11.05.1950
Efri deild: 104. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þó að þunnskipað sé í d., eftir umr. í dag, vil ég þó ekki, að þetta mál fari til 3. umr. án þess að ég segi nokkur orð.

Ég er á móti frv. eins og það liggur fyrir. Það er ljóst, að verkefni fyrir aukinn vélakost eru aðkallandi í sambandi við annan aðalatvinnuveg okkar. En það er líka ljóst, að svo mörg fyrirmæli eru í l. um að greiða millj. kr. til þess fyrirtækis eða hins, að spyrna verður við fótum. Við, sem vinnum að afgreiðslu fjárl. árlega, þekkjum allar þær kröfur, sem ríkissjóði berast, ekki bara umsóknir, heldur kröfur um að uppfylla þau fyrirmæli, sem Alþ. hefur gefið. Mér finnst hv. 1. þm. N-M. ekki 1angminnugur. Hann hefur áður lýst því yfir, að hann vildi ekki lofa meiru, en staðið yrði við, nú gerist hann hins vegar talsmaður þess, að farið sé inn á þá braut að auka brigðmæli alþm. Á ríkissjóði hvíla stórkostlegar kröfur vegna verkamannabústaða, sjúkrahúsa, hafnarbóta og mannvirkja, skólamála og annars. Þetta er afleiðing af bjartsýni undanfarinna ára og af því kapphlaupi, sem hver og einn hefur háð til þess að tryggja sér sem mest. Bikarinn er þegar fullur. Ég get ekki um það dæmt, hvort þetta eigi að hafa framgang fremur en annað. Það er vitað, að mikil þörf er á því að hlúa að landbúnaðinum, svo að unnið verði á véltæku landi. En í öðrum atvinnuvegum er einnig þörf fyrir stórkostlegar umbætur, ef þeir eiga ekki að leggjast niður. Í landinu eru líka þúsundir örkumla manna, sem gætu framfleytt sér án þess að vera öðrum byrði, ef vinnustöðvum væri komið upp, þar sem þeir gætu unnið eins og kraftar og líf þola. Reynslan á Reykjalundi hefur sýnt það. Það eru því ótal verkefni, sem eiga eins mikinn rétt á sér. Mér finnst líka rétt að minna á það, að ríkisstj., undir forustu búnaðarmálastjóra, hefur sett sér það takmark að minnka fjárfestingu og innflutning. Fyrirmæli 1. gr. koma því í bága við stefnu stj. Annars er það táknrænt, að hv. frsm. minntist varla á aðalefni frv., en það er hækkun á framlagi ríkissjóðs um helming.

Ég vil leyfa mér að bera fram rökst. dagskrá, er ég óska, að hæstv. forseti beri upp. Hún er svo hljóðandi:

„Með því að vitað er, að ríkissjóður á þess engan kost sem stendur að greiða af árstekjum sínum framlög til margvíslega framkvæmda samkvæmt gildandi lagaákvæðum, þykir ekki rétt að samþykkja frumvarp það, sem hér um ræðir, og í trausti þess, að ríkisstjórnin láti fara fram athugun á því, hvaða lögbundnar greiðslur eru mest aðkallandi og á hvern hátt unnt er að inna þær af hendi, og leggi niðurstöður þessar til athugunar fyrir næsta Alþingi ásamt tillögum um, hvaða greiðslur skuli hafa forgang, á meðan ekki er unnt að inna þær allar af hendi svo sem lög mæla fyrir um, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég álit þetta einu sjálfsögðu og þinglegu leiðina. Þegar búið er að hlaða á ríkissjóð skyldum, eins og raun ber vitni um, þá á ekki að knýja fram útlát án tillits til þess, hvort hægt er að greiða þau útgjöld, sem áður hafa verið samþ. Ég vildi óska þess, að hæstv. forseti frestaði atkvgr., þar til dagskráin hefur verið prentuð, svo að þm. geti kynnt sér hana.