27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2622)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Vegna þess, að 1. flm. frv. er ekki viðstaddur, vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir þessu máli. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, því að frv. mun vera auðskilið öllum hv. þm. Efni þess er það að ákveða, að söluverð á benzíni frá benzíngeymum skuli vera hið sama um land allt, og til þess að þetta megi verða, skuli innheimt verðjöfnunargjald af öllu benzíni, sem til landsins er keypt, öðru en flugvélabenzíni. Viðskmrn. á að ákveða gjald þetta fyrir eitt ár í senn, og má það ekki vera hærra, en 10 aurar á lítra, en gjaldi þessu skal varið til þess að greiða flutningskostnað á benzíni milli útsölustaða innanlands, 2il þess, eins og áður er sagt, að sama söluverð geti verið á þessari vöru hvar sem er á landinu. Eins og bent er á í grg. frv. og öllum er kunnugt, er verð á þessari vöru mjög misjafnlega hátt á landinu, þannig að það mun muna 20 aurum á lítra, sem benzín er hærra í verði þar, sem það er selt hæsta verði frá benzíngeymum, heldur en þar, sem það er selt lægsta verði. Þetta gerir að sjálfsögðu mikinn aðstöðumun hjá þeim, sem þurfa að nota þessa vöru, en eins og kunnugt er, er benzín nú orðið mikið notað, um land allt og hefur notkun þess mjög vaxið hin síðari ár vegna þess, hve mikið er af vélum í notkun, bifreiðum og öðrum vélum, sem benzín þarf til. Nú er það svo yfirleitt, að þar, sem benzín hefur verið selt hæsta verði, þar eru vegirnir líka verri og benzínfrekari, en í þéttbýlustu hlutum landsins, þar sem benzínverðið er lægst, og er það enn tilfinnanlegra fyrir þá, sem þurfa að kaupa benzín fyrir hærra verð en annars staðar er á því, þar sem benzín notkunin er líka meiri hjá þeim, t. d. miðað við þær vegalengdir, sem þeir fara á sínum farartækjum. Við flm. frv. teljum því, að allt mæli með því, að verðjöfnun sé gerð á þessari vöru, svo að menn geti fengið hana fyrir sama verð um land allt, og að því er stefnt með þessu frv.

Ég vil leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn., og ég vænti þess, að hv. n. sjái sér fært að afgr. málið hið fyrsta, þar sem nú er mjög liðið á þingtímann, en von okkar flm. er sú, að málið fái endanlega afgreiðslu áður, en þingi lýkur. Það er mikill áhugi fyrir því víða um landið, að þessari skipan verði á komið, sem hér eru gerðar till. um.