27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Flm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Það hefur nú tekizt þannig til, að þegar umr. um þetta mál hófust, var ég ekki staddur inni í hv. d., og hefur meðflm. minn, hv. þm. V-Húnv., flutt framsögu fyrir málinu. En það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja vegna ummæla hv. 2. þm. Reykv. (EOl). Hann talar mjög mikið um, að þetta sé ekki rétt leið, sem hér er lagt til að farin verði til þess að verðjöfnun komist á benzínið eða til þess að bæta aðstöðu þeirra, sem lengst búa frá innflutningshöfnum og mesta erfiðleika hafa af flutningunum og mest hafa útgjöld vegna benzíngeymslu sakir framleiðslu sinnar o. fl. Það má kannske eitthvað um það deila. Hann minntist sérstaklega á það, að rétta leiðin væri sú að pína olíufélögin til að lækka verðið á þessum stöðum fyrst og fremst. Þetta frv. útilokar það alls ekki, ef sú leið lægi opin fyrir, að olíuhringarnir lækkuðu sitt verð, ef tök væru á því. Það ætti að geta gengið fyrir því, þó að þetta frv. næði fram að ganga. Eftir reynslu undanfarinna ára hefur þetta verið þannig, að ég býst við, verði engin breyting á þessum málum gerð, að þá mundi sú lækkun verða nokkurn veginn hlutfallslega jöfn alls staðar, og þá yrði sama misræmið eftir sem áður milli þeirra, sem benzín nota. Hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að þetta mundi hafa í för með sér hækkun á benzíni til vöruflutningabílstjóra hér í Reykjavík. Það gæti gert það eitthvað. Það er geysilega mikið af vörubílum annars staðar á landinu, en í Reykjavík og þeir vörubílstjórar, sem búa annars staðar úti um sveitir landsins, þurfa alveg eins lækkunina og hinir, enda er það það, sem frv. fer fram á, að verðið verði jafnað þannig, að aðstaða þeirra, sem benzín þurfa að nota til flutninga og framleiðslu, verði sem svipuðust um allt land. Þegar hv. 2. þm. Reykv. minntist á hækkun á benzíni til bíla í Reykjavík, þá datt mér í hug, hversu það er fráleitt fyrirkomulag, að einkabílar hér í Reykjavík, sem eru notaðir til að keyra hér um göturnar og til að skemmta sér í þeim úti um sveitirnar, hefðu ódýrara benzín, en bændur hafa til framleiðslustarfa sinna og bílstjórar hafa, sem flytja framleiðsluvörur bændanna og lífsnauðsynjar. Ég sé ekki, að þetta frv. útiloki það á nokkurn hátt, að reynt sé að knýja benzínverðið niður hjá olíufélögunum, en ég býst við því, að ef það tækist að knýja verðið niður á þennan hátt, þá mundi það verða gert hlutfallslega jafnt á öllum útsölustöðum á landinu, og er þá alveg eins þörf fyrir þessa verðjöfnun til þess að jafna aðstöðu manna á landinu til framleiðslu og vöruflutninga, og það er sérstaklega það sjónarmið, sem stendur á bak við þetta frv.