15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

175. mál, Laxárvirkjunin

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég er dálítið undrandi yfir því, að inn á Alþ. skuli koma á síðustu stundu svona mál. Hér er um að ræða hækkun úr 22 millj. kr. og upp í 38 millj. kr. Og mér finnst, að svona mál eigi að fá fullkomlega þinglega meðferð, ganga gegnum n. og gefa út um það venjulegt nál. En nú er þetta borið fram af n., sem venjulega hefur ekki haft með þessi mál að gera, því að raforkumál hafa heyrt undir iðnn. Ég mun ekki gera það að till. minni, að málið verði látið ganga til iðnn., því að það væri sama og að drepa það, en það væri eðlilegast, að þeir aðilar, sem um slík mál hafa fjallað, fengju eitthvað um þau mál að segja hér í hv. d. Ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það sé orðið um þetta samkomulag, þá gerir ekkert til, þó að málið fari aths. lítið í gegnum þingið að öðru leyti. En mér finnst óviðkunnanlegt, að mál, sem skipta tugum milljóna, fái þá meðferð, sem ætlazt er til að þetta mál fái, og mér finnst það skylda gagnvart Alþ. að láta þau mál fá aðra og meiri athugun, en hægt er að gera á þessu máli síðustu nótt þingsins.