20.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég mótmæli því, að fulltrúar bænda hér í Reykjavík hafi ráðið nokkru um það, hvernig styrkurinn hefur verið veittur. Ræktunarsamböndin hafa verið mynduð á fundum bænda, og þeir hafa sent ríkisstj. samþykktir sínar. 1941 var myndað ræktunarsamband í Barðastrandarsýslu. Þau hafa sjálf getað náð í lögin, án þess að nokkur fulltrúi hér í Reykjavík hafi sent þeim þau. Ræktunarsamböndin sjálf hafa verið að myndast allt fram á þennan dag, og ég held hið síðasta nú á Austfjörðum á árinu 1950. — Annars vil ég víkja að styrknum, og eftir því sem mér hefur skilizt, þá á afstaða mín að vera fjandsamleg sjávarútveginum, af því að ég vil, að bændur hljóti þann styrk, sem þeim hefur verið lofað. Ég tel, að skipta megi öllum styrkveitingum í þrennt:

1) Framtíðarverðmæti. Það er sá styrkur, sem skapar framtíðarverðmæti, sem öll þjóðin mun njóta síðar, en nútíðin og sá, sem framkvæmir umbæturnar, nýtur takmarkað. Styrkveitingar í þessu skyni eru alltaf réttmætar. Hér undir heyrir t. d. ræktun landsins.

2) Nútíðarstyrkir. Það eru styrkir, sem veittir eru mönnum til þess að auðvelda þeim að selja framleiðslu sína til sjós og lands og koma þjóðinni aðeins að notum þá stundina. Álíka styrkir og hv. 4. þm. Reykv. var að tala hér um áðan. Styrkveitingar í þessu skyni eru oft vafasamar, en geta þó stundum verið réttlætanlegar.

3) Eyðslustyrkir. Það eru styrkir, sem veittir eru til einhvers einstaklings til að lifa af. Þeir eru sjaldan réttlætanlegir. Þeir hjálpa þjóðinni ekki, en taka stundum þann, er nýtur, úr vinnu við framleiðslu og þjóðnýt störf. Nú síðast í vetur voru t. d. veittar 200–300 þús. kr. til þess að athuga, hvernig hægast mundi vera að ná í síldartorfur — sem sagt, hvernig hægast mundi vera að uppræta síldina. Alveg hið sama er að segja um dragnótaveiðina innan landhelginnar. Skipin eru tekin í landhelgi og sektuð, en síðan er sektin gefin eftir og verður þá að verðlaunum til lögbrjóta fyrir að spilla framtíðarveiði þeirra, er lifa af sjósókn og heiðarlegum veiðum. Styrki til þessa á ekki að veita. Ef hægt væri t. d. að tryggja það, að synir Gísla Jónssonar gætu aflað meira á sínum togurum en nú er gert, þá skyldi ég fúslega vilja leggja þar til stórfé. En að gera allt til þess, að synir Gísla Jónssonar afli minna á sínum togurum, en hann þó hefur gert og veita styrk til þess, — með því er ég ekki.

Hv. þm. Barð. heldur, að sín till. mundi ekki skemma neitt fyrir bændum. Hún þýðir bókstaflega það, að þeir, sem eru nú að fá vélarnar, hljóta engan styrk. Og að ætla sér að láta þá ekki fá neinn styrk, nær engri átt fyrst aðrir hafa fengið hann. — Ég veit, að hv. þm. Barð. vill ekki, að ræktunarsambönd sem enn hafa ekki fengið neinar vélar, fái engan styrk. En þetta hefur einhvern veginn gripið hv. þm., að hann ætti endilega að bera fram rökstudda dagskrá og verður nú að fylgja henni. Ég veit, að hv. þm. vill, að styrkur sé veittur þeim jafnt, sem síðastir voru og fyrstir.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það, að oft hefðu verið veittir styrkir til landbúnaðarins, en framleiðsla hans hefði ekki verið að sama skapi ódýrari. Þetta er nú ekki rétt. Fyrir um það bil 20 árum, eða 1930, þá unnu að landbúnaðarframleiðslu 42% þjóðarinnar, en nú tæpl. 1/3 hluti. Samt er framleitt nálega sama kjötmagn og fyrir 20 árum, og mjólkurframleiðslan er um 1/3 hluta meiri. (GJ: Og allt með hækkuðu verði.) Ég geri ráð fyrir, að ef ekki hefði orðið breyting á búnaðarháttum, þá væri landbúnaðarframleiðslan lítil, en dýr. Það er ekki auðvelt að reikna þetta út, en ég geri ráð fyrir, að við mundum sjá gróflega mikinn mun á því, ef tekið væri upp gamla lagið á landbúnaðinum. Þá mundi varan verða með því verði, að enginn gæti keypt. Þessar umbætur hafa raunar gengið hægara, en æskilegt væri. En ég er þess fullviss, að þetta hefur verið til þess, að enn er hægt að framleiða og selja á Íslandi landbúnaðarvörur.

Þá sný ég mér að ræktunarsamböndunum. 1946 voru mynduð 14, 1947 19, 1948 11 og 1949 það, sem eftir var. Þetta hefur nú ekki gengið hraðara, og er það mjög eðlilegt. En því grátlegra er það, að þessi 15 sambönd, sem þegar hafa fengið styrk, fá sínar vélar líka á gamla verðinu, en svo eiga hin ræktunarsamböndin engan styrk að fá og þar að auki kaupa vélarnar þriðjungi hærra verði. Nei, það verður að láta styrkinn ganga jafnt yfir öll samböndin.