28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég er ekki að öllu leyti ánægður með svar hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni. Það er alveg augljóst mál, að meðan svo er ástatt með gjaldeyrinn, að gjaldeyrisyfirvöldin vilja ekki veita gjaldeyri fyrir nema helmingi þeirra varahluta, sem verkfærakaupasjóður telur þurfa til þess að hafa þær skurðgröfur, sem nú eru til í landinu, í standi, þá er ekki hagsýni í því að gera ráð fyrir auknum innflutningi á skurðgröfum, því að vitanlega verður fyrst og fremst að nota þær vélar, sem eru komnar inn í landið. Innflutningur á nýjum vélum er ákaflega óhagkvæmur, að mínu viti, ef gjaldeyrisástandið er þannig, að ekki er hægt að hafa þær vélar í gangi, sem þegar er búið að flytja inn, vegna þess að það vanti varahluti, sem kosta nokkur hundruð krónur. Það munu vera nú 28 skurðgröfur til í landinu (BÁ: Þær eru fleiri en það.) — á vegum vélakaupasjóðs. Og mér er kunnugt um það, að vélakaupasjóður taldi sig m. a. þurfa frá Ameríku, ef ég man rétt, varahluti fyrir þær vélar fyrir um 80 þús. kr., með gamla genginu, en hann fékk 50 þús. kr. leyfi og það þrátt fyrir það, þó að þessir varahlutir eigi að greiðast með Marshallfé. Mér er líka kunnugt um það, að umsókn vélakaupasjóðs um varahluti frá Bretlandi var skorin niður um helming eða rúmlega það. Og þar sem hér mun ekki vera um að ræða, til þess að halda mörgum vélum í gangi, meira fé en sem svarar andvirði tveggja skurðgrafa, þá sýnist lítið vit vera í að ætla að verja stórfé úr ríkissjóði til innflutnings á nýjum skurðgröfum, meðan ekki er hægt að gera ráð fyrir, að þær, sem þegar eru komnar inn í landið, komi að fullum notum. Ég spurði hæstv. fjmrh. um, hvort hann teldi innflutningsáætlunina leyfa, að fluttar væru inn margar nýjar skurðgröfur, meðan ekki er hægt að flytja inn varahluti til þess að þær, sem þegar eru komnar til landsins, gætu starfað. Ég hef ekki fengið svar við þessu, en hæstv. fjmrh. svarar því kannske til, að hann sé ekki viðskmrh., og þá hefur maður kannske hans svar.