27.04.1950
Neðri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

141. mál, verðjöfnun á benzíni

Einar Olgeirsson:

Hv. fyrri fim. frv., þm. V-Sk. (JG), talaði um, að það væri ákaflega æskilegt, ef tök væru á því að lækka benzínverðið, en sagði, að hann væri hræddur um, að svo framarlega að tök væru á slíku, þá mundi benzínverðið verða lækkað á þann hátt, að það væri lækkað hlutfallslega jafnt alls staðar á landinu. Það væri nú ákaflega gott út af fyrir sig, ef hægt væri að kúska olíuhringana til þess að lækka benzínverðið um allt land nú þegar. Benzínverðið er nú hér í Rvík kr. 1,35 og þá að líkindum kr. 1,55 úti á landi. Það væri ákaflega gott út af fyrir sig, ef hægt væri að lækka benzínverðið alls staðar á landinu um 20 aura lítrann. En það mundi þýða mjög gífurlega lækkun í þessu tilfelli. En þá óttast hv. flm., að þetta misræmi héldist. En aðalatriðið fyrir þá, sem úti á landinu eru og nota mikið benzínið, væri náttúrlega verðlækkun fyrst og fremst, til þess í staðinn fyrir að borga kr. 1,55 fyrir lítrann af því þá yrði það á kannske kr. 1,35 lítri, jafnvel þó að það lækkaði þá líka í Reykjavík úr kr. 1,35 niður í kr. 1,15 pr. lítra. Það er ekki bara spurningin um samanburð á verðinu og misræmi í því sambandi, sem hér á að koma til greina sem aðalkappsmál þeirra, sem í dreifbýlinu eru og þurfa mikið að nota benzín. – Ég býst við, að það mundi kannske verða nokkuð erfitt að knýja olíuhringana til þess að lækka benzínverðið svona gífurlega alls staðar á landinu. En t. d., ef væri verið að reyna við þá með að lækka verðið á benzíni, þá þarf a. m. k. ekki mikið til þess að knýja þá til að láta við skulum segja verðið á benzíninu utan Reykjavíkur verða eins og það er nú í Reykjavík. Og þá á maður að byrja á því að reyna að láta þá lækka verðið alls staðar á landinu jafnt, um 20 aura á lítrann, en svo semdum við síðan við þá um að lækka verðið á benzíninu um 20 aura alls staðar úti á landi. Ég álít það ákaflega sanngjarnt, að benzín og olía sé selt hvað fyrir sig alls staðar á landinu jafnháu verði. En ég álít ósanngjarnt að ætla að framkvæma þessa jöfnun á verðinu með því að gera það á kostnað manna í kaupstöðunum, sem þurfa að nota það, vegna þess að það er vitanlegt, að hægt er að framkvæma þessa jöfnun á verðinu með lækkun einni saman á olíuverðinu á kostnað olíuhringanna. Spurningin, sem hv. þm. V-Sk. setur fram, er, hvort það séu tök á þessu. Og hann sagði, að ef tök væru á þessu, þá væri það gott. En hefur þetta verið nokkuð reynt? Hefur það verið athugað af hálfu þeirra manna, sem flytja þessa till.? Þeir hafa þó haft aðstöðu til þess. Þeir eru báðir málsmetandi menn í öðrum stjórnarflokknum og þeir hafa tekið þátt í að setja í gegn í þinginu frv. um verðlagseftirlit. Þeir hafa aðstöðu til þess að hafa áhrif á, hvernig verðlagið er í landinu. Ef þeir sjá ekki ráðið til þess að tala við olíuhringana, þá er ósköp hægt að benda þeim á það. Ég býst ekki við, að það þyrfti annað en að segja við einn af þremur olíuhringunum hér: Lækkaðu olíuna um 20 aura eða eitthvað annað til tekið, og þú færð einn að flytja inn olíu fyrst um sinn. Eða: Lækkaðu verðið tafarlaust, annars færðu ekki innflutning. — Það er slegizt um að selja olíuna nú. Henni er dælt í sjóinn, vegna þess að það er of mikið af henni. Ef við kunnum á málunum að halda, þá hagnýtum við okkur hina harðvítugu samkeppni um olíusöluna, sem um er að ræða. Við höfum gert slíkt fyrr hér á landi, og við höfum sannað, að það var hægt að lækka benzínið um meira en 10%. Það væri hægt að velta öllum tollinum, sem lagður var á benzínið, yfir á hringana. En það er aðeins hægt með því að tala við þá og láta þá vita, að við ætlum ekki að láta þá arðræna okkur. — Báðir þessir hv. þm., sem flytja frv., hafa góða aðstöðu til að tala við Samband íslenzkra samvinnufélaga. S. Í. S. er einn hluthafinn í stærsta olíufélagi landsins. Bændasamtökin hafa því fulla aðstöðu til þess að setja hnefann í borðið við olíuhringana hér. S. Í. S. hefur aðstöðu til þess, ef það vill nota hana, gagnvart þeim hring, sem það er fulltrúi fyrir, gagnvart þeim hring, til þess að lækka verðið. Ég veit ekki betur en því væri lofað, þegar S. Í. S. fór inn í þessi olíumál, að það gerði það til þess að lækka verðið. Af hverju getur ekki S. Í. S. sagt við Standard Oil, sem það hefur umboð fyrir: Á morgun skuluð þið lækka verðið, ef þið viljið, að ég hafi umboð fyrir ykkur? — Ætli gróðinn hjá Standard Oil sé ekki nógu mikill til þess að það sé hægt að klípa þetta af honum til handa íslenzkum sveitabændum, til þess að lækka verðið á benzíni, sem þeir þurfa að nota, beint og óbeint? Spurningin er ekki um það, hvort Standard Oil geti þetta. Nei, spurningin er um það, hvort S. Í. S. vill segja við það olíufélag: Á morgun hætti ég að hafa umboð fyrir þig og fer til annarra, ef ekki verður lækkað verðið á benzíninu. — Það eru til l., sem sett voru þegar Vilhjálmur Þór var ráðh., sem heimila okkur að taka einkasölu á olíu í okkar hendur, og í ákvæðum þeirra er ríkisstj. veittur réttur til þess að taka eignarnámi tæki, sem notuð eru við dreifingu á benzíninu. Það eru hringarnir, sem biðja okkur að kaupa, og ef við gerum það, þá heimta þeir af okkur peninga. En við þurfum ekki að vera upp á það komnir að láta þá okra á okkur. — Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að koma með það frv., sem hér liggur fyrir, og láta þannig undan þrýstingnum frá þessum hringum og ætla svo að velta því yfir á notendur benzínsins í kaupstöðunum, sem hvílir þyngst á þeim, í sambandi við benzínverðið, sem í sveitunum búa. Ég held, að alþýðan eigi að standa saman og láta hringana vita, að þeir geti ekki ausið upp auðnum hér á landi og arðrænt okkar þjóð, svo framarlega að við viljum standa saman á móti þeim. Þess vegna er ég á móti þessu frv. Það á ekki að leysa erfiðleika sveitaalþýðunnar á kostnað alþýðunnar í kaupstöðunum heldur með samstarfi sveitaalþýðunnar við kaupstaðaalþýðuna í baráttu á móti þessum hringum. Og þessi sama spurning, sem er svona erfið fyrir bændur og bifreiðarstjóra, sem eiga heima og aka langt frá kaupstöðunum, það sama skapar líka erfiðleika um söluverðið í kaupstöðunum. Og það er sanngirniskrafa, að verðið í sveitunum á þessum vörum sé lækkað í það sama verð sem er á vörunni í kaupstöðunum. En það á að gera á kostnað hringanna. Við eigum að létta af Íslendingum byrðum yfir á þessa hringa, en ekki að velta böggunum hverjir yfir á aðra hér innanlands.