafa áorkað.