09.02.1950
Efri deild: 51. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2555)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mér finnst þessi brtt. koma eins og andskotinn úr sauðarleggnum — ekki að ég sé að meina, að það sé neinn sauðarleggur, sem sendir hana. (Dómsmrh.: Er þetta þinglegt orðbragð?). Þetta er gamalt orðtak, og maður hefur jafnvel heyrt ganga fram af munni hæstv. ráðh. ekki betra orðbragð en þetta. Og ég bíð, þangað til hæstv. forseti hringir.

En fyrst hæstv. ráðherra fór hér sérstaklega að spyrjast fyrir um þetta, þá ætla ég að segja það — ja, fyrst ætla ég að halda kurteisisreglum og ætla þá sérstaklega að óska hæstv. dómsmrh. til hamingju með þetta nýja pólitíska tilhugalíf, sem mér sýnist vera að byrja í deildinni milli hans og hv. 1. þm. N-M., því að það hefur komið hvað eftir annað fyrir, að svo lítur út sem ekki sé ráðið ráð, nema sá hv. þm. hafi forgönguna. — En svo maður sé ekki að teygja lopann um þá hluti, þá er því að svara, ef maður ber saman frv. á þskj. 86 við það, sem hér liggur fyrir, þá er þar um allt annað mál að ræða. Hér í þessu frv., sem fyrir liggur, er ekki um nema svo lága upphæð að ræða, vegna þess að það er ekki nema einstaka maður sem ræðst í þessa ræktun. En ef liðurinn í brtt. hv. þm. Barð. væri látinn ná fram að ganga, þá getur það tekið til margra skattgreiðenda í landinu, sem þá geta losnað við að greiða skatt í ríkissjóðinn, en gætu þá látið gjaldið renna til þessa fyrirtækis í Reykjalundi, sem er vitanlega prýðilegt fyrirtæki. En ef þannig á að fara með skattgreiðslur í landinu, þá verða ekki fullar hendur fjár, held ég, á næstunni fyrir hv. form. fjvn. til að skammta úr aski handa okkur hinum.

En viðkomandi frv. á þskj. 86 er það að segja, að það er um efni, sem er að miklu leyti óskylt efni þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr. En ég mun ekki á þessu stigi málsins fara að karpa um þetta. Það er hv. form. n., sem hefur ráðið þessum vinnubrögðum. Og við höfum alls ekki sofið á þessu máli, heldur hefur n. sent það til umsagnar, þetta 61. mál.

En ég vil skora á hv. flm. þessarar brtt., þm. Barð., að taka brtt. aftur til 3. umr. Og þá geri ég ráð fyrir, að hv. form. fjhn. athugi málið og n. í heild fyrir 3. umr. Og eins geri ég ráð fyrir, að sé með hitt málið, sem n. getur tekið til athugunar líka, hvort henni sýnist ráð að hafa það samferða þessu máli eða ekki.