15.05.1950
Neðri deild: 101. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

171. mál, lánveitingar og lántaka vegna Sogs- og Laxárvirkjana

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég hef ekki átt kost á að ræða um þetta mál við bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar, þar sem þessu frv. er fyrst útbýtt á þinginu í dag. Ég geri þó frekar ráð fyrir því, að bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar hefði fremur kosið, að ákvæðið um lánveitinguna hefði verið sett inn án þess skilyrðis, að samningar um sameign og framkvæmd Laxárvirkjunarinnar skyldu vera gerðir á sama grundvelli og samningar hafa verið gerðir á milli ríkisins og Reykjavíkurbæjar viðkomandi viðbótarvirkjun Sogsins. En ekki er ástæða til að ræða frekar um það nú. En ég tek fram, að allir Akureyringar gera sér ljóst, að stækkun Laxárvirkjunarinnar verður aldrei framkvæmd nema með aðstoð og stuðningi ríkisvaldsins.