28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. — Hann hefur sagt, að óvíst sé, hversu mikið fé verður greitt, því að hér sé um eins konar hámarksramma að ræða. Ég er einn af þeim, sem hafa mælt með, að þetta verði samþ., því að búið er með l. að veita aðstoð til þessara hluta. Það er ástæðulaust að fara að stöðva þetta núna, því að þá verður hluti manna út undan. Ég þori og að fullyrða, að sé ákveðið, að l. komi að gagni, þá sé hið minnsta, sem hægt sé að greiða, 1 millj. kr. á ári næstu þrjú ár. Hins vegar vil ég benda á þá staðreynd, að núna er Alþ. í vandræðum með þessa fjárhæð, því að í gengislækkunarl. hefur eignaraukaskatturinn verið felldur niður, en hann var ákveðinn með l. frá 1947, og var ákveðið, að hann gengi að hálfu leyti til framkvæmdasjóðs ríkisins. Þriggja flokka stj. fyrrverandi sveikst um innheimtu þessa skatts, og núv. hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að fella hann niður. Því komu nú vöflur á hæstv. fjmrh., og hann virðist feiminn við að segja, að þörf sé á þessari miklu fjárhæð, segir, að allt sé óvíst og hér sé verið að skapa hámarksramma.