28.04.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er nú farið að styttast þetta þing, og skal ég þá einnig vera stuttorður. Ég býst ekki við, að það verði langur tími til fundarhalda úr þessu í hv. deild. Ef þetta frv. á fram að ganga á þessu þingi, verður því að hafa hraðann á, og vil ég taka það fram, að þeir alþingismenn og konur, sem með þessu frv. eru, verða að sjá, að það þýðir ekki að senda frv. með þessum aukabútum áfram, því að þá dagar það uppi. Því heiti ég á þá menn og konur, sem áhuga hafa á skógrækt, að þau dragi til baka smábrtt:, því að annars er málinu dauðinn vís. Ég vil taka það fram, að ég hef engan sérstakan áhuga á þessu, en þetta er gott mál, og vil ég gefa þeim mönnum, sem áhuga hafa á að klæða landið skógi, kost á að verja fé sínu í það og að þeir fái viðurkenningu fyrir það með afslætti á skatti: í 6 ár, en þó aldrei meira en 3.600 kr. frádrátt, og það kostar það, að þeir verða að taka 6 ha. lands til skógræktar. Till. hv. þm. Barð. er ákaflega áferðarfalleg, þ. e. að menn geti gert sig skattfrjálsa með því að gefa til SÍBS, og þá var hæstv. 1. varaforseti einnig með brtt., sem ég sé ekki að þurfi að koma þessu máli við, og eftir þeim áhuga, sem hún hefur á skógrækt, veit ég, að hún muni draga till. sína til baka heldur en að verða skógræktarmálunum til trafala. Þá eru till. frá hv. 4. landsk., en þær eru utan við þetta mál, og allar þessar till. eiga sammerkt í því að snerta ekki skógræktarmálið, og ætti því að vera hægt að halda þeim til hliðar. Fyrri flm. þessa frv., hæstv., landbrh., er því miður ekki hér til varnar eða sóknar í málinu, og syrgi ég það mjög, þar sem hann er mér miklu orðfærari, en það verður að skeika að sköpuðu og atkv. að ráða, hvort frv. lifir eða deyr, en ég hygg, að það komi fram, hverjir hafa verulegan hug á skógrækt í landinu og hverjir hafi hann minni.