04.05.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Barð., að ég furða mig á, að þetta frv. skuli vera borið fram og lögð svo mikil áherzla á að fá það samþ. Ég benti á það við 2. umr., að væri farið inn á þá braut að undanþiggja hluta teknanna skatti, þá væri erfitt að stöðva sig aftur á þeirri braut. Ef fé, sem er varið til skógræktar, er undanþegið skatti, hví á þá ekki alveg eins að undanþiggja það fé, sem varið er til kornræktar eða byggingar votheysturna, skatti? Það má lengi halda áfram á þessari braut, og svo bætast við till. eins og till. hv. þm. Barð. um það, sem varið er til mannúðarmála. Í sambandi við till. tel ég hyggilegra að hækka heldur framlag ríkisins til bygginga í Reykjalundi,en að svipta ríkið sköttum þessum og nota heldur af sköttum þessum til að styrkja SÍBS. Ég er því andvígur þessu frv., en þar sem útlit er fyrir, að það verði samþ., þá vil ég bera fram brtt. við persónufrádrátt skattalaganna. Hann er nú 900 kr. fyrir einstakling, 1.00 kr. fyrir hjón og 700 fyrir barn. Það ber öllum saman um, að þessar upphæðir séu allt of lágar og í engu samræmi við framfærslukostnaðinn. Ég ber því fram till. um, að í frv. komi ný gr. á eftir 1. gr., þar sem ákveðið er, að persónufrádrátturinn verði sá sami um allt land, 1.00 kr. fyrir einstakling, 3.00 kr. fyrir hjón og 1.00 kr. fyrir barn. Þetta er 600 kr. hækkun á einstakling og 500 kr. hækkun á barn. Bætur einstaklinga á 1. verðlagssvæði nema nú 1.60 kr. í grunn, auk sjúkrasamlagsbóta. Nú hefur verið samþ. hér að auka við þetta 10%, þannig að þetta nemur um 1.450 kr., eða nær sömu upphæð og gert er ráð fyrir, að persónufrádrátturinn nemi. Og ég sé ekki annað, sem heppilegra er að miða við, og vona, að hv. d. þyki þetta sanngjarnt. Þá þykir mér rétt að geta þess, að ef annað sjónarmið yrði tekið upp í tekjuskattsstiganum og hann yrði gerður rífari, þá verði byrjað hærra, en nú er, enda hlægilegt að leggja 1–2% á litlar upphæðir. og væri þá hægt að byrja hærra, ef persónufrádrátturinn er hækkaður.

Um aðrar brtt. segi ég ekki margt, en út af brtt hv. 8. þm. Reykv. og hv. 4. landsk. vil ég taka það fram, að það sjónarmið er nokkuð einhliða. Talsverð sanngirni mælir með því ef hjón vinna bæði úti, að tekjur konunnar séu skattlagðar sérstaklega eða dregið frá þeim ráðskonukaup, en þetta er þáttur af stærra máli, og mér finnst rangt að draga þetta atriði út úr stærri löggjöf. Ég get ekki séð, hvers vegna maður, sem vinnur fyrir 50 þús. kr. á ári og á börn og konu, sem vinnur á heimilinu, ætti að borga hærri skatt en hjón, sem bæði vinna úti og hafa hvort um sig 25 þús. kr. tekjur. Ef hverfa á frá því, að hjón telji fram saman, þá væri eðlilegast, að konu, sem vinnur heima, væri reiknaður hluti af tekjum mannsins og það skattlagt sérstaklega.

Ég endurtek dæmið um mann þann, sem hefði t. d. 50 þús. kr. í árstekjur og sér síðan auðvitað um heimilið, og svo hins vegar hjón, sem bæði vinna úti og hafa hvort um sig 25 þús. kr. í árstekjur, og get ég ekki séð, að það sé eðlilegt, að hér verði mismunandi tekjuskattur hjá þessum hjónum, þó að árstekjur beggja um sig séu þær sömu. Þetta er ekki réttlætanlegt. — Skal ég ekki tefja umræður um þetta lengur, en afhendi forseta hér skriflega brtt.