09.02.1950
Efri deild: 51. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki ræða efnislega um frv. sjálft eða nauðsyn þess, að þessi fríðindi séu gefin til þess að koma áfram þessum málum. En í sambandi við það að fara inn á þessa braut vil ég leyfa mér að gera hér brtt. við frv. og leggja hana fram hér, svo hljóðandi:

„Við 1. gr. a. Aftan við gr. bætist nýr stafliður, svo hljóðandi: i. Gjafir til Sambands íslenzkra berklasjúklinga. b. Í stað orðanna „kemur nýr stafliður“ í 1. málsgr. 1. gr. komi: koma tveir nýir stafliðir.“

Það leikur ekki á tveim tungum, að sú starfsemi í landinu, sem hér um ræðir í brtt., er einhver sú merkasta starfsemi, sem rekin er. Það grettistak, sem þessi félagsskapur hefur lyft á undanförnum árum, er svo einstætt í sinni röð, ekki aðeins fyrir það að hafa komið upp myndarlegum byggingum, heldur og í öllu skipulaginu á rekstrinum á fyrirtækinu., að það er til fyrirmyndar fyrir allan annan sjúkrahúsrekstur í landinu. Það er vitanlegt, að reksturinn sjálfur hefur gefið arð — að undanteknu einu ári — og alveg sérstaklega hefur þessi góða niðurstaða fengizt vegna þess, hversu þetta hefur verið vel skipulagt. Það eru nú um 80 rúm til í vinnuhælinu. En hins vegar er einnig vitanlegt, að félagsskap þennan vantar enn töluvert fé til þess að standa undir byggingarkostnaði. Á þessu ári hefur m. a. hæstv. ráðuneyti séð nauðsyn á því að lækka framlagið til þessa fyrirtækis um 200 þús. kr., sem torveldar að sjálfsögðu þessum félagsskap nokkuð áframhaldandi byggingar. Hins vegar eru fjöldamargir menn í landinu. sem vilja styrkja þennan félagsskap með gjöfum. — Og ég tel, að sjálfsagt sé, úr því að farið er að fara inn á þessa braut, sem í frv. er gert ráð fyrir, að láta þetta. sem í brtt. getur. verða fyrsta málið, sem fær aðgang að þessum fríðindum.

Ef hv. fjhn. óskar eftir að ræða efni brtt. nánar á fundi, er ég fús til að taka brtt. aftur til 3. umr. og fylgja frv. fram við þessa umr. óbreyttu, ef það er ósk hv. frsm. n. En annars mun ég ekki sjá mér fært að fylgja þessu frv., nema mín brtt. sé tekin til greina.