17.01.1950
Neðri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

94. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur verið rætt svo mikið undanfarin ár hér á Alþingi, að óþarft er að fara um það mörgum orðum. Það var árið 1946, sem samþykkt voru lögin um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og sveitum, og þar með í rauninni gerð 4 ára áætlun um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis í landinu. Ætlunin var, að sveitarstjórnir söfnuðu skýrslum um slíkt húsnæði, hver á sínum stað, og nauðsyn á aðstoð hins opinbera við það fólk, sem hefði þannig aðstæður, að það gæti ekki byggt yfir sig af eigin rammleik, og gerðu áætlun um nýbyggingar á grundvelli þeirra rannsókna. Var með þessu stigið stórt spor í félagsmálalöggjöf okkar, enda þótt að hafi ekki komið að þeim notum, sem til var ætlazt. Efndir þeirra fyrirheita, sem löggjöf þessi fól í sér, hafa sem sagt ekki orðið aðrar en þær, að því er ég bezt veit, að reistar voru 64 íbúðir við Skúlagötu í Reykjavík og um 8 íbúðir á Ísafirði. Sá kafli þessara laga, sem fjallaði um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, var í rauninni felldur úr gildi árið 1948, og síðan hefur verið fellt árlega að veita fé til þessa á fjárlögum. — Þörfin var þó ekki síður brýn, en þegar lögin voru sett. Árið 1946 voru framkvæmdar hér í Rvík þær rannsóknir, sem lögin stóðu til, og kom í ljós, að af 326 braggaíbúðum voru 200 heilsuspillandi, og af 1.884 kjallaraíbúðum voru 452 heilsuspillandi. Í þessum 652 heilsuspillandi íbúðum bjuggu þá um 3.300 manns — og var þó þessi rannsókn alls ekki tæmandi, því að hún náði ekki til skúra eða háaloftsíbúða. Þannig var ástatt 1946. En þörfin hefur sízt farið minnkandi síðan. Húsaleigunefnd skýrði t. d. nýlega frá því, að 1.677 manns, þar af 419 börn, byggju nú í bröggum, en það er 377 manns fleira, en 1946. Í blöðum hér í Rvík hafa birzt lýsingar á því undanfarið, hvernig aðbúð þessa fólks er háttað.

Ég geri ráð fyrir því, að einhver segi, að við höfum ekki efni á að framkvæma áætlunina frá 1946. En mér er næst skapi að snúa þessu við: að við höfum ekki efni á því að láta þúsundir manna hírast í slíkum híbýlum. Við höfum og möguleika á að framkvæma þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða. En tvennt þarf til þess: byggingarefni og vinnukraft. Sé þetta hvort tveggja fyrir hendi, er hitt svo fyrirkomulagsatriði, hvernig framkvæmdum verður hagað. Byggingarefni getum við fengið án þess gjaldeyrisforða, sem nú er fyrir hendi, t. d. með útgerð gömlu togaranna af bæjarfélögunum, sem fái síðan óbundnar hendur með ráðstöfun þess gjaldeyris. Þá er vinnuaflið fyrir hendi, því að nú þegar er farið að bóla á atvinnuleysi í landinu. Til fjáröflunar innanlands eru til ýmsar leiðir, en Landsbankinn hefur undanfarin ár haft um 20 millj. kr. í hreinan ágóða. Og þar eð, að frásögn Jóns Árnasonar bankastjóra, bankinn hefur í tvö ár ekki lánað neitt til húsbygginga, þá er eigi úr vegi, að gróði hans gangi tiI þessara framkvæmda. Þá er framkvæmdaratriðið annað mál. Ef frv. þetta verður samþ., er sjálfsagt að athuga það atriði. Ég geri svo ekki ráð fyrir, að skýra þurfi þetta neitt nánar. En ég álít, að fólkið í þessu húsnæði tæki því með þökkum, ef fulltrúar flokkanna beggja skýrðu frá afstöðu sinni, og það því fremur sem málgögn þessara flokka hafa undanfarnar vikur gert mál þessi að umtalsefni.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.