27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég get viðurkennt ýmislegt af þeim rökum, sem fram hafa komið í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og eins þáltill. um svipað efni, sem hv. 8. landsk. þm. vék að í sinni ræðu. Það kann að virðast, að í þessu sé mikil jafnréttishugsun, eða að þetta frv. eigi að koma í veg fyrir, eins og hv. flm. sagði, misrétti milli þeirra, sem benzín nota, og að það eigi að gera aðstöðu manna, sem benzín nota, sem svipaðasta. Nú er ekki víst, að þar með sé öll sagan sögð og að það skapist endilega meira jafnrétti með þessu, ef ekki er litið meira í heild til þess, hvernig benzínsölu er fyrir komið hér á landi, og aðstöðu manna, sem benzín nota. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á einu atriði, sem kæmi til athugunar í n., sem fær málið til meðferðar. Það eru til l. um benzínskatt, sem leggja 31 eyris innflutningsgjald á hvern lítra af benzíni, og í þeim l. eru ákvæði um það, hvernig þessum skatti skuli varið. Af honum fara 5 aurar í brúasjóð og 21 eyrir til þjóðvega á landinu. Sjálfsagt er þetta hvort tveggja nauðsynlegt, en það eru víðar akvegir á landinu en þeir, sem kallaðir eru þjóðvegir, og með þessu móti fer það svo, að þar, sem benzínið er kannske notað mest, fer ekkert af þeim skatti, sem lagður er á það, til vegagerðar, en sú vegagerð er þó eins þörf og ærið kostnaðarsöm. Á ég þá við vegagerðir í kaupstöðum. Þó að dreifbýlið og sveitir landsins hafi einhvern tíma að ýmsu leyti staðið verr að vígi með samgöngur og samgöngubætur, — og frá þeim grundvelli mun sú hugsun vera runnin að verja þessum benzínskatti til þjóðveganna, — þá verður að líta á það, þegar þróunin stefnir í þá átt, að ríkið gengur meira og meira á þá tekjustofna, sem bæirnir geta haft til að skapa sjálfum sér tekjur, þá verða þeir, sem hugsa um hagsmuni bæjarfélaganna, einnig að gæta þess, að bæjarfélögin séu ekki beinlínis sett út undan með tekjuaflanir, sem samkv. eðli málanna ættu engu síður að falla til þeirra, en sveitarfélaganna. Það er áreiðanlega vafasamt, hvernig úr rætist á næstu tímum með innheimtu útsvara í kaupstöðum, sem eru þær einu tekjur, sem bæirnir hafa í raun og veru til að standa undir sínum gjöldum. Og það verður erfiðara að leggja útsvörin á og innheimta þau, eftir því sem ríkið leggur meira á almenning af sköttum, tollum og óbeinum gjöldum á atvinnuvegina. Ég vil vekja athygli á þessu, og þegar verið er að tala um að jafna verð á benzíni og skattleggja þá, sem bezta hafa aðstöðu, þá virðist mér þetta eiga að koma fram. Mér virðist, að 6 aurar af þessum benzín- skatti muni fara til ríkissjóðs, án þess að fara til akvega. Það er ekki fyrst nú, sem ég hef hugleitt þetta atriði í sambandi við benzínskattinn, en það þarf sjálfsagt gaumgæfilega athugun, áður en gerðar eru samþykktir um það. Ég vildi sem sagt vekja athygli á þessari hlið málsins, svo að n. taki hana einnig til athugunar.