28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýndist hæstv. fjmrh. viðstaddur. Hann er e. t. v. genginn út aftur. Mig langaði til að beina til hans fsp. eða ítreka það, sem áður hefur komið fram í umr. Það er gengið út frá því — já, nú kemur hæstv. fjmrh., — mig langaði til að beina fsp. til hans í sambandi við þetta mál, að hækka allmikið fjárframlög úr ríkissjóði, eða upp í 6 millj. kr., til þess, er þarna þarf að framkvæma. Nú er það svo um allmörg l., sem samþ. hafa verið á Alþ. eða sett og nauðsynleg eru eins og þetta frv., að það hafa verið felldar niður framkvæmdir l., sem sett hafa verið um svipað leyti og l., sökum þess að valdhafarnir hafa álitið, að eigi væri nægilegt fé fyrir hendi. Þannig hefur það t. d. verið um l. um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, sem í gildi eru. Framkvæmd þeirra hefur verið felld niður, vegna þess að fé hefur eigi verið til hennar veitt á fjárl. Nú er í rauninni eðlilegt, þegar barátta stendur um það, hvort ríkissjóður geti staðið undir framkvæmdum vegna endurbótalöggjafar þeirrar, sem sett var 1945 og 1946, að þetta allt sé athugað samhliða. Það er eigi rétt eða sanngjarnt að ákveða að öllu leyti framkvæmd einstakra l. af þessari löggjöf, án þess að annarra l. sé gætt. Ég skal ekki draga úr þörf stórvirkra vinnutækja handa sveitunum. Ég býst við, að þeim, sem samþykktu gengislækkunarl., hafi verið ljós sú þörf. Ég vil hins vegar, um leið og Alþ. á að bæta við millj. kr. til þessara framkvæmda, minna á, að það er ekki nema eðlilegt, að kröfur um aðrar framkvæmdir komi á eftir. Það er ekki nema eðlilegt, þegar Alþ. sér sér fært að verða við eðlilegum kröfum bænda, sem beðið hafa þungar búsifjar vegna gengislækkunarl., og tekur tillit til þeirra, að þá fari þeir, sem eru sérstaklega fulltrúar alþýðunnar í kaupstöðunum, fram á, að þá verði einnig tekið tillit til hennar. Hver samþykkt slíks máls er í rauninni siðferðisleg skuldbinding um að verða við svipuðum kröfum á eftir um framkvæmd annarra l., sem þarfleg eru.

Þá er hitt atriðið: Ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. fjmrh., hvort það sé ekki rangt, að ríkissjóður standi eigi undir þessum samþykktum. Mér þykir ólíklegt, að slíkar till. séu gerðar öðruvísi, en í samráði við hæstv. ríkisstj., og menn hljóta að ganga út frá því, að eigi verði vandkvæði á nokkrum útgjöldum til viðbótar, þegar gömlu tekjustofnarnir hafa verið felldir burt. Það er hins vegar eigi óeðlilegt, að þd. fái það upplýst frá hæstv. fjmrh., þegar slíkt er samþ., hvort ríkissjóði muni kleift að standa undir þessu. Með þeirri stefnu, sem nú er ríkjandi í atvinnupólitík hæstv. ríkisstj., eigi hvað sízt varðandi útflutningsmálin, þá virðist frá mínum bæjardyrum séð ákaflega tæpt að treysta á þann innflutning allan, sem ríkissjóður reiknar með, að hann fái tekjur sínar af, treysta því, að hann haldist og tekjurnar hagnýttar, vegna þess að útflutningurinn mun eigi standa undir honum. Ég held, að hv. þingmönnum sé það ljóst, að til þess að tekjur ríkissjóðs standist, þarf innflutningsáætlunin að standast, og til þess að hún fái staðizt, þá þarf útflutningurinn að standa í fullum blóma. Nú er hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. kunnast um útlitið í þessum efnum, hvort ríkissjóður fái staðið undir hinum auknu útgjöldum sínum, án þess að dregið verði úr bráðnauðsynlegum útgjöldum eða neitað um önnur útgjöld, t. d. til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Ég vildi fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. fjmrh. og getu ríkissjóðs í þeim efnum, — því að þætti óhægt að taka slík útgjöld á fjárl., þá er eigi fjarri lagi, þegar um svo nauðsynlegar framkvæmdir er að ræða, að skapaður verði sérstakur tekjustofn til að standa undir þessu. Ég hef fyrr bent á í sambandi við fjáröflunarleiðirnar, að óhjákvæmilegt verði, ef eigi á að brjóta á bak gjaldþol alþýðunnar, að ganga á hagsmuni verzlunarstéttarinnar í Reykjavík og taka t. d. undir ríkið einhvern hluta af þeirri verzlun og gera einstaklingsgróðann að tekjulind fyrir ríkissjóð. Svo fremi að í ljós kæmi, að óvarlegt væri að ákveða, að tekjurnar stæðu undir framlögunum, þá er nærri lagi að skapa sérstaka tekjustofna, já, taka liði af innflutningsáætluninni og ákveða vörur, sem ríkið tæki í einkasölu, til þess að láta þær tekjur standa undir slíkum hlutum, — og það er tvímælalaust hægt. Ég held, að eigi sé fært að standa undir réttmætum kröfum bænda og alþýðunnar í bæjunum, án þess að gengið sé á hagsmuni verzlunarstéttarinnar og útrýmt möguleikum á gróða hennar.

Ég vildi aðeins koma fram með þetta, vegna þess að tekjuöflun sú, sem gengið er út frá, hefur eigi verið rædd og við engar upplýsingar fengið um, hvernig hún sé hugsuð.